Monday, October 26, 2009

Haustlitir í DC

Það eru komnir svo flottir haustlitir hér og varð ég því að fara út með myndavélina og reyna að ná einhverju af þessu. Því miður fór ég of seint og náði því miður bara nokkrum... þarf að fara fyrr næst - áður en sólin fer of lágt.

Haustlitirnir hinu megin við götuna, þetta tré er nánast appelsínugult...

Í dag byrjaði alvaran aftur, ég fór á enskunámskeiðið og var sagt að ég hefði misst af skemmtilegu potluck um daginn, þá lögðu allir í púkk og allskonar réttir frá ýmsum löndum, við erum frá svo mörgum löndum þarna á námskeiðinu að þetta hlýtur að hafa verið flott. En maður getur ekki gert allt, hugmyndin er að hittast heima hjá kennaranum þegar nær dregur jólum!!

Ég þarf að halda fyrirlestur í nóvember, hef ekki hugmynd um hvað ég á að tala í 10 mínútur... kannski eitthvað sem ég hef áhuga á eða eitthvað um Ísland, eitthvað íslenskt... I have no idea!!! Þarf að hugsa...

Ég lagaði aðeins hausinn á þessu bloggi, sá um daginn að það vantaði „h" í Washington og tók ekki eftir því fyrr - enginn var að benda mér á það heldur. Það var OK í öllum öðrum texta og vinstra megin.... en svona er maður stundum blindur. Lagaði líka í leiðinni commentin, nú geta ALLIR sett inn comment :-)

Annars notaði ég seinnipartinn til að þvo þvott og ganga frá mínu dóti eftir Íslandsferðina, það var nóg um allskonar dót, búin að setja hangiketið og harðfiskinn í frysti, hákarlinn er á góðum stað í ísskápnum :-) búið er að fela nammið... allavega koma því þannig fyrir að maður sjái það ekki og freistast þ.a.l. ekki í það!! Brennivínsflöskurnar (50ml) eru komnar í frysti og tilbúnar með hákarlinum.... nú er bara spurning hvert verður fyrsta fórnarlambið - að koma í mat til okkar og prófa hákarl og frosið brennivín he, he, he... nú er spurning hvort fólk yfirleitt fílar þetta eða hvort okkur verður hent út hér vegna „rotten smell" :-)

Ætla snemma í háttinn - meira seinna
Magga


Þetta er gatan okkar - allskonar litir í gangi...

Þá eru það pumpkin, þau eru mjög áberandi núna enda Halloween í lok mánaðarins. Það eru nú mis smekklegar skreytingar við hús, sumir búnir að setja virkilega ógeðslega köngulóavefi í runnana fyrir framan húsið úúúhhhhhhhhh.....

Sunday, October 25, 2009

Komin heim!!

Þá er ég loksins komin HEIM til DC aftur :-) eða hvar á ég annars heima?

Á leiðinni til Íslands var seinkun, flugi aflýst og stress að fá nýtt flug og ná því... á leiðinni heim var svo seinkun, vélin hringsólaði yfir New York í þónokkurn tíma vegna umferðar og þurfti svo að bíða heillengi á flugbrautinn til að komast að (spurning hvort Iceland Air er annars flokks flugfélag þarna...?) þannig að það var rúmlega klukkutíma seinkun og hélt ég að þá myndi ég missa af tengifluginu til DC, því ég hafði bara 45 mín. til að komast í gegnum öll hlið og í annað Terminal á JFK flugvellinum (sem er EKKI lítill).
En í þetta sinn var heppnin með mér, ég sleppti því að taka lestina á milli Terminala og tók í staðin leigubíl til að flýta fyrir mér... búið var að loka afgreiðslunni þegar ég komst inn. En heppnin var enn og aftur með mér, afgreiðslufólk með þjónustulund og einhver gaur látinn hlaupa með töskuna mína á réttan stað og ég fékk brottfararspjaldið - og enn var ég heppin, fluginu seinkað :-).... og seinkað meira, komst af stað 2 klst. seinna en áætlað var og þ.a.l. alla leið um miðnætti, sem þýddi kl. 4 um nótt á Íslandi og því búin að vera rúma 12 klst á leiðinni... zzzzzzzzzz

Ferðin var bara nokkuð góð, ég hitti ungan minn og gisti hjá henni, gaman að hitta þig Dagný :-)
Byrjaði á að fara í heilun, mmmmmmm yndislegt.
Fórum saman norður mæðgur, gistum hjá pabba og mömmu, hittum ömmu og eyddum góðum tíma með henni, var boðið í afmælismat til Heiðu (og Dadda) og sá ég þá litlu frænku í fyrsta skipti. Takk fyrir mig öll...

