Friday, July 31, 2009

Sumarfríið undirbúið

Nú er síðasti dagur hjá okkur fyrir sumarfrí, Maggi er með hjólið á verkstæði og verið að skipta um síur, olíu og keðju og fl.... svo við séum nú örugg.
Mitt verkefni er að skoða USA bókina og hvað við gætum gert í fríinu, við erum búin að vera einum of róleg í undirbúningnum en það er reyndar ekki í fyrsta skipti, við höfum oft farið af stað án þess að panta gistingu og svo elt veðrið og fallega staði...

Við byrjum nú sennilega á að fara til New York og þar í kring, ekki slæmt að skoða borgina og umhverfi, halda svo aðeins áfram í norður og jafnvel skoða Niagara fossana.... kemur allt í ljós hvernig veður og vindar haga sér og ég þarf að ath. hvað tekur langan tíma að komast þangað.

Ég sit semsagt úti á svölum með stórt vatnsglas og bókina góðu og sviiiiiitna. Sólin nær ekki almennilega inn á svalirnar, er ekki viss um að ég sæti þar enn ef svo væri. Sólin er ágæt en það getur líka orðið of mikið af henni og ekki þarf maður að grilla sig þannig að maður verði orðinn hundgamall og krumpaður BARA fyrir útlitið :-) eeeeen OK það er ekki leiðinlegt að fá lit....

Í gær var heldur betur tiltektar og þrifnaðardagur, gerði líka leiðindarverk meðfram... kláraði bókhald imago, vaskurinn, reikningar, borga og allt hitt. Sendi mail á kúnna til að tilkynna futning... var búin að skrifa þetta fyrir löngu en gleymdi alltaf að senda.... auðvitað gat ég ekki sent þetta að heiman því ég var ekki komin með símanúmer til að láta fylgja.
Svo fór ég í útréttingar, sótti m.a. buxurnar hans Magga í hreinsun og keypti hamar svo ég gæti hengt upp myndina sem ég keypti um daginn, ljósmynd (eftirprentun) af skemmtilegum gaukum, sitjandi á stálbitum og virkar eins og þeir séu dinglandi yfir borginni :-) Þetta er gömul fræg mynd sem ég man vel eftir úr bókum eða .... man ekki hvar. Hún er líka tákræn fyrir mig og „morgunverðarborðið" okkar :-) stólarnir eru svo háir að ég næ engavegin niður.... dingla löppunum eins og gaukarnir :-)
Læt hana fylgja með. Staðsetningin á borðinu er fín, milli tveggja glugga og því hægt að fá smá hreyfingu á loftið (stundum) það er oft svo mikill raki hér inni að maður svitnar við að borða.... ekki alltaf skemmtilegt, sérstaklega ef maður er búinn að fara í sturtu og t.d. laga á sér hárið :-(
Eina leiðin er þá að loka gluggum og setja loftkælinguna í gang.... til að kæla aðeins kofan.... við vildum sól og hita... fengum hann, en því fylgja að sjálfsögðu einhverjir ókostir líka!! Svona er bara lífið.

Nú er að harka af sér og út á svalirnar aftur, halda áfram að lesa... það er allavega aðeins smá hreyfing á loftinu, núna kl. 12:30 er hitinn úti 33 gráður og 55% raki!!!! það er kannski skýringin á svitanum :-) hitinn á mjög sennilega eftir að hækka.

Ekki reikna með að ég skrifi neitt hér að viti næstu daga... við komum heim á milli ferða í 1-2 daga og sjáum hvað ég verð dugleg. Verðum ekki með tölvu á okkur, enda er farangur sparaður á hjólinu. Í gær komu nýju hliðartöskurnar á hjólið svo maður getur haft aðeins meira með sér, veitir sennilega ekki af að hafa nokkra boli....

Í gær kom líka dýnan á rúmið, þetta er yfirdýna svipuð og rúmdýnan okkar heima, þeir kalla þetta „memory" dýni. Hún aðlagast að líkamanum og fer svo aftur í réttar skorður. Þeir gleymdu að senda coverið á dýnuna en það kemur. Þetta var yndislegt, leggjast í mjúkt rúm. Það tekur dýnuna að vísu 24 tíma að verða eins og hún á að vera, hún kom upprúlluð og næstum vacum-pökkuð svo loftið þarf að komast í hana. En hlutirnir eru að gerast,sumir hægar en aðrir....

