Thursday, May 20, 2010

Góður hiti - yndislegur dagur

Það er búinn að vera mjög fínn hiti hér í dag, sennilega yfir 30°c þegar heitast var. Ég sit úti á svölum með tölvuna og enn eru 26°C kl. 20.... ekki slæmt það.
Dagurinn byrjaði snemma hjá mér, vaknaði kl. 6 og var lögð af stað með mjög þungan bakpoka á mótorhjólinu um kl. 8. Það er svo þung málningin og allt sem ég þarf með mér í skólann en pokinn situr aðeins á aftursætinu hjá mér svo þetta reddast. Það var helv... heitt á leiðinni heim og sólin grillaði á mér handarbökin. Það var semsagt sveitt Magga sem kom heim :-) Ég keypti rabbarbara í vikunni og skellti barasta i eitt pæ þegar ég kom heim... hlakka til að smakka á eftir. Maggi er á leiðinni heim og þá verður hann sennilega ánægður að sjá þetta :-) + rjómi mmmmmmmmm en ætli maður byrji nú ekki á pastanu. Þetta er i fyrsta skipti sem ég geri þetta hér og hef ekki hugmynd um hvernig þetta smakkast - eða tókst!
Í gær fór ég með nokkrum dömum á röltið, Michele var með bók um Georgetown og við röltum meðfram Canal sem liggur þar í gegn og heilmikil saga í kringum þetta svæði, ég nenni nú oftast ekki að fara eftir svona gönguleiðum en þegar við vorum lost þá kom sér vel að fara ekki eftir kortum.... heldur kom sér vel að muna :-)
Svo hitti ég Kim á Happy hour í gærkvöldi og Maggi kíkti á okkur í restina. Alltaf gaman að hitta hana, hún er grafískur hönnuður og vinnur sjálfstætt, maðurinn hennar keyrir mótorhjól og þau hafa líka búið erlendis svo þau þekkja þetta allt saman. Eru bæði kanar og hún uppalin hér á svæðinu.
Á morgun ætlum við Michele í bikini leiðangur, hún er búin að finna verslun sem er með skemmtilegt úrval og mig vantar eitt stk. fyrir Panamaferðina. Finn vonandi eitthvað flott....
Annað kvöld er svo partý hjá Rogerio, vinnufélaga Magga. Hann er frá Brasilíu og fannst ekki annað hægt en að halda almennilega uppá fimmtugsafmælið hans Magga. Allir mæta með eitthvað ofaná pizzu og hann ætlar að redda deginu.... ég gerði sósu áðan til að þurfa ekki að éta þetta drasl úr krukkum :-( Svo verður sennilega kaka (ef hún er amerísk þá er ekki von á góðu - plast, gervidrasl og fleira... algjör froða og bragðlaust).... vonum bara það besta :-) Hann hefur nú mætt með Flan þegar hann mætti hér í mar, sem er bakaður búðingur með karamellusósu... algjör snilld, segir að þetta sé eiginlega það eina sem hann getur eldað :-)
Svo eru Finnbogi og Sessa búin að nefna það að bjóða okkur í mat um helgina, gekk ekki upp hjá okkur síðustu helgi... vá mér finnst það hafa verið í gær!
Á morgun er stór dagur hjá Magga, hann heldur fyrirlestur um jarðhita á jarðhitaráðstefnu hér í DC, allskonar kallar sem mæta þar... og sennilega konur líka :-) Þannig að þetta er síðasti vinnudagurinn hjá honum í maí og fer hann til Panama á mánudaginn, ég á miðvikudaginn. Meira um það seinna.

Læt fylgja með nokkrar myndir frá okkar rölti í gær
Ætla að sötra mitt hvítvín og svo skellum við okkur í pastað góða.... og pæ :-)

Mjög mikið af skemmtilegum, gömlum húsum þarna í Georgetown.

Canallinn sem liggur úr Georgetown og lengst inní land, hestar drógu báta eftir honum, labbandi eftir bakkanum.

Þarna sést aftaná einn bátinn (Akiko tók þessa mynd)

Hestarnir eru ekki lengur notaðir :-) heldur starfsfólkið. Þessi ýtti bátnum fullum af skólakrökkum, sennilega til að koma houm aðeins hraðar :-)

Þarna erum við dömurnar við gosbrunn fyrir framan lúxushótel niður við Potomac. Michele, Magga, Noriko, Camella og Akiko. Fengum einhvern gauk til að ná okkur öllum á eina mynd.

