Saturday, September 26, 2009

Furðulegur dagur

Dagurinn er ekki alveg búinn hjá mér, 23:53 og ég er svoooo þreytt að ég er á leiðinni bólið eftir gott lavenderbað og slökun, sofna sennilega fljótt.

Í dag varð litla frænka, Erla María 4 mánaða, amma Sigríður hefði orðið 105 ára, amma Margrét lögð inn á sjúkrahús, Dagný í STÓRA prófinu í lögfræði (til að komast áfram), Maggi í Manilla í flóðunum miklu og ég alein í DC....

Ég vona svo sannarlega að ég eigi eftir að sjá Erlu Maríu fljótlega, að amma Sigríður fylgist með mér, að amma Margrét hafi það gott, að Dagný komist áfram í lögfræðinni, að Maggi lendi ekki í fleiri flóðaævintýrum í Manilla og að ég sofi vel í nótt.

Síðustu nótt gekk mér illa að sofna, horfði á eina mynd í tölvunni og svo var svo mikill hávaði hérna úti að það var nánast ómögulegt að sofna,. Ég hafði líka pínu áhyggjur af Dagnýju litlu því hún var svoooo stressuð yfir prófinu sínu. Ég trúi því að hún nái og hef aldrei efast um það, keppnisskapið er til staðar og svo leynir daman á sér þegar á reynir :-)

Hér er búið að rigna í mest allan dag og hellidemba akkúrat núna, ég skrapp samt aðeins út í búð og keypti m.a. nokkrar körfur til að halda áfram skipulaginu hér á heimilinu, Maggi verður hissa þegar hann kemur heim... búið að snúa öllu við og gera aðeins meira cosy. Ég er ekki búin en þetta er allt að taka á sig mynd.

Ég talaði við Dadda, Heiðu og Jóa spóa (töffara) í Skype í rúman klukkutíma, alltaf gaman að heyra í þeim og m.a. skemmtilegt umræðuefni, say no more :-)
Það var ekki eins skemmtilegt umræðuefni hjá okkur pabba og mömmu. Þau voru uppi á sjúkrahúsi hjá ömmu í dag og vonandi fæ ég betri fréttir á morgun, mér finnst ég svo langt í burtu þegar svona er og maður getur ekkert gert nema kveikt á kerti og hugsað til ömmu og vonað að allt gangi vel hjá henni.

Áðan sá ég frétt á visi.is um að það ætti að færa greiðslubyrði lána aftur fyrir hrun og afskrifa... Þvílíkan tíma sem þetta er búið að taka, hvað eru margir búnir að missa heimilin sín á þessum tíma og hvað á að gera fyrir þetta fólk? Varla er hægt að afhenda þeim eignir sínar aftur???

Við Maggi ræddum þetta um daginn og hvað við myndum gera ef við ættum fyrir lánunum heima. Ég var alveg á því að það ætti alls ekki að borga krónu fyrr en þeir væru búnir að gera eitthvað í málunum, mér dytti ekki í hug að borga inná lán einhverja summu og svo kæmi í ljós að eitthvað yrði leiðrétt... kannski er þetta að ganga í gegn - en hinsvegar eigum við ekki fyrir lánunum svo við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af því :-) En nú er líka spurning hvort þeir gera þá kröfu um að fólk sæki lánin sín úr frystinum... þá vandast kannski málin, eða hvað??? Þetta kemur vonandi allt í ljós fljótlega fróðlegt verður að sjá hvort þetta er VIRKILEGA málið - eða verður haugur af skilyrðum og „agnarsmáu letri" fyrir okkur húsnæðiseigendur, nú reynir á...

Góða nótt og hafið það gott á morgun.
Ég hugsa til ömmu og hlakka til að sjá hana í október

Knús frá DC, Magga

Thursday, September 24, 2009

Slökun og opnunarpartý

Dagunn er búinn að vera heitur, fór uppí 35 gráður og góður raki.
Ég fór með tebollann minn út á svalir í morgunn og þá var þar íkorni að þvælast, hann kom heldur betur upp um sig, var með grænt blað í kjaftinum og var sennilega að éta sumarblómið mitt :-) en það er OK hann var svooooo sætur, stóð upp á afturlappirnar og horfði á mig... forðaði sér að vísu upp á þak þegar ég kom út. Ég hefði kannski ekki átt að gefa honum hnetur í gær :-)

Ég tók rólegan dag í dag, sat á svölunum og prjónaði og hafði það mjög gott í sólinni. Lagaði aðeins til hér inni og margt sem þurfti að gera. Talaði við Dagnýju, hana vantaði smá stuðning frá mömmu í gegnum Skype :-) STÓRA prófið er á laugardaginn og kemur í ljós viku seinna hverjir komast áfram, ég hef fulla trú á mínum unga og veit að hún kemst áfram - keppnisskapið í lagi og maður kemst langt á því. Íkorninn góði (veit ekki hvort það er sá sami) sat á gluggasyllunni á meðan (á 3ju hæð) og hafði það nice, Dagnýju fannst hann svo sætur þegar ég sýndi henni hann - Skype er snilld. Hún vildi kalla hann Jason (minnir mig)

Kl. 5:30 átti að opna nýja sendiráð Ísland í DC, ég var alltof sein eins og venjulega, var að spá í hvort ég ætti að fara í buxum og blússu eða kjólnum fína... kjóllinn varð fyrir valinu eftir nokkra umhugsun. Ég náði leigubíl hér á horninu og tók ca 20 mín. að komast þangað, hefði verið álíka lengi að labba en sennilega svitnað þeim mun meira :-)

Leigubílsstjórinn stoppaði við vitlaust hús og ég þurfti að leita að húsinu, þetta hús heitir Swedish house og mjög flott nýtt hús sem sendiráðið er að flytja í. Reyndar var gangurinn mjög mjór og eitthvað lítið aðlaðandi þarna á 5. hæð. Ég náði inn um leið og sendiherrann hélt sína ræðu og forsetinn klippti á borðann, boðið var upp á allskonar vín og í næstu Suite var boðið uppá ísl. lambakjöt, lax, skyr, osta og snittur. Þessi íbúð verður í framtíðinni íbúð sendiráðsritarans... eiginlega einum of stutt í vinnuna :-) næstu dyr... spurning hvort menn verða ekki lengur í vinnunni en eðlilegt er :-)

Þarna hitti ég Finnboga og Sesseliu, Anna var þarna líka, hún vinnur í World Bank og fórum við saman eitt kvöld á skemmtilegan stað - mjög skemmtilegt kvöld, við ákváðum að fara saman í Brunch einhverntíman á næstunni fyrst Maggi er í burtu og hún verður farin þegar hann kemur til baka. Þarna var líka Ari bæklunarlæknir á Akureyri og hans kona, spjallaði heillengi við þau og einhvern tæknimann frá utanríkisráðuneytinu sem er að tengja línur fyrir sendiráðið. RUV var á svæðinu og allskonar ljósmyndarar, spurning hvort eitthvað kemur í fréttum á morgun....