Maggi var að hringja, þetta er nú meira dæmið. Hann er fastur á mótorhjólaverkstæðinu þvi keðjan sem var pöntuð passar ekki á hjólið.... og búið að eyðileggja þá gömlu. Skv. handbók hjólsins var þetta rétt keðja, en eitthvað ekki eins og það á að vera. Eigandi verkstæðisins er lagður af stað á sínum bíl að reyna að redda málunum, sjáum hvað kemur út úr þessu! Maggi er semsagt búinn að vera þarna í 2 1/2 tíma og eyðir sennilega deginum þar. En hann getur setið útí sólinni á meðan gaurinn reynir að fá nýja keðju, vorkenni honum nú ekki beint. Hann ætlaði að reyna að komast í vinnuna smá tíma til að klára skýrslu sem hans yfirmaður þarf svo að lesa á meðan hann fer í fríið. Ætli það endi ekki bara með kvöldvinnu hjá mínum manni!
Svona er þetta bara hérna, eitt verkstæðið átti ekki tíma fyrir hjólið fyrr en 17. ágúst..... þá er fríð okar búið :-) Sjáum hvort við komumst á hjólinu góða, ef ég þekki Magga rétt þá er hann búinn að hrósa gaurnum helling og hvað hann sé frábær og auðvitað er hann búinn að fá hann á sitt band... og hann vill allt fyrir hann gera og klárar málið :-)

Sumar- og sólarkveðjur og hafið það gott um verslunarmannahelgina - farið varlega!
Magga & Maggi

Wednesday, July 29, 2009

Ánægð með daginn

Nú styttist óðum í fríið okkar, Maggi á bara eftir að vinna á morgun og svo tveggja vikna frí (rúmlega það). Við erum ekki búin að ákveða nákvæmlega hvenær við gerum hvað, en erum komin með hugmyndir, m.a. skreppa til New York... þar ætlar minn maður að hitta einhverja gauka út af verkefni, ætli ég fljóti ekki bara með eða kíki á borgina á meðan - það kemur allt í ljós. Svo er ætlunin að fara í suður og kíkja á strendur og slaka á, fá smá sól á annað en handleggi, fætur og andlit :-)

Í dag fór ég í íslenska sendiráðið og fékk þau til að þýða ökuskírteinið mitt yfir á ensku, það þarf víst að vera svoleiðis og stimpill frá sendiráðinu. Hún sagði mér að hér væru hópur af íslenskum konum sem hittust af og til, ég þyrfti bara að koma mér í samband við sendiherrafrúnna.... ég hlýt að finna hana :-) allavega byrja ég þá á sendiherranum, við erum með mailið hans. Það væri örugglega gaman að hitta þessar dömur, veit ekert hverjar þær eru.

Eftir hádegi hitti ég Sally Macartney, veit ekki hvort hún er eitthvað skyld goðinu sjálfu :-) en hún er sú sem sér um fjármálanámskeið innan WBFN (fjölskyldunet WB). Við fórum yfir stöðuna og ég fer í að klára verkefnið þegar ég kem úr fríinu. Fínasta kella og við töluðum um ýmislegt og m.a. um hvað við Maggi gætum gert í fríinu okkar, henni fannst nú full langt að keyra á hjólinu frá New York til Toronto....

Fyrst ég var komin svona neðarlega í borgina (G street) þá var stutt í Macy's, ég ákvað að kíkja þangað og athuga hvort ennþá væru til bikinin sem ég sá um daginn.... auðvitað voru þau búin mööhöhö.... þau voru sennilega bara ekki nógu flott :-)
Við erum búin að vera að leita að einhverju fati í eldhúsið, því það eru bara 4 matardiskar og eitt eldfast mót... + glös og kaffibollar og fleira. En okkur vantar fat ef við eldum eitthvað eða fáum t.d. gesti í mat. Ég fór því niður í kjallarann í Macy's þar sem eru búsáhöld, húsgögn og fleira. Þar var ýmislegt til og mjög flott matarstell.... ég labbaði framhjá þeim, en skoðaði föt í ýmsum litum. Ákvað að taka eitt sem er á e.k. standi, hægt að nota það sér eða á þessum standi ef það er heitt. Fyrst þetta var á tilboði þá kippti ég líka með súpu-skál með loki, ausu og standi með sprittkerti (til að halda heitu). Það er líka hægt að nota þetta sér svo þetta er barasta fínasta búbót og ekki veitir af.... sorglegt að vita af öllu dótinu sínu í kössum :-) fína ryksugan, Kitchen Aid hrærivélin og allt hitt...... en þetta völdum við og þá er bara að lifa með því :-) og fara út að borða...... ha, ha, ha....