Því miður var svínaflensa að stinga niður fæti hjá fólki og því „sóttkví" á þeim heimilum og ég því úti í kuldanum!!! En sími og mail bættu það upp.

Við fórum aftur suður eftir 4 daga í norðri og var ég búin að panta tíma hjá augnlækni (fékk frábæra skoðun), heilun, tannlækni og hjá Gústu homopata. Þetta var allt flott og frábært að geta notað ferðina í þetta. Við Dagný áttum líka góðan tíma saman, notuðum hann í leti og fórum í ýmsar reddingar. Foreldrar Guðrúnar, sambýlings og vinkonu Dagnýjar, voru líka fyrir sunnan + systkin svo það var ansi þröngt í kotinu en bara nokkuð fínt líka.

Ég notaði ferðina í að kenna Dagnýju að elda þrjá af hennar uppáhalds réttum og var gerður góóóður skammtur og frystirinn fylltur :-) farið var að versla og mamma hjálpaði þannig unganum sínum :-)
Það sem var líka frabært var að fara í sund, heita pottinn og gufu, hef ekki komst í svona heitt vatn í alltof langan tíma. Höfum ekki almennilegt bað og hef ekki fundið heita sundlaug heldur - hef reyndar ekki eytt tíma í leitina heldur!!!!

Ég hitti líka vini mína fyrir sunnan, Ara og Ágústu og ekki var það slæmt... skiptumst á hlutum frá DC og Rvk, þau eru að gera frábæra hluti og mæli ég hiklaust með því að kíkja á vinnustofu þeirra á Vesturgötunni, fyrirtækið heitir „Níu heimar" og flottir hlutir sem þau eru að hanna og framleiða, fullt af öðruvísi og skemmtilegum gjöfum handa íslendingum og ekki síður til að senda vinum og fjölskyldum erlendis.

Ég skellti mér til Selfoss, hitti svo skemmtilega á að ég mætti á matartíma :-) fékk þessar fínu alíslensku kjötfarsbollur í hádegismat, með rabarbarasultu og alles mmmmmmm, hef ekki borðað svona í mörg ár. Litla heimasætan hún Sóley var nú algjör dúlla, orðin 6 vikna og ég að sjá hana í fyrsta skipti. Hún tók sig nú til og svaf sennilega í 4 klukkutíma í tilefni þess að ég var á svæðinu :-) En við Heiða fengum okkur góðan göngutúr með hana sofandi og spjölluðum heilmikið saman yfir kaffibolla - bara gaman hjá okkur. Takk fyrir mig Heiða, Robbi og Sóley.

Síðasta kvöldið fórum við mæðgur í 120 ára afmæli.... = 60+60 ára afmæli Öddu og Jóhanns. Mjög skemmtilegur salur sem þau voru með veisluna í, frábær matur (enda ekki við öðru að búast af þessum kokki), skemmtileg tilviljun að þetta skyldi vera á þeim tíma sem ég var á landinu. Ekki skemmdi heldur fyrir að Ari frændi kom frá Noregi og höfum við ekki hist í 14 ár, hann hefur nú ekki breyst mikið og íslenskan hans mjög fín ennþá. Þau ætluðu svo öll norður daginn eftir og hitta ömmu, henni finnst það nú ekki slæmt.
Ég hafði keypt kerti handa þeim í afmælisgjöf, handgerð frá Suður Afríku, sá bara Öddu og Jóhann fyrir mér þegar ég rakst á þessi kerti.... og Adda sagði mér að þetta væru hennar uppáhalds kerti og hún keypti alltaf svona þegar hún færi til Ameríku... ekki slæmt að hitta svona í mark :-)

Þessir 12 dagar voru semsagt ekki lengi að líða....
Hinsvegar er ég ekki endilega á leiðinni heim (hvar sem ég á nú heima :-) á næstunni, það þarf ýmislegt að breytast á Íslandi áður en við förum þangað aftur. Atvinnumál, lánamál og margt, margt fleira. Verðlagið er farið langt út fyrir öll velsæmismörk, bara á þessum 4 mánuðum sem ég hef verið hér úti finnst mér mataverð hafa hækkað mikið.

Ég vona svooooooo innilega að eitthvað breytst þarna svo fólk lifi þetta hreinlega af....