Þegar þetta var búið var svo yndislegt kvöld að ég labbaði á næsta bar, sem er í höfninni í Georgetown (við hliðina á sendiráðinu) við Maggi höfum bæði borðað þarna og fengið okkur vínglas. Ég fékk mér hvítvínsglas (fékk mér bara eitt í sendiráðinu :-) og sendi Maggi mail í gegnum símann... fyrst hann missti af þessu :-)

Þá var að finna Taxa... ég rölti af stað og var komin upp á aðalgötuna í Georgetown (M street) og sá Eþíópska veitingastaðinn sem við fórum með Finnboga á fyrir einhverjum vikum, ákvað að athuga hvort ég fengi ekki eitthvað smá að borða þar (fékk mér bara smá kjötbita og súkkulaði í sendiráðinu) og vantaði eiginlega MAT. Ég hef ekki eldað neitt síðan Maggi fór og ferlega löt að borða... Þarna voru bara stórir réttir svo ég ákað að labba aðeins lengra, mundi þá eftir Marokkóska staðnum á P Street og labbaði þangað... mmmmmmm fékk mér góða súpu, brauð og rauðvínsglas, ekki slæmt það og leið hriiiiikalega vel eftir það. Fyrst ég var komin á P Street þá var ekki langt eftir uppá S street (okkar heimili) labbaði því alla leið í háhæluðu skónum.... og nýja fína kjónum :-) (ekki alveg nýr en hef ekki notað hann fyrr en núna).
Hitti blaðsölumann, sem selur blað fyrir heimilislausa, keypti blað af honum - þau eru oft mjög áhugaverð. Hann spurði hvort ég væri frá Frakklandi.... sennilega klæðnaðurinn! Ísland ahaaaaaa það vita allir hvar Ísland er, það er svolítið skemmtilegt. Fólk er líka forvitið hvað fær mann til að flytja hingað... Hann var búinn að skrifa nafnið sitt innaní blaðið og heimilisfang og sagði að ég gæti sent honum póstkort :-)
Í heildina var þetta góður dagur, nema fréttirnar á mbl um að Davíð Oddsson yrði næsti ritsjóri Moggans, maður spyr sig nú bara hvað sé í gangi - um daginn las ég viðtal við fyrrverandi ritstjóra Moggans og hann talaði um að fréttamennskan hefði verið mjög opin og skrifað um eigendur jafnt sem aðra.... Nú segja menn að þetta eigi að halda áfram, hvbernig er það hægt með Davíð í skipstjórastóli, er hann ekki meðvirkur og alltof innvinklaður í þetta allt saman til að geta verið óháður? Ég skil þetta einfaldlega ekki - hvað er að gerast......? Mér skildist á Facebook að fólk væri að segja upp Mogganum í hrönnum, allir þjónustufulltrúar voru uppteknir og ekki náðist í gegn - sennilega hópuppsagnir í gangi, ég skil það eiginlega mjög vel.
Hinsvegar erum við svoooo fljót að gleyma og spurning hvort áskrifendafjöldinn eykst ekki eftir einhverjar vikur.... sjáum til :-)

Nú ætla ég að skella mér í bólið fljótlega, kannski horfi ég á eina mynd eða les.... hver veit - góða nótt. Hendi kannski nokkrum hnetum út á svalir handa Jason íkorna :-)

Magga

Wednesday, September 23, 2009

Líkamsrækt - Yoga og allt þar á milli!

Dagurinn byrjaði nokkuð vel, ég var vel út sofin og því til í slaginn.
Þetta var heitur dagur og mikill raki í lofinu núna í kvöld, ég held að hitinn hafi allavega farið uppí 27-28 gráður, jafnvel meira og ég sá að rakinn var kominn upp fyrir 70% seinnipartinn, sem þýðir sviti :-)

Ég lét mig nú samt hafa það að skella mér í ræktina, fínasti tími og tók vel á því. Þegar ég kom heim ákvað ég að kíkja á timbur sem ég sá upp við næsta hús bakvið (við rusladallana) var ekki viss hvort þetta var rúmgrind eða hilla... og hilla var það, reyndar fínasta hilla úr IKEA. Einhver ætlað að nota seinna, sennilega búin að vera í geymslu eða ekki komist inní íbúðina. Það var eins og ég hefði tekið hana í sundur því allar festingar voru á sínum stað og pinnarnir fyrir hilluna límdir við í sér poka :-) Ég ákvað að taka hana því ég sá hana þarna í gær og þegar dót er komið út á götu eða við rusladalla þá getur hver sem er tekið það.

Það tók mig ca 6 ferðir að ferja hilluna uppá 3ju hæð, ég svitnaði því mun meira... Þeir sem þekkja mig vita að ég þurfti að sjálfsögðu að byrja STRAX á að kíkja á þetta, byrjaði nú samt á að þrífa hana vel með sterku efni. Svo komst ég að því að það var ekkert mál að setja hana saman, kláraði það og þar sem vantaði festingar (á efstu hilluna / toppinn) notaði ég sílikon, bjargar oft! Lét hana svo þorna því ég átti eftir að fara í sturtu og svo í viðtal í World Bank, hjá kennurunum á enskunámskeiðinu sem ég ætla á. Þetta viðtal var til að sjá hvar við stöndum og í hvaða hóp við förum.

Ég mætti í viðtalið á réttum tíma, þurfti að bíða í 45 mín en þarna var líka stelpa frá þýskalandi, fyndnasta var nú samt að hún er líka grafískur hönnuður svo það var frábært að tala við hana. Ég reikna með að við lendum í sama hópi í enskunni. Þegar kom að mér mátti ég varla vera að því að fara inn :-) En svo tók við viðtalið, þrjár konur og hrikalega gaman hjá okkur, auðvitað var ég alltof lengi þarna inni en þær vildu vita ýmislegt um Ísland, þekktu Geysi og vissu að Vigdís hafði verið forseti. Svo var það besta að þær voru búnar að prenta út myndir af okkur á A4 bls, þetta er mynd sem Heiða mákona tók af mér til að hafa inni á heimasíðunni og ég hef notað í CV og líka á Facebokk, reyndar nokkuð góð mynd af mér... Þær voru svo hrifnar af myndatökunni og sögðust mæta til svona ljósmyndari ef hann (hún) myndi mæta hingað :-) Við talið tókst allavega vel og gaman að spjalla við þær.