Ég trítlaði svo af stað heim á leið, var með hrikalega þungan bakpoka með tölvunni minni og fleira dóti.... + þetta leirót, stendur reyndar á pakkanum að þetta sé postulín...?????? Þá sá ég búð sem ég er búin að leita að lengi, búð með málningarvörur, striga og liti.... ég kíkti þangað inn til að skoða hvað væri til og hvernig verðin væru, mig langar nefnilega mikið til að byrja að mála aðeins aftur. Nú það var tilboð á start-pakka, 10 akryllitir, penslar og palletta, ekki gat ég labbað út og séð eftir að hafa EKKI keypt þetta... og svo ég gæti nú notað litina þá keypti ég 4 litla blindramma með striga til að æfa mig á. Nú er ekki aftur snúið..... ég fékk afsláttarkort þarna, sem allt virðist snúast um hér... til að fá þennan afslátt, en OK ég er í USA, afsláttamiðaveldinu :-)

Á leiðinni heim þá svitnaði ég svo hrikalega, bakið á mér var rennandi blautt og hárið eins og ég hefði verið í sturtu, nei kannski ekki alveg en vel blautt... enda var þetta orðið ansi þungt. Skýringin var líka sú að það var búið að rigna í dag (á meðan ég var á fundinum) og rakinn kominn upp í 75% og er núna 90%.... sem þýðir sviti. Hitinn var ca 30 gráður í dag og það munar miklu þegar rakinn er svona mikill. En það er kaldara núna og loftkælingin mallar til að kæla aðeins áður en við förum að sofa. Það er ekki hægt að hafa loftælingu á nóttunni, það er svo mikill hávaði í henni og svo erum við bæði þannig að við byrjum að hósta og fáum hálfgert kvef.... ég hef oft fundið fyrir þessu í verslunum og í lestum, þoli þetta greinilega ekki vel.

Ég er að klára að copera verkefni á CD til að láta þær hjá fjölskyldunetinu (World Bank) hafa, þær ætla að klára það.... ég var svooooo fegin þegar Gilda spurði hvort ég væri viðkvæm fyrir því að hún gerði það, ég verð svo fegin að losna við þetta því það hafa verið að koma 10-20 mail til mín á dag þegar verst hefur verið. Það eru ca 10 manns að vasast í þessu og það er að sjálfsögðu alltof mikið, auðvitað á einn aðili að taka við commentum og koma til mín.... svona er þetta bara oft. Ég get allavega farið í frí með góðri samvisku og laus við að klára síðustu cm á þessu eilífðar plagati íííhaaaaaaaaaa Það þarf nefnilega að klára þetta í byrjun næstu viku, átti að sjálfsögðu að vera löngu búið....

Maggi fór á hjólinu að hitta Roserio, hann plataði Magga í Squash eða eitthvað mjög svipað... gaman að sjá hvort hann kemst heim eftir það :-) annars erum við komin með góða lærvöðva af allri göngunni hér og ég á handleggina eftir pokaburð :-)

Nú ætla ég að snúa mér að því að klára eitt verkefni svo ég geti farið að skoða litina mína og undirbúa fyrsta meistaraverkið.......

Magga

Tuesday, July 28, 2009

Heitur dagur

Í dag var heitur dagur, 35 gráður og góður raki, fór mest uppí 80% í morgun. Ég verð að viðurkenna að ég var frekar löt og í takt við hitann og loftslagið :-)
Vann aðeins í mínum pappírsmálum, talaði við Dagnýju og svo pabba og mömmu.... skilst að það sé ekki of gott veður þar núna, vann í verkefnum og fleira, settist svo í sólina og prjónaði. Ég lagðist aðeins uppí rúm eftir hádegi og steinsofnaði í ca klukkutíma... það var nú bara nokkuð nice, ég held að við förum stundum aaaaaðeins of seint að sofa og vöknum kl. ca 6:30.