Stundum voru þær alveg yndislega „lost" á kortinu :-) Það var ágætt að hafa þá afsökun að ég væri að taka myndir... fyrir þær líka. Nennti enganvegin að liggja í þessu korti. Hlustaði bara á lýsingar frá þeim úr bókinni góðu og lét það gott heita :-)

Þarna náðist ég á mynd (hjá Akiko) og ekki oft sem það er, venulega er það ég sem tek myndirnar og nánast ósýnileg í öllum ferðum okkar..... Maður er eitthvað túristalegur þarna!

Eitt af elstu húsunum í Georgetown, miðað við Evrópu þá er þetta hús nú bara nýlega byggt.... sagan er ekki næstum því eins langt aftur og t.d. í Þýsalandi og þar eru þessar líka hrikalega gömlu byggingar. En þetta hús á sína sögu og tengist fyrsta forsetanum og stjórnarmyndun.... ég ætla nú ekki að láta hafa neitt eftir mér, hefur engar heimildir hér og nenni ekki að finna neitt :-)

Wednesday, May 5, 2010

Löggustöðin og mótorhjólatúr....

...en löggustöðin var samt ekki afleiðing mótorhjólatúrsins he, he....
Byrjaði daginn á að fara á löggustöðina í hverfinu, var með mynd af (reið)hjólinu mínu og ætlaði að ath. hverjir væru möguleikarnir á að finna það og hvort ég ætti að tilkynna þetta.
Ég hitti mjög þægilegan gaur sem gaf sér góðan tíma, eftir að hafa spurt mig allskonar spurninga þá sagði hann að það væri vonlaust fyrir mig að sanna það á nokkurn hátt að þetta væri mitt hjól, þó svo ég sæi einhvern á því úti á götu. Ég keypti hjólið notað, ég hafði enga kvittun, ég hef ekki seríalnúmerið á hjólinu.... og fleira. Maður er nú svo einfaldur... heldur að þetta komi ekki fyrir mann og ég hef ALDREI skrifað niður serialnúmer á mínu hjóli áður. Það er m.a.s. hægt að skrá hjólið, á sitt nafn og límdur miði á hjólið með uppl. þetta man ég bara næst, ef það verður einhverntíman næst!
Þegar hann vissi að ég var frá Íslandi þá fór hann og fleiri að spyrja um eldgosið og hvernig þetta gengi, það biðu tveir aðilar eftir að komast að (sá það ekki fyrr en eftirá) en þeir voru ekkert að flýta sér :-) Fínustu gaurar og ég notaði í leiðinni tækifærið til að spjalla við þá um hvernig væri með þjófnað á mótorhjólum og hvernig væri nú best að græja þau... er nú með allt á hreinu!
Eftir þetta skellti ég mér í mótorhólajakkann og ætlaði til Alexandriu, ca hálftíma ferð. „Mario brothers" voru uppi á svölum hjá mér, það er Mario, sá sem sér um viðhald á húsinu hér og hans félagar, alltaf þrír saman :-) Það átti að múra hér úti, reyna að festa upp múrsteinana sem eru yfir einum glugganum svo við fáum þá ekki í hausinn. Tókst nokuð vel hjá þeim og lítur vel út.
Það tók mig þrjár tilraunir, ég endurtek ÞRJÁR tilraunir að komast til Alexandriu.... það eru ekki endilega fyrirmyndar merkingar hér í borginni og í kring, trilljón akreinar og allt gert til að rugla mann... en það þýðir ekkert að gefast upp, bara reyna aftur. Er í leiðinni búin að læra fullt af leiðum og nýjum götum :-) Ég komst alla leið á endanum og bara nokkuð stolt, fékk mér kaffi og gott brauð og naut þess að sitja í sólinni og horfa á flott hjól :-) Ég náði að koma hjólinu í 65 mílur... og reiknið nú! Þori nú ekki að þenja það í botn því maður er nú sennilega ekki alveg sú öruggasta enn....
Á leiðinni heim tók annað eins við, ákvað (nei ákvað reyndar ekki :-) að kíkja í SW hluta DC.... fór í gegnum einhver göng og skoðaði mig um, ferðin heim tók góðan tíma. Kíkti reyndar aðeins til Magga og fengum við okkur einn kaffibolla saman í sólinni, hann er nú pínu montinn af sinni konu :-)

Hendurnar á mér eru pínu fyndnar... það er eins og ég sé með hanska, er búin að fá miklu meiri lit á handabökin og upp á úlnlið því ég vil nú vera í jakkanum til að byrja með, með hlífum á öxlum, olnboga og baki :-)
Nú er ég sest niður og kl. 19:30, búin að þrífa þvílíkan skít eftir Mario-brothers. Gluggar, svalargólfið, handrið, húsgögnin og allt hér úti var löðrandi í ryki og steypudrullu. Inni var allt í sporum og sandi, búin að skúra alla íbúðina líka. Nú get ég bara slakað á og haft það nice.