Þegar ég svo var á leiðinni heim þurfti ég að fara framhjá aðal byggingu World Bank, þá heyrði ég allt í einu kallað „Magga, Magga..." það er nú ekki oft sem það gerist hér í DC, en þá var Finnbogi að fara aftur í vinnuna eftir fund og spjölluðum við aðeins saman.
Ég fór heim til að sækja innkaupapokann, alveg í leiðinni í búðina. Þá var íkorni fyrir utan dyrna, hann fór í panik ræfillinn og komst ekki niður tröppurnar þegar ég var á leiðinni upp - eitthvað hræddur við þennan risa :-) Hann ákvað því að hlaupa upp múrsteinsveggin... þegar ég kom upp þá lá hann á gluggasyllunni...


Hér er hetjan mikla komin uppá þriðju hæð... þeir eru ótrúlegir, við höfum oft fylgst með þeim hér úti hlaupandi eftir rafmagnssnúrum á milli húsa og nota skottið til að halda jafnvægi!

Á leiðinni út tók ég með mér nokkrar hnetur og setti á tröppurnar... þær voru auðvitað horfnar þegar ég kom heim.

Nú var að halda áfram með hilluna, setja hana á sinn stað. Það vantaði svoooo pláss í eldhúsið hjá okkur svo þetta er frábært. Raðaði í hana í kvöld og er ógeðslega ánægð með mig :-)

Ég hafði skráð mig í Yoga tíma í kvöld kl. 7:30 svo það var farið að styttast í það, talaði aðeins við Dagnýju og Aron út af flugmiðum, í gegnum Skype. Það gekk ekki nógu vel að panta svo ég ákvað að klára það í kvöld. Er búin að panta miða og koma þau 21. des og verða til 4. jan, það verður ekki leiðinlegt að fá litla ungan sinn í heimsókn og geta verið saman um jólin, hlakka til.

Yogatíminn var erfiður, úff... það voru teygjur og aftur teygjur og ég svitnaði meir þarna en í ræktinni í morgun. Leiðbeinandinn var frábær, hann labbaði á milli okkar og kom við okkur, hann lagði hendurnar á axlirnar á mér, akkúrat þar sem ég er að drepast úr vöðvabólgu, svo lá ég á bakinu og var að slaka þá lagði hann hendurnar á axlirnar á mér og þrýsti þeim niður, þetta er svæðið sem maður kreppist alltaf fyrst á sérstaklega við tölvuna. Þetta var e.k. heilun með - alveg frábært. Ég talaði við einkaþjálfara á svæðinu í morgun og spurði hann í hvaða yoga ég ætti að fara í til að slaka vel á, hann mælti með þessu (Vinyasa yoga) ég mæli með því og ætla aftur í næstu viku og næstu og næstu......

Nú held ég bara áfram að svitna, er búin að taka aðeins til hér eftir breytingarnar, flytja hilluna sem var í eldhúsinu inná bað, ætla að bíða með að fylla hana þangað til ég sé að þetta gengur upp.... fara í heitt bað og uppí rúm með bókina mína góðu. Ég er eiginlega bara þokkalega þreytt eftir daginn, ekki bara rækt og yoga heldur verslaði ég líka slatta af þungu dæmi og var gjörsamlega búin þegar ég kom heim.

Góða nótt og hafið það gott á morgun - þá er fimmtudagur, maður trúir því varla hvað tíminn líður hratt. Já fimmtudagur, þá er opnunarpartý í íslenska sendiráðinu, það flytur... ég mæti þangað og hitti Össur karlinn og fleiri :-))

Magga

Tuesday, September 22, 2009

Persónuleikinn fundinn

Þessi dagur var erfiður, ég svaf ekki nógu vel í nótt, dreymdi einhverja furðulega drauma og voru það kannski einhverjar áhyggjur af deginum í dag.
Ég byrjaði á að fara í litlu prentsmiðjuna hér rétt hjá og fékk þau til að prenta út fyrir mig verkefnið sem ég gerði, þurfti ekki að nota það neitt í dag en gaman að eiga þetta í þessari möppu sem fylgir... Ég mætti semsagt í World Bank kl. 9:30 í Workshop sem var í dag. Þetta var frábær tími en hrikalega erfiður líka.

Elena byrjaði á að halda fyrirlestur, ekki auðvelt að skilja hana því hún er rússnesk og hrikalega erfitt fyrir hana að bera fram ákveðin orð/stafi svo maður þurfti að leggja sig allan fram til að ná þessu. Hún skipti okkur svo í hópa og áttum við að vinna ákveðin verkefni á spjöld/töflu sem við fengum. Það sem kom í ljós eftir nokkra svona mismunandi vinnuhópa, var að hún raðaði okkur saman eftir persónuleikum - ótrúlegt en satt þá voru hóparnir mjög ólíkir hver öðrum og mjög skemmtileg útkoma úr hverju viðfangsefni.
Við áttum að lýsa hlut sem við fengum að sjá í 5 sekúndur, við áttum að finna leið til að skilja eftir 5 unglinga heima á meðan hinir 13 fóru á stórmót í Hokkí. Við áttum að lýsa því hvað við myndum gera ef við fengum stóra peningaupphæð og svo hvernig við myndum skipuleggja stórt partý....

Þetta var frábært og ótrúlegt að sjá hvað sumir hópar voru skipulagðir og röðuðu sínu eftir númerum, aðrir teiknuðu og krössuðu... aðrir blönduðu þessu saman svo það var fróðlegt að sjá þetta. Hún vissi greinilega hvað hún var að gera.
Svo áttum við að merka á línu eftir hvert verkefni og glærupakka hvar við töldum okkur eiga heima (mismunandi eiginleikar). Eftir þetta allt og hádegismat fengum við svo afhenda útkomuna úr persónuleikaprófinu sem við fórum í í síðustu viku.

Fyndið - ég var næstum með sömu útkomu í báðum, sem segir að ég vissi nokkurnvegin hvernig minn persónuleiki er, sem kom mér á óvarat... Það voru nokkur atriði sem ég var samt ekki sannfærð um fyrr en búið var að skipta okkur í enn einn hópinn eftir persónuleikum. Þegar við fórum að ræða okkar persónuleika (minn hópur) og áttum að markaðssetja hann fyrir hinum peresónuleika-hópum, þá varð ég enn sannfærðari um að þetta var ég, hafði kannski ekki þroskað eða lagt áherslu á allar hliðarnar, kannski uppeldi eða umhverfi eða hvað??? En þessi dagur var frábær í heildina. Ég var algjörlega búin þegar ég labbaði út og langaði helst að fara heim og undir sæng!

