Monday, August 17, 2009

Fríið á enda

Þá er sumarfríið búið í bili, Maggi fór í vinnuna í morgun og tveggja vikna fríið leið eins og einn dagur... ótrúlega er tíminn fljótur að líða þegar er brjálað að gera og við á ferð um allt.

Við fórum af stað síðasta mánudag (10. ágúst) á afmælisdegi Daníels frænda og keyrðum til Myrtle Beach í South Carolina. Við lögðum af stað kl. 8 um morguninn og vorum komin til Madison og Barböru um kl. 6 um kvöldið. Þetta var hrikalega heitur dagur, sólin bræddi okkur og langir kaflar sem við tókum. Það var hinsvegar nauðsynlegt að kæla sig inná milli því að jakkarnir eru svartir og hjálmarnir þéttir, sem þýðir hrikalegur sviti og vökvatap. Hitinn var 38-40 gráður og vindurinn sem kom á móti manni var stundum eins og úr heitum bakarofni, úff og malbikið hitnaði líka svo það var stundum rosalegt. Við vorum fegin þegar við komumst á leiðarenda, fórum í góða sturtu og þurftum nánast að hengja upp fötin svo þau þornuðu.

Maggi, Madison, Barbara og Magga í morgunmat

Dagarnir hjá Madison og Barböru voru frábærir, við gistum hjá þeim í þrjár nætur og mikið talað og spegúlerað... hugmyndir komu upp og hver veit hvað gerist...? Þau búa í hverfi sem er byggt í kringum golfvöll, þarna er mikið vatn og mikið af slöngum (sáum engar). Hverfið er ekki nógu skemmtilegt, engin þjónusta og ekki nóg um að vera fyrir þau. Þau eru því að spá í að selja og koma sér aftur í menninguna, en hvar.......? þau vita það ekki enn, eitthvað könnuðumst við við þessar vangaveltur :-) Spruning hvort við verðum enn svona eftir 20-30 ár?

Ekki til of mikið af myndum af okkur saman.... svo ég læt þessa fljóta með, Madison tók hana á sólpallinum sínum.


Þetta vatn er í götunni sem Madison og Barbara búa við, ekki slæmt

Lagt af stað út í rigninguna.... (hún var ekki komin þarna, en bjartsýnt fólk á ferð)

Við Maggi fórum einn dag á strönd (þri. 11. ágúst) og grilluðum okkur vandlega, eiginlega of mikið. Næsti dagur (mið. 12. ágúst) var ekki eins bjartur og ætluðum við að nota hann í ferð til Charleston, skoða gamla bæinn og söguna, þetta er víst mjög flottur bær. Við lögðum af stað en lentum í þvílíkri rigningu, það kom veggur á móti okkur og við vorum heppin að það var veitingastaður nálægt sem við þurftum að hanga á í tvo klukkutíma. Þetta var ekki endilega skemmtilegur eða smekklegur staður, bjórinn var OK en umhverfið hræðilegt.

Það rigndi svo rosalega á meðan við vorum þarna að það hrundu bitar úr þakinu og maður var bara heppin að vera ekki á vitlausum stað á vitlausum tíma...

Við gátum lítið annað gert en taka myndir, vökva okkur og lesa á auglýsingaskilti!

Við gerðum tvær tilraunir í viðbót en þurfum að snúa við því það fór alltaf að rigna... svona er að vera á hjóli, hefðum komist á bíl en sennilega ekki getað farið mikið útúr honum vegna bleytu.

Í staðin renndum við meðfram ströndinni og skoðuðum bæi og strendur. Þetta voru miklu minni og skemmtilegri strendur en sú sem við vorum á daginn áður, lítil hús með fram (ekki þessi risa hótel) og allt afslappaðra. Því miður fór að rigna aftur svo við gátum ekki einu sinni sest niður. Það er svo mikil hætta á flóðum þarna að húsin eru öll byggð á staurum og bílskýli undir, mjög skemmtilegt umhverfi.

Á fimmtudeginum (13. ágúst) lögðm við af stað norður. Madison hafði farið út í bakarí og keypt helling af brauði, kleinuhringjum, muffins og öllu svo við borðuðum þennan líka morgunmat í rólegheitunum og vorum send með nesti með okkur. Madison er tæplega sjötugur og Barbara aðeins yngri, þau eru svo ung í sér og Maggi og Madison náðu frábærlega saman og við sem hópur svo þetta var mjög skemmtilegur tími og margt sem við lærðum og annað sem við gátum sagt þeim frá, m.a. Íslandi og fleira. Þau koma einhverntíman til DC og þá höldum við fund nr. 2 :-) Verðum að ræða hugmyndir okkar áfram!