Fór að rölta um og náði sá sól og svo skelltum við Maggi okkur í smá ferð á hjólinu í kvöld, fórum á fiskimarkað og skoðuðum og fengum okkur svo að borða í einhverjum klúbbi við höfnina í DC, ekki slæmt en rándýrt miðað við það sem við keyptum okkur (fisk og rækjur). Það er svo sannarlega ekki ódýrt að lifa hér.

Það er yndislet að sitja á svölunum og hlusta á engisprettur, fugla og auðvitað verða bitinn af þessum yndislegu flugum grrrrrrrr þær eru hrifnar af okkur :-)

Það eru allskonar fuglar sem setjast í trén hér í garðinum, svartið, gráir, brúnir, bláir og eldrauðir.... varð að setja eina inn, þeir settust auðvitað á einu greinina sem er lauflaus :-) Svo eru íkornar sem eru hér allt í kring, þeir eru ferlega krúttlegir og gaman að fylgjast með þeim hlaupa á rafmagnslínunum á milli húsþaka, þeir eru ótrúlega fljótir og nota skottið til að halda balance. Ég þarf einhverntíman að vera með myndavélina og ná enhverjum skemmtilegum myndum af þeim hér úti, ferleg krútt...

Nenni ekki að skrifa meira núna, ég svitna bara við að pikka þetta inn, það er bara þannig loftslag núna. Mjög misjafnir dagarnir og þetta er einn af svitadögunum :-)

Svo þurfum við að fara að skipuleggja fríið okkar, Maggi fer í frí á föstudaginn, dagurinn fer í að græja hjólið, hann fer með það á verkstæði og þarf að yfirfara og skipta um keðju, svo leggjum við í'ann, vitum að vísu ekki alveg hvert við förum fyrst.... þurfum að skoða veðurspánna.
Við fáum hliðartöskur á hjólið á fimmtudaginn, sjáum hvernig þær passa.... þær síðustu pössuðu enganvegin og við skiluðum þeim... það veitir ekki af að hafa þetta þegar við förum í lengri ferðir, t.d. viku.

góða nótt
Magga

Sunday, July 26, 2009

Góð helgi liðin...

Það er ótrúlegt hvað tíminn líður hratt og ekki síður helgarnar. Þessi helgi var sérstaklega róleg og leið alltof hratt, búin að vera yndisleg.

Við fórum út að borða á föstudagskvöldið með Jonathan, vinnufélaga Magga. Hittumst á frönskum stað hér ekki langt frá og skemmtum okkur vel, hann er ný skilinn og við ræddum mjög skemmtileg mál og engum leiddist :-) skruppum svo aðeins á pub í næstu götu og fórum aðeins of seint að sofa...
Áætlað var að fara snemma af stað á laugardeginum, það breyttist aðeins en lögðum samt af stað á hjólinu góða. Settum sundföt, teppi og bók í mótorhjólakassan og lögðum í'ann. Við ákváðum að skoða Harpers Ferry, sem er gamall bær, uppgerður, við Shenandoah. Þetta er bær sem fær að halda útlitnu síðan ca 1860.
Leiðin varð aðeins lengri en hún átti að vera, við fórum nefnilega ekki alveg rétta leið.... ekki í fyrsta skipti, merkingarnar eru ótrúlega ruglingslegar stundum... en við sáum mjög skemmtilegt svæði og ótrúlegar villur og herragarða. Það eru greinilega til peningar hér, að vísu voru mörg þessara húsa til sölu, hmmmmmmmm væri ekki leiðinlegt að búa í einu svona!