Í staðinn rölti ég við í búð sem var á leiðinni heim (smá útúrdúr), þetta er búð sem ég sá um daginn og skrifaði í minnisbókina hvar hún var... selur allskonar myndlistavörur og ramma. Ég keypti einn stóran striga á blindramma og aðra minni, sá svo hrikalega flottan þunnan pappír sem mér datt í hug að yrði flottur fyrir baðherbergisgluggan, það sést einum of mikið inn úr næsta húsi... þegar maður stendur við spegilinn mis mikið klæddur. Ég er búin að hugsa um þetta lengi - þegar ég sá pappírinn þá var þetta það sem ég var að bíða eftir...

Þegar heim var komið fór ég strax í tilraunir (í staðin fyrir að leggjast í smá slökun), bjó til lím úr vatni og spelti (ekki til hveiti á þessu heimili) og það virkaði flott, reif pappírinn í sundur og límdi hann á gluggann, veit ekki hvað húseigendurnir verða hrifnir... en það er alltaf hægt að leysa þetta upp með vatni seinna.


Hér er glugginn eins og hann lítur út, nokkuð ánægð með þetta

Svo var næsta verkefni að mála (ekki enn farin að slaka), ég setti upp trönurnar og reif einn strigan úr plastinu og barasta byrjaði.... sú fyrri er ekki tilbúin, þarf að þorna og svo þarf ég að hugsa aðeins meira og líka gott að setja hluti til hliðar. Byrjaði svo á annari..... bara svona rétt aðeins að grunna og verður hún mun meira „eitthvað", kemur allt í ljós - ég sjálf veit ekki einu sinni hvað verður úr henni.

Á meðan ég lét renna í baðið hringdi Maggi frá Filippseyjum, hann var að vakna - er 12 klst á undan mér, svo annað hvort okkar þarf að vera nývaknað til að geta talað við hitt :-) Hann var að sjálfsögðu vel úldinn, rétt skriðinn framúr en samt bara nokkuð hress. Það er nóg að gera hjá honum og fundir framundan með ýmsum aðilum. Spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu öllu.

Nú er stefnan tekin á baðið og svo barasta undir sæng með bókina góðu - eða ég skelli mér á eina gamla bíómynd af flakkaranum, fínt að fá sér einn lítill öllara með. Nema ég sofni bara strax. En ég þarf víst að borða eitthvað líka, ég er hikaleg þegar ég er ein, nenni einfaldlega ekki að borða.
Við fengum okkur að vísu heitan mat í hádeginu nokkrar saman, í aðal mötuneyti WB, fínasti matur svo ég hendi einhverju smá í mig, einhverju meiru en eplinu sem ég nartaði í áðan....

Góða gótt - farin óvenju snemma í bólið...
Magga

Monday, September 21, 2009

Þreytt Magga á leið í bólið

Dagurinn byrjaði barasta vel, ég svaf lengur en venjulega og það var bara frábært. Réðst á símann minn og komst að því hvernig á að komast á netið og nota imago mailið mitt þar... er þá tengd öllum stunum, ekki endilega gáfulegt en fínt að komast í þetta hvar sem er!

Svo er maður búinn að láta þvottavélina malla í allan dag og ná að þvo næstum allt sem beið mín hér... frábær tilfinning, sængur, koddar og alles hreint og fínt.

Sólin glennti sig heldur betur í dag og ég ákvað því að taka fram sólbekkinn okkar góða, sem við erum alls ekki búin að vera nógu dugleg að nota. Frábært að liggja í sólinni og lesa, kláraði loksins bókina sem ég byrjaði á í júní... er byrjuð á þeirri næstu „eat - pray - love" mér líst mög vel á hana og gat varla hætt þegar ég byraði, ekki nema 300 síður og vona ég að hún taki ekki eins langan tíma og sú fyrri.

Ég ákvað að sleppa módeltímanum í kvöld því ég ætlaði að leggjast uppí rúm og lesa og fara svo snemma að sofa... ætlaði reyndar að mála líka en komst ekki í það, eða öllu heldur var ekki í stuði til þess. Ég kláraði hinsvegar verkefnið sem við áttum að klára fyrir Workshop á morgun. Er búin að setja það á minniskubb og ætla að koma við í lítilli prentsmiðju á leiðinni og fá hann til að prenta þetta út fyrir mig.

Það verður sennilega stuð hjá okkur, við erum rúmlega 20 í þessum hópi og á morgun á að fara yfir persónuleikaprófið sem við tókum í síðustu viku... spennandi. Þetta er frá 9:30-3 á morgun svo maður veður sennilega gjörsamlega búinn eftir þetta... eins gott að vera út sofinn og hress :-)

Meira seinna æta að skella mér í bólið með bókina góðu og sofna sennilega vel á eftir

Magga

Sunday, September 20, 2009

Auka sumardagar - sól og huggulegheit

Það er ótrúlegt hvað dagarnir hverfa hérna... maður vaknar og fer svo aftur að sofa zzzzz

Nei, nei dagurinn í dag var fínn, við vöknuðum að vísu snemma því Maggi fór í flug til Filippseyja í dag og þurfti að henda restinni í tösku og græja sig.

Við ætluðum að gera eitthvað skemmtilegt í gær og fara svo út að borða, en dagurinn fór nú aðeins öðruvísi en áætlað var.... Maggi fór í vinnuna um hádegi og kom ekki heim fyrr en kl. 10 í gærkvöldi, þurfti að klára ýmislegt og þetta tók sinn tíma.... en svona er þetta bara og við vissum það. Ég sat í sólinni, það kom nefnilega auka sumardagur í gær og reyndar í dag líka og mér sýnist á spánni að vikan verði öll sumarauki :-) ekki slæmt eftir nokkra hrolldaga og rigningu.

Ég semsagt brann aðeins í gær eftir að hafa setið úti á svölum með prjónana og lesefni, skrapp svo í Whole Food því ég vissi að Siggi Hall hafði verið með kynningu á íslenskum vörum daginn áður og ákvað að athuga hvort væru ekki einhverjar restar eftir - og jú ég var heppin. Í kjötborðinu var eitt stykki lambalæri (íslenskt :-) og ég keypti það, ekki slæmt að eiga ef koma gestir eða um jólin (er semsagt búin að setja það í frysti...). Svo voru til hæklar (hálf ljótt orð í fleirtölu) og ég keypti tvo, eldaði þá á arabíska vísu haldandi það að minn maður kæmi í kvöldmat og búinn að láta hann vita að það yrði „íslenskt já takk" í kvöldmat. Þetta tók hellings tíma og alveg þess virði, en það endaði semsagt með því að við borðuðum kl. 22, kjötið var svooooo meyrt og gott í arabísku aprikósu/kanil/hunangssósunni mmmmmmm. Við fórum auðvitað alltof seint að sofa eins og svo oft áður því auðvitað þurfti að pakka en ég var búin að undirbúa aðeins og brjóta saman því þetta tekur alltaf sinn tíma og ég hafði hann - en ekki Maggi :-) Maður er líka þessi hrikalega fyrirmyndar eiginkona!

