Wednesday, April 28, 2010

Maggi fimmtugur

Já ótrúlegt en satt - maðurinn er orðinn fimmtugur.
Á miðnætti var opnuð kampavínsflaska og pakkar opnaðir, læt nokkrar myndir fljóta með. Í morgun var svo „speglaterta" sem heitir réttu nafni Kanilterta en var alltaf á spegli í stórafmælum hjá ömmu og afa og hefur fengið þetta nafn :-)
Ofninn hér er ekki sérstakur, mælieiningar aðrar og hráefni að sjálfsögðu ekki það sama... en hún lukkaðist ágætlega. Útlitið hefði mátt vera betra, ekkert kökufat til á heimilinu en hún var bara nokkuð góð - þó ég segi sjálf frá :-)

Í kvöld er ég búin að panta borð á veitingastað hér ekki langt frá, skemmtilegur matseðill þar en ég ætla ekki að segja meira... strax.

Mamma hans sendi pakka og kort, hér er sá gamli að lesa kortið...

Spennan eykst... Það var búið að leggja á borð fyrir morgunmatinn, keyptir voru túlipanar og í leiðinni keypti ég blóm á svalirnar. Þau fá vonandi að vera í friði fyrir íkornanum, vini okkar!

...og það var þessi fína klukka...

...sem passar flott á arinhilluna.

Þá voru það pakkarnir frá mér... það var ekki til afmælispappír og engin ástæða til að kaupa rúllu til að henda beint í ruslið. Svo ég skrifaði bara skemmtileg skilaboð utaná annan þeirra, þau verða ekki sýnd hér - ekki fyrir viðkvæma :-)

Fyrsta var það dýna..... hmmmmmmm hvað á að gera við hana?

Svo aðal græjurnar... Nú á bara eftir að hengja þetta á einhverja hurðina hér og byrja að æfa! Þessi gjöf var nú ekki illa meint... sumir gefa sér bara ekki tíma í ræktina og hann sá þetta einhverntíman í auglýsingu og fannst þetta sniðugt, vona samt að þetta endi ekki eins og líkamsræktartæki á þúsundum heimila „undir rúmi"...

Þarna er eiginkonan hálf (morgun)úldin... með kökuna góðu og búin að syngja afmælissönginn...

Þá var ekkert annað eftir en að blása á kertin og ráðast á kökuna.
Til hamingju með daginn Maggi minn...
Afi bauð fólki í 100 ára afmælið sitt þegar hann var 99 ára, það eru mörg ár í það enn :-)

Tuesday, April 6, 2010

Herra Jason er kvenkyns....

Já það kom í ljós á sunnudaginn að vinur okkar hann Jason er eftir allt saman kvenkyns!
Það er sennilega ástæðan fyrir því að hann/hún var svo feit(ur) í vor og nú eru komnir spenar í ljós.... sennilega hefur daman verið ungafull og ekki slæmt að hafa haldið í henni lífi í kuldanum í vetur.
Nú er það spurning um nafn, Jane kom upp og er það fínasta lýsing á þessari ofurkonu sem hoppar hér uppá svalirnar eins og Tarzan og Jane...

Við sátum hér úti í 30 stiga hita á sunnudaginn og nutum sólarinnar, þá mætti daman á svalirnar og þegar fyrsti skammturinn af hnetunum var búinn, hljóp hún um handriðið og sýndi listir. Svo var hún komin á gluggakarminn á glugganum fyrir ofan hurðina, horfði inn til að láta vita af sér, svo var hún komin rétt innfyrir dyrnar til að forvitnast. Maggi gaf henni því hnetur og hún borðaði nánast úr höndunum á honum. Ferlega fyndið að hafa þetta dýr hér í fæði :-)

Nú ætla ég að hlaupa út og njóta veðursins, labbaði hér um mest allan gærdaginn og svitnaði ekkert smá. Það hefur ekkert vor verið heldur var svissað beint yfir á sumar með tilheyrandi hita. Þetta gerðist daginn eftir að ég kom til baka - sennilega sérstaklega gert fyrir mig :-)

Á sunnudaginn (páskadag) fórum við í mat til foreldra Jonathans vinnufélaga Magga og hittum þar bróður hans og hans konu og son og Elsu dóttur Jonathans og fyrrverandi konu hans líka... fyndin samkoma :-)

Meira seinna en læt nokkrar myndir fylgja af vinkonu okkar
kv Magga





Saturday, April 3, 2010

Cherry Blossom

Það er komið sumar hér - allavega frábært vor...
Maggi fór í mótorhjólaferð með einhverjum gaurum en ég gerðist túristi og fór að skoða Cherry Blossom, ekki smá flott... nokkrar myndir hér.