Þegar við komum á svæðið hittum við hjón á Harley hjóli, fyndið par og spjölluðum aðeins við þau, ákváðum að fara fyrst niður að á og reyna að komast í sólina og skoða svo bæinn.
Þetta dæmi kom heldur betur á óvart, þarna var heldur betur fjör, fólk renndi sér á e.k. uppblásnum kleinuhringjum :-) í allskonar litum, niður ánna, með kæliboxin sín í sér hring eða báti og bjórinn við hendina... sumir voru orðnir ansi blauti að innan og utan. Fólk var með grill og hundana sína, börnin, tónlist og hellings fjör.



Við skelltum okkur á einn stein, fórum í okkar sundföt, opnuðum bjórinn sem við vorum með í nesti... og skelltum okkur svo í vatnið. Það var nokkuð hlýtt og gaman að sjá fjörið og taka aðeins þátt í þessu. Það var eitthvað að verða rigningarlegt svo við pökkuðum saman og skelltum okkur af stað til Harpers Ferry. Ég var í rennandi blautum skóm því daman hafði gleymt að taka aðra með sér...
Við náðum inná svæðið, hittum einhvern vörð (löggu) þvílíkur töffari... Maggi keyrði yfir smá grasblett og hann sýndi honum reglurnar og sagðist geta sektað hann fyrir 170-350$.... en gerði það sem betur fer ekki, þetta er vestur Virginia... greinilega mismunandi reglur...
Þessi sami tappi sagði okkur að leggja hjólinu þarna á bílastæðið og svo gætum við tekið rútu niður í bæinn, við gerðum það og hoppuðum upp í rútuna... daman þar sagði að það væri búið að loka öllu í bænum og við gætum þá bara labbað um.... Maggi fór aðeins að pumpa hana og þá kom í ljós að við gáum alveg eins farið á hjólinu alla leið.... sem við gerðum. Það var byrjað að rigna svo við ákváðum að hoppa inná veitingastað og fá okkur að borða á meðan þrumuveðrir gengið yfir.... það kom aldrei almennilega... svo við röltum um bæinn, skoðuðum húsin (utanfrá, því söfnin voru lokuð-skipti okkur að vísu ekki máli :-). Síðan löbbuðum við niður að ánni og yfir göngubrú.... það var ákveðin lífsreynsla!!!!

Göngubrúin og lestarteinarnir eru eitt.... lestin kom yfir með trilljón vagna og brúin gjööööörsamlega nötraði.... Það var eins gott að standa kjurr.... manni fannst eins og allt myndi hrynja :-) þessi brú og þá lestarteinarnir, voru nú ekki eindilega traustvekjandi....

Jæja þá var að koma sér heim, við ætluðum ekki að vera svona lengi en svona er þetta þegar er gaman hjá okkur... Við rúlluðum af stað og lentum í smá rigningu, vegirnir voru blautir svo buxurnar okkar voru orðnar blautar upp að hnjám, gaman - gaman. Þegar við vorum komin að Germantown sáum við þvílíkar eldingar yfir Washington og rigningu að við ákváðum að stoppa aðeins og láta veðrið aðeins verða á undan okkur... það tókst líka og við komum heim eitthvað fyrir miðnætti, blaut, köld, þreytt en sæl...

Í dag (sunnudag) ákváðum við að láta klukkuna ekki hringja, sofa út og taka því rólega.... ég vaknaði auðvitað snemma, rúmið er að drepa mig og bakið eitthvað ekki eins og það á að vera...
Því vorum við komin í gang löngu fyrir hádegi! fengum okkur morgunmat og hugsuðum málin. Veðurspáin var þannig að það ætti að byrja þrumuveður um kl. 2.... við ákváðum því að rölta af stað um hádegi og ná sólinni aðeins hér í borginni. Við enduðum í hverfi aðeins fyrir ofan okkur, fundum matvöruverslun sem íslensk stelpa í World Bank var búin að benda okkur á, versluðum aðeins þar og röltum heim með dótið.... bjórinn er þungur....
Það þýddi ekkert að vera að hanga inni svo við fórum aftur af stað, ætluðum að finna okkur pub og kíkja á einn bjór á meðan rigningin kæmi.... bjórinn var góður eftir laaaaaaangt labb en rigningin kom aldrei og er ekki enn komin (kl. 23:15). Við svitnuðum því vel í veeeeeel rúmlega 30 stigum....
Í kvöld fengum við okkur því afrakstur dagsins, gott brauð, osta, salami og rauðvín mmmmmmmm ekki slæmur kvöldmatur það.

