Thursday, February 4, 2010

Guatemala - ferðasaga 1

Við flugum til Guatemala í gegnum Miami 24. jan, ekki slæmt að komast í hita og fínerí. Það sem einkenndi nú samt veðrið var mikill vindur og sandur og því öll okkar föt haugdrullug eftir ferðina fyrir utan svo svitann.
Maggi fór á sína fundi og ég rölti aðeins um, keypti mér skartgripi hjá konu ekki langt frá hótelinu, fékk söguna með skartgripnum og skiptumst á e-mailum því hún er að flytja til USA. Nú svo skellti ég mér í ferð til Antigua sem er rosalega falleg borg sem er umkringd eldfjöllum, eitt þeirra enn virkt. Þessi borg var áður höfuðborg Guatemala. Í þessa ferð fór ég með konu frá Kolumbiu, sem heitir Martha og fengum við bílstjóra með okkur sem þekkti svæðið og gat sagt okkur frá. Rosalega falleg borg, mikið túristasvæði og mörg hús sem koma á óvart, lítil að utan en svo leynast stórir flottir garðar á bakvið. Stolt þeirra eru blóm og meiri blóm, rosalega flott, þó aðallega í bakgörðunum. Það sem er samt skemmtilegt við þessa borg (bæ) er að gamli stíllinn fær að halda sér og maður heldur að það sé ekkert um að vera, svo þegar maður fer framhjá húsunum þá eru flott söfn, kaffihús eða verslanir. En þetta sér maður ekki fyrr en maður labbar framhjá dyrunum. Mjög skemmtilega gert og gaman að hafa séð hvernig þeir gera þetta, ekki auglýsingaskilti eða útistandar hvorki með vörum eða auglýsingum, mjög vel gert. Hann fór með okkur á markað, ég keypti tösku og trefil og svo lítið listaverk sem er unnið í MOLA stílnum http://en.wikipedia.org/wiki/Mola_(art_form). Ég hjálpaði við að setja upp sýningu með svona verkum í Gerðubergi (minningarmiðstöð) þegar ég vann þar og sá þá vinnuna í þessu. Því gaman að eiga eina svona mynd (verk), allt handsaumað og flottir litir.

Fernando sem var með í ferð (frá World Bank) er frá Kolumbiu og hafði verið þarna áður, fór með okkur á markað heimamanna. Þar var hreinlega ALLT til sölu og skemmtilegt að upplifa þetta, fatnaður, matur, grænmeti, krydd, skór, fatnaður og allt sem fólk þarf fyrir heimilið og auðvitað eitthvað fyrir túristana líka, en samt ekki eins mikið og venjulega á mörkuðum.
Ég varð að taka myndir úr minni ferð til Antigua fyrir Magga svo ég læt nokkrar fylgja.

Meira síðar um Nicaragua og Costa Rica - annars fylli ég einhverja metra af myndum... og eins og alltaf þá eru nánast engar myndir til af mér :-) og örfáar af Magga (samt ekki í þessari syrpu), veit ekki af hverju maður endar alltaf á að taka myndir af umhverfinu en ekki okkur... en þið vitið hvernig við lítum út :-)
Magga

Flott aðflugið að Guatemala City

Það er mikið af fjöllum og hæðum í kringum borgina og byggt á flestum auðum svæðum. Maður sá í úthverfunum algjör húshræ...
en breyttist þegar maður nálgaðist miðjuna!

Tveir flottir...

Ekki slæmt að hafa svona fyrir utan húsið, þetta er tekið fyrir utan hótel í Antigua. Þetta er algjört lúxus hótel og ekki fyrir hvern sem er að gista þar (sagði Cesar bílstjórinn okkar :-) Hótelið heitir: Casa Santo Domingo, ef þið eigið leið hjá!!! 5 stjörnur þar.

(Antigua) Þetta var sennilega einhverntíman grand,
en flott er þetta nú samt...

Dómkirkjan þeirra í Antigua.

Götumynd frá Antigua, bæjarhliðið og eitt af eldfjöllunum.
Húsin leyna á sér.

...og meira af eldfjöllum - það voru nokkrar myndir af fjöllum
því Maggi elskar fjöll :-)
Þarna sést í smá hluta af blómum, þau voru í hundraðatali.

Varð að setja inn fleiri blómamyndir fyrst ég var byrjuð...

...og enn fleiri. Þeir reyna að halda í allt gamalt
eins sést á brunnunum þarna.

Hér eru svo Cesar og Martha í blómahafinu. Það eru fjöll allt í kring og þeir kalla þetta „græna beltið", magnað að keyra þarna í gegn, bratt og stundum þröngt...

Svo læt ég ráðuhúsið þeirra fylgja með, það stendur við mjög skemmtilegt torg (Central Park eins og það heitir). Þar fengum við okkur bjór dömurnar á meðan bílstjórinn sótti bílinn, mjög skemmtilegir barir og afslöppuð stemmning þarna. Yndisleg borg/bær - ekki hægt að segja annað, minnti svolítið á stemmninguna í gömlum evrópskum borgum þó svo stíllinn sé allt annar.

No comments:

Post a Comment