Bíð eftir Magga og er að hugsa um að bjóða honum uppá freyðivín í tilefni þess að hann er búinn að skila af sér skýrslu eða handbók sem hann skrifaði og WB sendir frá sér, sjáum hvað verður um hana síðar - gefin út??? maður veit aldrei.... og ég komst heil fram og til baka í dag, lenti næstum inná highway.... og það er ekkert grín óvanur. Svo keypt ég góða osta, skinku og skemmtilegt brauð mmmmmmm er eiginlega orðin svöng eftir þetta allt saman.

Sofið vel og eigið góðan morgundag, ég fer á hjólinu aftur til Alexandriu á morgun í skólann, spara mér klukkutíma hvora leið - ef mér tekst að rata :-)

kv Magga

Tuesday, May 4, 2010

Slæmar og góðar fréttir...

Já það er ekki alltaf allt jákvætt hér, í gærmorgun þegar ég kom út fannst mér tröppurnar eitthvað tómlegar. Hmmmmmmm hvað vantaði - jú reiðhjólið mitt, einhverjir helv... fávitar búnir að stela því, skyldu eftir einhvern smá gúmmíbút af lásnum en ekkert annað. Ég er búin að finna mynd af hjólinu, Maggi er að prenta hana út og ætla ég til löggunnar í hverfinu í dag eða á morgun og tilkynna þetta. Ég er auðvitað ekki með neitt grindar/serial númer á hjólinu, maður saklausi íslendingurinn er svo glær og óvanur svona... en lærir. Myndin verður að duga og sjáum hvað þeir segja. Var búin að kaupa bögglabera á hjólið og körfu framaná, hún er hér uppi en algjörlega gagnslaus því festingin sem henni var smellt í, er á hjólinu - pirrrrrrrrrandi. Nú svo var ég búin að kaupa mér (Pamelu) silikon hlíf á sætir og hjálm... búin að þvælast á þessu um alla borg og þvílíkur lúxus - en lítið við þessu að gera. Ef ég kaupi hjól aftur, þá verður það óóógeðslega ljótt, ódýrt og þungur járnlás sem heldur því föstu - þjófahelt... eða hvað? Hinsvegar var hjólið læst við girðinguna upp við húsið með gúmmíhúðuðum vírlás...

Hérna er hjólið góða - tók mynd af því á leiðinni heim þegar ég keypti það. Heppin að eiga einhverja mynd af því.
Þarna er bögglaberinn ekki kominn á.

Hinsvegar eru góðu fréttirnar þær að ég fór á mótorhjólið áðan - alein.... og rúntaði um borgina í einn og hálfan tíma. Komst áfallalaust í gegnum þetta, hjólið heilt og allir í kringum mig lifðu þetta af :-) Nú er ég farin að kynnast hjólinu mun betur og miklu öruggari, búin að skipta niður og stoppa á umferðaljósum ca 300 sinnum - kannski aðeins ýkt!!! en bara að verða nokkuð örugg.
Um helgina er búið að plana lengri ferð út fyrir borgina, mun skemmtilegra að keyra á þeim vegum, ekki endalaus umferðaljós og gangandi vegfarendur... nú veit maður hvernig þessum bílstjórum líður þegar maður er að stinga sér yfir götuna á síðustu sekúndunni - og rúmlega það :-)
Nú ætla ég að klára mál sem ég er búin að ákveða að klára í dag og láta svo smíða auka lykil á mótorhjólið svo maður standi nú ekki upp lyklalaus einn daginn....
Í gær fór ég m.a. í Hardware verslun hér til að kaupa rafmagnsvír til að leiða á milli í mótorhjólinu. Framljósið virkaði ekki alltaf og voru Maggi og Biggi vinur hans í Utah sammála um að þetta gæti verið jarðsambandið.... ég get svarið það, að það er allt sem heitir rafmagnsdót allt öðruvísi hér. Aumingja maðurinn þurfti að hafa sig allan við að reyna að skilja hvað ég var að meina... auðvitað var ég að biðja um hluti sem voru alls ekki til... en með þolinmæði á báða bóga tókst okkur að leysa þetta, ég þakkaði honum líka fyrir hjálpina og þolinmæðina þegar ég fór - hann brosti bara og spurði hvaðan ég væri. „Frá Íslandi...." þá fékk ég stórt bros til baka - ætli það sé „Eyja-fjalla-jökull" og hinn skemmtilegi framburður sem fékk hann til að brosa!!!!!
Fólk er ýmsu vant hér - allra þjóða kvikindi hér... og ég þar á meðal :-)