Við keyrðum inní North Carolina og ætluðum að ná ferju frá Cape Island yfir til Okracoke, sem er hluti af eyjaklasa í Outer Banks, meðfram ströndinni, tekur rúma tvo tíma í ferju. Hugmyndin var að gista í eyjunni og halda svo áfram norður daginn eftir.
Ferðin tók mun lengri tíma en við héldum og misstum við af báðum ferjunum.... sú síðasta fór kl. 5. Þvílíkt svekkelsi, það var allt rennandi blautt þarna, greinilega ættarmót moskitoflugna og allar í árásarhug svo við notuðum okkar vopn óspart (spray). Við enduðum með að gista á Moteli þarna, hræðilegt, byrjuðum á að skipta um herbergi því það voru köngulóavefir og mikið líf í loftinu. Við þurfum að borða og það var einn staður þarna, sem tengdist motelinu, hann var jafn hræðilegur. Maturinn var ekki spennandi en rauðvínið fínt :-) Ég svaf ekki nógu vel þessa nótt, þetta var eitthvað svo ógeðslegt. Það var ekkert annað hægt að gera, 30 mílur í næsta stað og ferjan átti að fara kl. 7:30 morguninn eftir.

Við vorum því mjög fegin þegar við fórum uppí ferjuna og lögðum af stað frá landi (fös. 14. ágúst). Það var slatti af fólki sem fór þessa ferð, ferjan full og fólk lá inni í sínum bílum og svaf. Erfitt að sofa á mótorhjólinu svo við fórum upp í setustofuna og spjölluðum við fólk þar. Þetta voru hjón, pabbi hennar og þýskur skiptinemai þeirra. Pabbinn var mjög fróður og sagði okkur frá ýmsu af svæðinu og sýndi okkur margt. Skemmtileg ferð.

Nýja linsan er frábær, hægt að nota hana sem kíki líka... Þarna eru þeir að skoða eyjarnar og það sem á þeim er!

Pelikanar um allt

Þegar við komum að landi í Ocracoke vorum við svekkt yfir að hafa ekki komist þangað daginn áður og gist, þarna var stemmning eins og í Hrísey, notarlegt og ekki stórt, skemmtilegir staðir og hægt að labba um allt. Við skoðuðum okkur um, fengum okkur hádegismat og lögðum í'ann eina ferðina enn. Við þurfum að keyra tugi mílna eftir eyjunni til að komast í aðra ferju yfir á næstu eyju, þetta var smá ævintýri en hefði mátt vera skemmtilegra veður.

Aðeins verið að prófa nýju linsuna...

Gohst Crabs, eins og þessir eru kallaðir, kannski ástæða.... ef þið sjáið hann þá :-)

Þegar við komum að ferjunni var hún að fara, þurfum því að bíða í hálftíma eftir næstu, við röltum því á ströndina og skoðuðum okkur aðeins um, þarna var eitt hús og that's it. Þessi ferjuferð tók 40 mín og vorum við orðin svo þyrst að við fengum okkur einn létt-öl til að hita okkur upp fyrir framhaldið.

Það voru mörg skemmtileg hús á leiðinni... ekki eitt af þessum typisku túristahúsum

Það vor margir skemmtilegir staðir á leiðinni en svo alltof mikið af tilbúnum bæjum og túristadóti þegar við komum norðar, öll hús eins og greinilega byggt upp fyrir brimbrettafólk, veiðidellufólk og sólsjúklinga :-)

Dagarir lengjast alltaf hjá okkur því það er nauðsynlegt að standa aðeins upp af hjólinu og rétta úr bakinu, fá sér vökva og eitthvað að narta. Við vorum því mun seinna á ferðinni en við ætluðum. Það hefði verið skemmtilegast ef við hefðum náð alla leið til Chincoteague í Virginiu, en það tókst ekki. Við fórum yfir Chesapeake Bay Bridge Tunnel (http://www.cbbt.com/index.html), það var þvílíkt mannvirki yfir Chesapeae Bay. Við keyrðum þetta í myrkri og því enn hrikalegra, ég held að þetta hafi verið í heildina 20 mílur, byrjaði á brú, svo göng, þá brú, önnur göng og endaði á brú.... Magnaður útsýnispallur á leiðinni og eiginlega allt hálf hrikalegt, þetta er bara enn eitt ævintýrið hjá okkur og það á hjóli. Maður hefði ekki orðið eins var við hæðir, vinda og allt annað í bíl...
Nú var síðasta nóttin framundan og við ætluðum að reyna að fá einhverja góða gistingu, sérstaklega eftir ógeðið nóttina áður, tókst að lokum en ekki endilega eins við ætluðum okkur - en OK.