Hafið það gott og takk fyrir samveruna
Magga

Thursday, October 1, 2009

Leti-bloggari / en nóg um að vera

Hæ loksins læt ég verða af því að kíkja hingað inn, ég er búin að vera alltof löt síðustu daga. Það hefur verið nóg að gera, enskunámskeið, fundir í WBFN, hitta fólk og Workshop.... mér hefur svo sannarlega ekki leiðst.
Enskunámskeiðið gengur fínt, ég fór og hitti WBFN gellurnar, þær eru himinlifandi yfir plagötunum mínum og vilja fá mig í meiri vinnu. Ég talaði við „varaforseta WBFN" í hádeginu um daginn, frábært og fullt af hugmyndum.... bæði í sambandi við vinnu og fleira, frábært að hafa aðgang að toppunum þarna, „forsetanum" sjálfum og öllum þarna því þær hafa allar flutt margsinnis og vita nákvæmlega hvernig þetta er. Þær þekkja helling aff fólki og nú er bara að nota samböndin!!!

Niðurstaðan úr Strong Interest prófinu kom í dag, við unnum heillengi í okkur sjálfum og persónuleika okkar, fórum svo aðeins yfir niðurstöðurnar úr síðasta prófi og þetta er ótrúlega spennandi. Á þriðjudaginn fer ég svo á fund með Elenu í sambandi við mitt eigið áhugagsvið, þetta er klukkutíma einkafundur og það verður örugglega frábært að fá smá input frá henni og fara yfir þetta með fagmanni, hlakka til.

Ég get því miður ekki tekið þátt í coaching því ég er búin að panta mér flug heim... 12.-24. okt, hlakka líka til þess.... en ég talaði við Elenu og get sennilega tekið þátt í þessu með næsta hópi.

Nú svo er spennandi að sjá útkomuna úr prófinu hennar Dagnýjar, ég veit að hún er að farast úr stressi og spenningi og kvíður mikið fyrir einkuninni... þetta er spurning um hvort hún kemst áfram í lögfræðinni....

Maggi kemur heim á morgun.... jibbííííí, eftir 2ja vikna ferð og ég verð eiginlega bara fegin að fá hann heim aftur, þetta er orðið ágætt. En hinsvegar hef ég haft nóg að gera og gert helling hér heima.... sjáum hvernig honum líst á!

Í vikunni hitti ég Iris frá Austurríki, hún er vefhönnuðuður og ætlar að taka að sér plagatið sem ég hefði annars unnið.... líst mjög vel á hana og náðum saman á fyrstu mínútu.
Ég fór svo með Kim í Happy Hour áðan, fengum okkur tvo bjóra og crepes, frábært. Hennar maður (Dean) er í Afganistan núna, ekki endilega draumastaðurinn, hann vinur líka í World Bank. Við ákváðum að við myndum bjóða þeim í mat þegar ég kem heim aftur... hún er frábær og við smellum ótrúlega skemmtilega saman. Við ákváðum líka að hóa saman þremur öðrum hönnuðum sem ég hef komist í samband við í gegnum World Bank, á biðstofu, í enskutíma og á skrifstofu WBFN... hittast í kaffi og spjalla, spennandi!

Paola frá Ítalíu er með mér í þessu Workshop og við unnum saman í dag í ákveðnu verkefni og vorum á ótrúlega skemmtilega líku svæði.... áhugamál og fleira og ákváðum að hittast líka þegar ég kæmi til baka :-) Það spruttu upp skemmtilegar hugmyndir hjá okkur og BARA spennandi...

Ákvað að setja inn 3 myndir sem ég tók af vini mínum honum Jason (Dagný skírði hann um daginn þegar hún fylgdist með honum í gegnum Skype, þá sat hann á gluggasyllunni fyrir utan - á 3ju hæð!!!), hann kemur og heimsækir mig af og til. Ég hef sett hnetur út á svalir og fyrir utan (af og til) þær hverfa alltaf... Þetta er vonandi sá sami og ég hitti á svölunum um daginn :-) með kjaftinn fullan af sumarblómunum mínum!
Ég heyrði heilmikið þrusk uppi á svalarþakinu um daginn, sat úti á svölum með prjónana og naut sólarinnar... þá kíkti þessi litli gaukur aðeins niður og ég hljóp inn og sótti myndavélina. Þá kom í ljós að þessi snillingur kemur niður á svalirnar til að fá sér að drekka... og borða hnetur og sumarblóm :-)





Hafið það gott
Magga