Í dag ákvað ég að kíkja á flóamarkað í Georgetown, sem er hverfi hér í DC, frábært hverfi og alltaf mjög gaman að fara þangað. Fínasti göngutúr þangað í sól og hita, tók mig sennilega 30-40 mín og fínasta hreyfing það.
Það var allskonar dót þarna í mismunandi básum, margt fannst mér reyndar á okurprís en það á við um alltof margt hér á svæðinu. En ég datt inní einn bás þar sem kona var með allskonar gamalt dót, m.a. hnífapör. Ég keypti 8 sett af hnífum/göfflum og skeiðum og 2-3 aukahluti. Þetta er ekki allt samstætt en bara flott að hafa þetta svolítið blandað. Svo fattaði ég þegar ég kom heim að auðvitað hefði ég átt að kaupa teskeiðar líka... svo ég „neyðist" til að fara aftur næsta sunnudag :-) Þetta var á fínu verði og spjallaði ég heilmikið við konuna. Hún bað mig líka endilega að láta sem flesta vita af þessum markaði því það væru alltof fáir m.a. í hverfinu, sem vissu ekki af honum.
Nú er ég búin að pússa þetta allt með tannkremi, sem ég er búin að komast að að er súper efni til að pússa silfur með, skola svo með köldu vatni... snilld og þetta lítur rosalega vel út. Ég þarf bara að finna stað fyrir þetta hér, ekki of mikið af skúffum eða hillum, sem þýðir að ég þarf að finna einhvern kassa/box fyrir þetta - en það er nú ekki málið.

Á leiðinni heim kom ég við í nokkrum búðum og keypti fyrstu jólagjafirnar í einni, ég ætla að vera snemma í ár, sérstaklega ef ég færi nú heim í október og gæti þá tekið þetta með mér. Ég hef ætlað að gera þetta snemma síðustu árin en aldrei gengið upp, núna hef ég hinsvegar tímann og þá er eins gott að nota hann.

Það bíða mín ýmis verkefni á næstu dögum, þarf að vinna úr efni sem ég hef fengið frá fólki í sambandi við persónuleikaprófið, átti að senda spurningar á vini og samstarfsfólk til að fá álit þeirra á mér og mínum styrkleikum og klára að raða því saman á morgun og undirbúa mig fyrir fyrsta tímann hjá Elenu í mannauðsdeild World Bank. Þetta er tveggja daga Workshop og unnið úr áhugasviðs- og persónuleikaprófunum sem við erum búin að taka. Mjög spennandi. Það eru ýmsir lausir endar í sambandi við imago, þarf að klára allskonar skráningar og sá um daginn að við erum enn skráð fyrir okkar síma heima... ekki endilega nauðsynlegt :-) og því eins gott að vinna í því að afskrá okkur þar.

Nú er ég að hugsa um að horfa á t.d. eins og eina bíómynd sem ég er með á flakkaranum mínum, eitthvað sem Dagný var búin að setja þarna inn og kemur sér barasta mjög vel núna :-)
Ég er að átta mig á því núna kl. 21:27 að ég er ekki búin að borða neitt að viti síðan í morgun... nema einn ís, ég nenni aldrei að borða þegar ég er ein, það er stundum vandamál :-)

Eigið öll góða viku og sjáumst vonandi í október
Magga

Thursday, September 17, 2009

Alltof löt að blogga

Ég er búin að vera alltof löt að blogga síðustu daga, það er svosem ekki mikið um að vera akkúrat núna, lífið gengur sinn gang. Ég kláraði eilífðarverkefnið mitt í dag, það fór í prentun og ég er svo fegin.
Hinsvegar var ég búin að ákveða að segja NEI við fleiri verkefnum frá þeim.... en af því að maður er svo fljótur að gleyma og fínasta æfing fyrir mig bæði í hönnun og ensku, þá sagði ég JÁ :-) og sé ekkert eftir því, þetta var með fyrirvara um að allt yrði tilbúið þegar ég tæki við þessu, texti og fleira... er líka búin að búa til format sem á að nota í framtíðinni hjá þeim (WBFN) svo þetta verður mun auðveldara.

Annars er ég búin að skrá mig á allskonar námskeið og Workshops og mætti í tvo tíma í vikunni. Í framhaldinu er ég búin að taka persónuleikapróf og á að klára áhugasviðspróf á morgun. Á þriðjudaginn hittumst við svo öll aftur og farið verður yfir þetta og svo vinnum við í hópum, ræðum málið og tökum okkar ákvarðanir. Þau sem mættu á svæðið voru öll í svipuðum sporum, sum voru með þannig menntun að hún var ekki viðurkennd hér eða markaðurinn allt annar. Aðrir voru eins og ég að vera opin fyriri því að skipta um starfsvettvang og/eða læra meira. Ég vona að eftir þetta námskeið eða coaching geti ég tekið mína stóru ákvörðun því þetta er búið að liggja á mér lengi, mikið búið að hugsa og spá og kominn tími til að ég ákveði mig... Er að fá í pósti fljótlega skólakírteinið mitt v/hönnunar á ensku, sem gæti nýst vel ef ég sæki um nám.
Mikið er að gera í vinnunni hjá Magga og vonandi nær hann að klára allt sem klára þarf áður en hann fer til Filippseyja, svo er enn óákveðið hvort hann fer á ráðstefnuna í Reno, Nevada.... sem í framhaldinu hefur áhrif á hvenær ég fer til Íslands...
Ég byrja á enskunámskeiði í loka sept. sem verður frábært og er það fram í des. Maggi hitti um daginn gaur sem er í deild innan World Bank sem sér um uppákomur, ráðstefnur og fleira og sá vildi fá mitt resume og sendir þetta á fólk þar, sjáum hvort eitthvað kemur út úr því... væri ekki leiðinlegt að komast í svoleiðis!