Laugardagur (15. ágúst) var kominn og síðasti dagur ferðarinnar runninn upp. Það voru svekktir ferðalangar sem fóru af hótelinu.... morgunmaturinn var hneyksli, ég sagði lobby-dömunni það líka þegar við tékkuðum okkur út. Þarna voru heilu akfeitu bandarísku fjölskyldurnar að úða í sig þvílíku magni af mat, nánast stríðsástand að ná sér í meira.... maður sá mylsnur og ógeð um öll gólf (teppi) og fólk að raða nesti í poka. Við náðum okkur í kaffibolla og forðuðum okkur út í sólina smá stund til að láta þetta róast aðeins. Þegar við komum svo inn og ætluðum að fá okkur, þá var nánast EKKERT eftir nema plastbrauð og leinuhringir, öll áhöld og annað var plast og froðuplast, þvílík mentun og sóun hér sumsstaðar. Við gerðum okkar besta í að borða... komum einhverju af þessu niður. Það verður nú að reikna með mat handa öllum ef hótelið er fullt (fengum síðasta herbergið) og reyna þá að hafa einhvern hemil á þessu liði eða skammta..... þeir síðustu (á laugardagsmorgni) sem vilja aðeins sofa út eru að borga það sama og hinir og því fáraánlegt að fá einhverjar restar.... ég var hundfúl.

En dagurinn reddaðist, við keyrðum áfram í norðum, lentum á frábæru þorpí í Virginiu (Wachapreage), spjölluðum við heimamann á bryggjunni sem ráðlagði okkur að fá okkur soft-crab, sem er ungur krabbi með múka skel og maður át ALLT... ekki slæmt. Stemningin var frábær og við sátum þarna í ca 2 tíma og grilluðum á okkur andlitið og handleggi :-)

Flott svæði á leiðinni til Chincoteague

Komum svo loksins til Chincoteague, kíktum aðeins á ströndina, skelltum okkur í stuttbuxur og minni boli og löbbuðum um, hugmyndin var að gista jafnvel þarna og keyra í rólegheitunum heim.... vonlaust dæmi, þarna var allt troðfullt, frítt inná svæðið og því maður við mann hótel full og við létum okkur hverfa. Þetta var túrista svæði, engin þjónusta eða neitt svo það væri eki hægt að leigja bekki og sólhlífar og því vonlaust að ferðast þangað á hjóli.... ekki tökum við sólhlíf og fleira með okkur þannig :-)

Á leiðinni af svæðinu sáum við bíl á hvolfi og fólk í sjokki, sjúkrabíllinn var á leiðinni svo við stoppuðum ekki, en þetta minnir mann á hvað við höfum verið heppin - við hugsuðum bæði um þetta lengi, þetta hefur áhrif á mann, annar bílstórinn var hágrátandi í einhverju móðursýkiskasti og hinn á hvolfi, úff.

Við stoppuðum á staðnum okkar góða „Big Owl" við Kent Narrow, þar var helling stemmning, fullt af móturhjólaliði, fólki í stuttbuxum, fólki í djammdressi og allir í stuði. Þessi staður er úti á bryggju, mikil fjör, tónlist og dansað svo bryggjaði dúaði vel. Við skelltum í okkur smá vöka og héldum áfram.
Rosalega vorum við fegin að koma heim, hrikaleg umferð, alveg dimmt en þetta gekk bara vel, en hægar en í björtu. Við komum heim um miðnætti og vorum orðin mjög þreytt. Tókum samt upp úr töskunum og sorteruðum óhreina þvottinn, alltaf gott að klára svona því annars liggur þetta bara í töskunum.....

Þetta var góð ferð, skemmtileg en sýndi okkur samt hvað við búum á frábærum stað, matarmenning, fólkið, strandur, landslag og svo margt. Við höfum þetta allt hér í kring og þurfum því ekki að ferðast í marga klukkutíma til að komast á strönd, uppí fjöll eða inní skóg....

Þetta varð að sjálfsögðu miklu lengra en það átti að vera.... var líka vikuferð!
Magga

Driverinn og hjólið góða sem kom okkur alla leið... (tekið á Chincoteague ströndinni)

No comments:

Post a Comment