Eigið góðan dag, reyndar lítið eftir af honum hjá ykkur... hér er góður hiti og honum fylgir auðvitað sviti :-)
Fékk að vita kl. 8:50 í morgun að það ætti að skrúfa fyrir vatnið hér í hverfinu frá kl. 9-17... ég safnaði vatni í fötu og tómar vatnsflöskur til að geta allavega hellt í klóið og þvegið mér um hendurnar... svo í sturtu!!!! og ég náði þessu :-) hrein og fín.... þangað til ég byrjaði að svitna á hjólinu he, he, he....

kv frá DC
Magga

Sunday, May 2, 2010

Yamaha Virago

Við eyddum nánast öllum gærdeginum í að laga og þrífa hjólið MITT... nú á að skella sér á rúntinn....
Nokkrar myndir til að sýna stolta eigandann....

Maggi lagaði og ég þreif....

Þá er maður kominn á bak.... og brosir!

...og búin að taka fyrsta rúntinn í kringum húsið - nágrönnum til ánægju.

Maggi fékk líka að prófa, hér er hann eitthvað að stilla kúplinguna, ég er með minni hendur en hann svo það þurfti aðeins að aðlaga þetta mínum krumlum..

Saturday, May 1, 2010

Ekki meiri hnetur takk

Nú erum við að lenda í vandræðum með Jane (áður Jason), er búin að fæða hana á hnetum í vetur og er þetta næstum að verða vandamál. Við megum ekki fara út á svalir á morgnana því þá er daman mætt, ef ekki eru hnetur þá hoppar hún undir stólana okkar, í kringum tærnar og nartar aðeins í þær... líta kannski út eins og stórar hnetur! Þetta er orðið pínu pirrandi en líka fyndið. Hún sýnir listir sínar og gerir allskonar kúnstir til að ná athygli okkar.
Í gær sló nú öll með, ég var að fara út (ekki á svalirnar heldur út úr húsi) og var búin að loka svalarhurðinni og tilbúin. Þá mætti sú litla, alveg í panik og gerði allt til að ná athygli minni því hún heyrði í mér hér innanvið og sá mig. Það var ekki annað hægt en að taka nokkrar myndir - verð bara að leyfa ykkur að njóta......
(það er hægt að klikka á myndirnar til að stækka þær)

Fyrst var hoppað uppá svalarhandriðið til að sjá mig og ná athyglinni...

...það dugði ekki - svo næst var að fara uppá loftkælinguna og kíkja innum gluggan við hliðina á hurðinni, já ég sé þig
- en samt engar hnetur í boði!

Þá voru góð ráð dýr... til að fara nú ALLS EKKI framhjá mér þá ákvað hún að renna sér niður glerið á hurðinni með tilheyrandi hávaða og dynki.... sumir gáfust ekki upp og ekki heldur ég :-) Engar hnetur...

Nú var daman að verða óþolinmóð....
hmmmmmmm af hverju engar hnetur?

Aðeins að kíkja inn um gluggann....

...og hinu megin líka. Ég var gallhörð og fór mína leið,
greyið fékk engar hnetur þann daginn!

Ég sáði salati og kryddjurtum í 4 potta í gær, mistökin voru að setja þá þeim megin sem hún kemur uppá svalirnar og hefur fengið hneturnar. Mér sýnist einhver vera búin að gera litlar holur.... hmmmm sjáum hvað kemur upp þarna.
Nú er bara sð sýna hörku og gefa henni ekki neitt og held ég að ég taki engan íkorna í fæði næsta haust, því hún var farin að elta mann inn til að biðja um meira!
Þetta voru mín mistök en ferlega sætt dýr sem við nánast sitjum uppi með....

Meira seinna
kv frá DC - Magga

ps. Í gær sótti ég númeraplöturnar á mótorhjólið MITT og Maggi sótti svo hjólið. Ég prófaði það að sjálfsögðu í gær hér á milli húsa, sem betur fer er ekki mikill hávaði svo mér verður voanndi fyrirgefið. Í dag ætlum við að fara aðeins yfir það, herða skrúfur, stilla hluti og svo þarf að hreinsa smá ryð.... set meira um þetta seinna. Ég er með æfingaleyfi og má keyra EIN... ótrúlegt, ekkert eftirlit - og það fyndnasta var að þegar ég skráði hjólið var ég bara beðin um ökurskírteini en aldrei spurð um mótorhjóladæmi.... en ég má ekki keyra í myrkri, ekki með farþega og ekki á highway.... svo nú er bara að byrja - á því að vekja Magga og koma okkur í gang :-)