Það er greinilega að koma haust hér, rigning úti og hitinn hefur lækkað í rúmlega 20 gráður, sem heima teldist ágætt en er frekar kalt hér. Ég sé að maður þarf að fara að huga að haust/vetrarklæðnaði. Ég skildi eftir alla lokaða skó heima, í ruslinu og/eða Rauða krossinum aðallega :-) líka úlpur/kápur svo það þarf að endurnýja allt. Þykkri peysur og langerma er eitthvað sem maður veit varla hvað er lengur... þarf að bæta úr því, úff mér finnst ekkert endilega gaman að versla, en þegar ég kemst í gírinn þá fer ég bara í eina almennilega ferð og klára þetta :-)

Nú ætla ég að harka af mér og hendast í að ryksuga hér og þrífa, eins gott að nota svona daga í það. Spurning um að skreppa aðeins og versla í ísskápinn, undarlegt hvað hverfur alltaf úr honum um leið og búið er að fylla á :-)

Svo þarf ég að vinna verkefni fyrir þetta námskeið mitt, er búin að senda línu á fólk sem hefur unnið með mér eða verið með mér í skóla og biðja þau um smá aðstoð, skrifa nokkur orð um styrkleika mína, afarek og fleira. Svo geri ég eitt skjal úr þessu og hef tilbúið fyrir næsta tíma. Það er frábært að fá comment frá öðrum, hlutir sem koma upp sem ég hef ekki einu sinni hugsað um og aðrir sem mér hefur bara fundist sjálfsagt mál - en er ekki endilega sjálfsagt...

Bestu kveðjur til ykkar allra og hafið það gott
Magga

Wednesday, September 9, 2009

Helgin var fljót að líða...

Já helgin var heldur betur fljót að líða og þessi vika er miklu meira en hálfnuð. Maður skilur þetta eiginlega ekki, ég er búin að vera hér í næstum þrjá mánuði....
Amerískt???

Við fórum í móturhjólaferð um helgina (já ótrúlegt en satt :-) Tókum Skyline Drive í Shenandoah og svo í vestur yfir í m.a. Hot Springs, líka Warm Springs :-) þarna er hiti í jörðinni og rýkur upp gufa eins og við þekkjum.
Smá grín hér, fyrst Maggi er að vinna í jarðhitamálum þá var þetta sönnun fyrir því að hann hefði komið til „Hot Springs"...

Í Hot Springs er búið að setja upp þvílíka lúxus hótelið og golfvelli, en ekki endilega gert mikið með vatnið sjálft.... í Warm Springs eru þeir hinsvegar búnir að byggja mjög fyndin hús utanum/yfir vatn, eitt fyrir konur og annað fyrir karlana.
Svona líta húsin út að utan, ltlu gluggarnir eru í búningsklefunum, einn fyrir hvern einstaklingsklefa, svo er heiti pollurinn í miðjunni.

Við kíktum aðeins þarna inn og þetta var kostulegt en samt skemmtileg hugmynd. Þetta er hundgömul og fúin hús, hringlótt og búningsklefar hringinn, eins gamaldags og gæti orðið... en það er einmitt sjarminn við þetta.

Skelltum okkur aðeins yfir til West Virginiu og ætluðum að gista þar á sunnudagskvöldinu, en það voru bara lítil subbuleg Motel í boði og m.a.s. sú sem var að vinna þarna ráðlagði okkur að fara eitthvað annað :-) hún var með húmorinn í lagi.... Við gerðum það og fundum fína hótelkeðju sem við þekktum ekki (Jameson) sem við ákváðum að prófa (í Charlottesville), ódýr og í fínu lagi.

Á mánudeginum var frídagur hér svo við héldum áfram, það var orðið nasty kalt þarna í fjöllunum og þá sérstaklega á hjólinu, veðrið var heldur ekki eins og spáð var... alltaf við það að fara að rigna og hrollur í okkur. Við tókum að sjálfsögðu ekki með okkur neina hanska, okkur var að vísu hlýtt á hausnum vegna hjálmanna.... en við höfðum bara eina langerma peysu með okkur og jakkarnir okkar eru sumarjakkar (mótorhjólajakkarnir með hlífum og öllu) og alls ekki nógu hlýir í þessu veðri. Það er semsagt að koma haust :-) Maggi smellti á sig hitabelti um mittið/mjaðmir og það gerir heilmikið, hann var að vísu líka með langerma skyrtu, ég hinsvegar tók flísteppið okkar og vafði því utanum mig undir jakkanum og var að sjálfsögðu eins og múmía í hreyfingum, en þarna skiptir ekki útlitið máli heldur að ofkælast nú ekki.
Smá hrollur, ein innpökkuð í flísteppið góða.... og svínaflensu auglýsing fyrir aftan...

Við fórum og skoðuðum heimili Thomas Jefferson, fyrrverandi forseta Bandaríkana (1801-1809, þurfti að sjálfsögðu að fletta þessu upp... en þið segið engum). Húsið heitir Monticello og er rétt fyrir utan Charlottesville. Hann hefur verið mikill spekingur og mjög skemmtilegir hlutir þarna inni, hönnunin og pælingar. Við erum bæði þannig að við látum ekki mjög vel að sjórn í svona skipulögðum ferðum.... (villtumst m.a. í St. Pétursborg og týndum hópnum :-) og þess vegna gerum við mest lítið af þessu. En eina leiðin til að komast inní húsið var að fara í svona hóp, við reyndum að smygla okkur með hópnum á undan til að þurfa ekki að bíða... en vorum nöppuð og send til baka. Ekki tók betra við þegar inn var komið, við vorum meðhöndluð eins og fangar... vantaði bara handjárnin, þvílíkar reglur... og svo talaði þessi dama við okkur eins og leikskólahóp, þvílíkt og annað eins. Þetta var næstum móðgandi, en kannski er þetta bara svona hérna, ég hef aldrei prófað þetta áður hér og kunni ekki við þetta, það var fólk uppundir 100 ára, nei smá ýkt en vel fullorðið og það lét sig hafa þetta og svaraði eins og leikskólakrakki :-) En eins og ég sagði þá erum við sennilega ekki miklar hópsálir og hentar þetta form okkur því ekki, enda erum við vön að ferðast ein, án alls skipulags og ekki búið að panta neitt hótel eða annað.... skemmtilegt að ferðast svona og við erum sammála um það, alltaf smá ævintýri að finna gistingu og annað... látum bara veður og vinda + tilfinningu ráða.
Jefferson & Gehringer

Síðasta stoppið okkar var í Culpeper í Virginiu, skemmtilegur bær með gamlan en einfaldan stíl, eins og maður væri kominn ansi langt aftur í tímann, húsin fengu að halda gömlum merkingum og mjög skemmtilegur andi. Það voru fáir á ferð enda frídagur og lokað víðast, en heppnin var með okkur, fundum veitingahús og skelltum okkur þangað. Fengum okkur kaffi og kökusneið, við vorum sammála um það að þetta var það besta sem við höfðum smakkað hér þ.e. kökur því þeir eru nú ekki endilega snillingar í svoleiðis, meira froða og plast finnst manni. Þegar við vorum að borga og spjalla við þjónustudömuna, kom í ljós kokkurinn (og eigandinn) var austurrískur, ahaaa skýringin komin.... eeeeeeen það skemmtilegasta var samt að hann var kokkur Ronald Reagan forseta bandaríkana.... var búinn að reka þennan stað í 8 ár og maður át semsagt bara forsetaköku þarna :-)
Þetta er staðurinn góði ef þið skyduð nú eiga leið hjá!

Heimurinn er ekki endilega stór, hvernig hefði manni dottið í hug að hitta á svona kokk á svona stað - ekkert nema tilviljun...

Við vorum svo fegin að komast heim, gengum frá okkar dóti, fengum okkur hvítvínsglas og vorum fegin að leggjast á koddan zzzzzzzzzzzzz

Vikan er búin að vera hrikalega fljót að líða, þriðjudagurinn fór í fund og vinnu + að versla mat, veitti ekki af, talaði helling við Dagnýju á Skype - alltaf gaman að heyra í henni og keppnisandinn á sínum stað. Það verður próf núna í lok mánaðarins og þá komast þeir áfram sem ná einkunninni 6, þ.e. í lögfræðinni til að þetta sé nú á hreinu. Maggi kom seint heim því það var hellingur af allsonar málum sem þurfti að klára og borðuðum við því okkar salatdisk mjög seint.

Dagurinn í dag byrjaði á kynningu/fundi í World Bank. Það er mannauðsdeildin sem var að kynna „starfsframa prógram" fyrir mökum. Mér leist vel á þetta, það er ýmislegt í boði, er búin að skrá mig á eina kynningu og eftir að hafa talað við Elenu (rússnesk) sem hefur haldið þessi námskeið, er ég 100% ákveðin í að taka þátt í þessu ÖLLU.... það er boðið uppá persónuleikapróf og áhugasviðspróf. Ég talaði við eina konu í gær sem fór í þetta og hún sagði að það væri ótrúlegt hvernig henni tækist að koma þessu frá sér, túlkunin og útkomurnar hefðu gert svo mikið fyrir fólk, það kom ein á fundinn og sagði okkur frá sinni reynslu, sem var mjög skemmtilegt :-) Ég var búin að heyra af þessu áður og var alltaf að bíða og leita að þessu, en svo barasta er þetta að byrja.... það er boðið uppá coaching í framhaldinu og þetta er BARA spennandi :-)
Ég sótti um ensunámskeiðið í gær, fæ svar í síðasta lagi 25. sept, þarf að mæta í viðtal til að sjá hvar ég stend í samanburði við verkefnin og aðra, seta okkur sennilega í mismunandi hópa????

Nú er ég hætt, þetta má nú ekki verða svo langt að enginn nenni að lesa, ég verð bara að dr...ast til að fara hingað inn oftar...

Bestu kveðjur til ykkar allra
Magga


ps. hér eru nokkrar tilraunir með nýju linsuna... :-)

Fjallasýn

Einn á uppleið...

Vinkona mín :-)



Friday, September 4, 2009

Náði bílprófinu

Ég byrjaði daginn í DMV, sem er e.k. ökutækjadeild innan fylkisins, þar tekur fólk sitt bílpróf, endurnýjar og allt það.
Ég byrjaði á fyrstu röðinni, var mjög heppin að það voru ekki nema ca 3 á undan mér svo þetta var fljótlegt, fékk umsóknarblaðið og fyllti það út. Þurfti svo ekki að bíða lengi til að komast í næstu röð.... þar tók bullið við, vörðurinn hálf réðst á asíubúa á undan mér, ýtti öðrum þeirra út úr röðinni því hann var ekki að fara í prófið, standið í einfaldri röð... og allt eftir því, þetta fólk þurfti heldur betur að sýna völd sýn. Þegar kom að mér hélt ég að nú yrði þetta þægilegt og ég var með öll gögnin á hreinu og vel lesin... en nei, helv... tuðran sem afgreiddi mig hafði greinilega farið öfugt framúr, hún var svo dónaleg að ég hef aldrei á ævinni lent í annari eins framkonu. Hún hreitti þessu öllu í mig og kom fram við mann eins og maður væri algjörlega heilalaus og bilaður. En maður lætur það ekki á sig fá og ég tók prófið, þetta voru 20 spurningar og að sjálfsögðu svaraði ég þeim öllum rétt, náði semsagt prófinu 100% :-)
Svo beið ég eftir að komast í myndatöku, „sestu" sagð þessi yndislega dama „og bíddu" þetta voru ekkert nema skipanir. Svo þegar kom að mér þurfti ég að leggja ennið á litla myndavél og skoða númer sem voru þarna og skrifa niður, ég sá 8 tölur og skrifaði þær niður...... „sérðu ekki fleiri" spurði hún mig oftar en einu sinni eins og ég væri heiladauð.... no sorry var svarið sem ég gat gefið henni. Þá færðu ekki skírteinið fyrst þú sérð svona illa, ég sagði henni að ég notaði gleraugu þegar ég keyri... þá hnussaði hún svoleiðis að það sauð á mér... „og heldur þú að þú getir mætt hingað án þess að vera með gleraugun, hvernig dettur þér í hug að taka þetta án þeirra", henti í mig blaði og sagði mér að fara í sjónmælingu. Ég sagðist vera með gleraugun og þá kom annað eins hnuss og ég mátti prófa aftur... sá enn bara 8 tölur (af 12), ég er viss um að hún hefur slökkt á þessum 4 sem ég sá ekki :-)
Ég labbaði út alveg fjúkandi vond yfir þessari framkomu, ég hef aldrei lent í öðru eins. Hún sagði að ég gæti svo komið aftur og þyrfti ekki að taka prófið aftur, ég sagði henni að myndi svo sannarlega ekki taka þetta próf aftur..... (skriflega bílprófið) ég er nú ekki fífl og ég var að springa, maður reynir að halda ró sinni þarna....

Ég fór í sjónmælingu, komst að eftir smá tíma og er „qualified" fæ semsagt skírteinið :-)
Á þriðjudaginn verð ég fyrsta manneskjan á svæðið, þessi óhamingjusama drusla getur þá troðið vottorðinu frá augnlækninum „þar sem sólin ekki skín" ég skal brosa allan hringinn þegar hún tekur myndina af mér í sírteinið :-) Annars vona ég að það verði einhver annar þarna á svæðinu svo ég þurfi ekki að vera í neinum samskiptum við þetta fífl....
Ég skil vel að það sé ekki einfalt að afgreiða fólk frá öllum heimsálfum, margir ótalandi á ensku og ekki með réttu pappírana, en ég held líka að þetta fólk ætti að fá lágmarks námskeið í kurteisi.... ekki orð um þetta meir.

Augnlæknirinn var yndisleg (kona) hún mældi þetta allt og hefur aðeins breyst sjónin hjá mér. Hún sá einhverja rönd í hornhimnunni hjá mér og sagði að það væri orsökin fyrir því að ég sæi ekki skírt.... hún sendir mér uppl. um sérfræðing í þessum málum sem ég ætla að heimsækja, hann skoðar þá augun á mér almennilega, setur dropa í og mælir botnana og sér þá hvort þetta er einhver sjúkdómur eða skemmd? Ég get svo skoðað eftir á hvort ég get haft linsur eða hvort ég þarf ný gleraugu. Þetta kemur allt í ljós, vona bara að þetta sé ekki eitthvað sem er að koma í kjölfarið á laseraðgerðinni sem ég fór í, fyrir sennilega 5 árum..... nema eitthvað annað sé að koma upp?? Eins gott að skoða augun almennilega, þau skipta öllu máli. Ég var með -17 í fjarsýni fyrir aðgerðina, hún sagði að ég ætti að koma fram við augun á mér eins og þau væru þannig enn, passa mig á öllum flash ljósum og ýmsu fleiru... þetta vssi ég ekki. Hún var alveg frábær og bjargaði mínum degi :-)

Á leiðinni heim kom ég við í barnafataverslun, ætlaði að kíkja aðeins á föt handa litla barnabarninu hans Magga, og kannsi pínu mínu líka, er allavega gerviamma...
Þessi búð er alveg frábær, ég fór þangað og keypti gjöf handa Erlu Maríu dóttur Dadda og Heiðu þegar hún fæddist og á örugglega eftir að fara þangað aftur... það er svo frábært úrval að það er erfitt að velja, ég ætla ekki að hafa hátt um hvað ég endaði á að kaupa.... ef fólk skyldi nú lesa þetta, en er nokkuð ánægð með valið :-) Ég var búin að skipta um skoðun ca 5 sinnum og hefði auðveldlega getað keypt 5-10 dress þarna!!!

Á eftir ætla ég að elda Ravioli fyllt með Portobella sveppum, það verður ekki slæmt. Búið að taka brauð úr frysti og fer íslenskt smjör og hvítlaukur þar í... ekki oft sem maður brasar með mat hér en gaman af og til.

Það er frí í vinnuni hjá Magga á mánudaginn, Labour-day og lokað á mörgum stöðum. Þetta er e.k. 1. maí heima, Maggi var nú búinn að stinga uppá því við Heiðu að eiga þá, því Labour er líka „fæðingahríðir", skemmtileg enskan :-)
Við ætlum að fara eitthvað á hjólinu og gera eitthvað skemmtilegt. Maggi er að vinna enn, kl. er að nálgast 7 og verkefni sem hann ætlar að klára, e.k. vinnuplan sem hann er búinn að margvinna því ekki allar uppl. komu fram í byrjun og veit ég að hann verður svo feginn að klára þetta og mikill léttir.
Hann fer til Filippseyja í sept og svo á ráðstefnu í byrjun okt til Reno í Nevada, ég er að spá í að hitta hann þar, þurfum að skoða þetta um helgina. Gæti jafnvel endað svo að við hittumst í San Francisco og keyrum til Reno... getum þá skoðað borgina (San Francisco) áður en við förum á ráðstefnuna. Hún er haldin í spilavíti svo maður fær að sjá ýmislegt í þessari ferð. Ég get örugglega farið í einhverjar ferðir, legið í sólinni og...????? kemur allt í ljós hvort eitthvað er í boði fyrir maka? Ég á eftir að lesa gögnin.

Ekki meira í dag, ætla að klára litla bjórinn minn hér úti á svölum og fara svo að græja matinn
Góða helgi
kv Magga

Wednesday, September 2, 2009

Hitinn lækkar / fjölskyldan stækkar

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt, það er kominn þriðjudagur, 2. sept. Ágústa vinkona á afmæli í dag, til hamingju með daginn.
Hér hefur hitinn lækkað mikið síðustu daga og finnst manni 24 gráður hér og 24 gráður heima alls ekki það sama, hiti heima en kuldi hér :-) en ég veit að ég fæ enga samúð frá ykkur miðað við þær hitatölur sem maður sér á mbl.is.

Í dag byrjaði dagurinn í World Bank, ég fór á fund með Family network liðinu og fórum yfir plagatið endalausa.... það er rétt að byrja aftur og verður sennilega næstu viku líka. Ég er löngu hætt að svekkja mig á þessu og held bara áfram...

Svo hitti ég Kim kl. 2, sátum í næstum 3 klst. og spjölluðum, hún er hönnuður hér, komst í samband við hana í gegnum Liz í World Bank og frábært að fá upplýsingar og tala við manneskju í þessum geira. Ég ákvað svo að fara í Whole Food í næstu götu og kaupa freyðivín, Heiða dóttir Magga missti vatnið í nótt (er semsagt ólétt :-) og fór uppá sjúkrahús á Selfossi í dag. Við fengum svo fréttirnar í kvöld, lítil prinsessa fæddist kl. 23 að ísl. tíma og Maggi semsagt orðinn afi og er hreinlega að rifna úr stolti.
Elsku Heiða og Robbi til hamingju með litlu prinsessuna. Maggi er akkúrat núna að skoða mynd af henni sem þau sendu áðan, þessi tækni er ótrúleg.

Það er undarlegt hvernig lífið er, þegar einn kemur í heiminn - fer annar. Í morgun fékk ég mail frá Jónín konunni hans Hreiðars Karls sem hefur séð um skattframtal imago og okkar privat. Hann dó 29. ágúst, það voru hræðilegar fréttir. Ég hafði sent Hreiðari mail um daginn út af bókhaldsdæmi sem ég þurfti smá aðstoð vegna fjarlægðar... fékk ekkert svar svo og reiknaði með að hann væri í fríi og ákvað að bíða eftir svari því Hreiðar er 100% aðili og klikkar aldrei. Svo kom þetta mail og ég fékk smá sting, maðurinn var ekki bara bókarinn okkar, hann var bakhjarl, fagmaður, vinur og ótrúlegur maður, húmoristi með sitt yndislega glott og bara „einn" Hreiðar til, það fer enginn í hans spor.
Ég sendi því samúðarkveðju til baka til Jónínu, hringdi svo í gegnum Skype í blómabúðina á Húsavík, talaði við Sigrúnu vinkonu mína og bað hana að útbúa einhverja einfalda og stílhreina kertaskreytinga handa Jónínu (og Hreiðari), hún fer með hana í kirkjuna fyrir jarðaförina og er þetta það minnsta sem maður getur gert og Hreiðar á þetta margfalt inni. Hann var ekki mikið fyrir „bruðl og prjál" eins og hann myndi segja svo ég bað um að hún yrði ekki mjög skrautleg.

Semsagt gleði og sorg á sama degi, en svona er lífið
kv. frá DC
Magga og Maggi