Maggi sýndi þvílíka hörku og þvoði mótorhjólið með alvöru tjörusápu hér fyrir utan (hann vann svo hratt að hann náist ekki í fókus :-) og ég hélt áfram með eitthvað ævintýri á prjónunum hér uppi á svölum.... og dáðist að mínum manni.... :-)

Það styttist í að við skríðum undir lakið okkar og kúrum í okkar fína rúmi.... yfirdýnan ætti að koma á næstu dögum, það verður fróðlegt að sjá hvernig (hvort) þetta breytist????

Svo er spennandi vika framundan, ýmislegt á döfinn - meira um það síðar.
Maggi er bara að vinna næstu viku og svo er það tveggja vikna frí - við erum ekki búin að skipuleggja það alveg.... förum sennilega út í óvissuna eins og svo oft áður... það eru líka oft skemmtilegustu fríin!

Góða nótt, Magga

Friday, July 24, 2009

Rakinn í hámarki...

Loftrakinn er rúml. 80% eftir rigninguna í gær. Það byrjaði að rigna stuttu eftir hádegi og mígrigndi örugglega í klukkutíma, ég sat sem betur fer á svölunum með prjónana og þurfti að snúa stólnum og forða garninu upp að vegg... en prjónaði nú samt úr blautu garni, það hlýtur að verða eðal vara!
Það voru þvílíkar þrumur og örugglega eldingar líka (sáust bara ekki) og brakaði í allri borginni. Ég hélt áfram að dúlla mér hér og það fór aftur að rigna og þeim mun meira.... það var allt á floti hér úti, ég þurfti líka að loka gluggunum hér því þakrennur höfðu enganvegin undan og það lak inní gluggann og niður á gólf....
Ég átti sem betur eftir að taka íbúðina í gegn svo ég gat skúrað þetta upp í leiðinni, eins gott að ég var heima því það hefði annars orðið góður pollur hér, ekki endilega réttur halli á gólfinu svo það hefði alveg eins getað lekið inní miðja íbúð.
Já ég tók íbúðina algjörlega í nefið, ryksugaði, skúraði, þurrkaði af, setti upp nýtt sturtuhengi, þvoði mottur og svo þvoði ég stigaganginn alla leið niður (takið eftir.... 3 hæðir). Ég var ekkert smá stolt af dagsverkinu, jú ég prjóna eina húfu líka... er í smá tilraunastarfsemi!

Ég er alveg að hafa bókina góðu sem ég er að lesa, þetta er frábær bók (The Element), en ég sest bara alltof sjaldan niður með hana, er búin að ákveða það að nú tek ég með mér bók í töskunni - hvert sem ég fer. Það er svo oft sem maður er að rölta, sest á kaffihús eða bara ra á bekk í einhverjum garði og þá væri frábært að geta lesið og setið í sólinni. Maður lærir alltaf :-)

Það var búið að plana gærkvöldið, út að borða með Finnboga á eþíópskum stað í Georgetown (rosalega fallegur bær sem er í framhaldi af miðborgnni - í gömlum stíl). Ég tölti af stað kl. tæpl. hálf átta og ætlaði að hitta Magga fyrir utan World Bank. Það byrjuðu að koma smá rigningardropar á leiðinni.. og af því að ég var búin að græja mig og laga á mér hárið, þá setti ég upp regnhlífina.... áfram labbaði ég og áfram hélt rigningin, jókst með hverjum metranum.... það hreinlega mígrigndi síðustu hundruð metrana og buxurnar voru orðnar rennandi blautar upp að hnjám. Ég fék rigninguna á móti mér svo ég fékk að sjálfsögðu alla rigninguna af regnhlífinni yfir lappirnar á mér... ekki spennandi. Skornir voru orðnir rennandi blautir og skvamp-skvamp....
Ég hreinlega hljóp yfir síðustu götuna til að ná ljósinu og komast í skjól undir World Bank húsinu.... ég held ég hafi sjaldan lenti í annari eins rigningu, fólk að reyna að ná í taxa og óð upp fyrir ökla í vatni og allir rennandi blautir. Ég verð að segja að ég vorkenndi útgangsfólkinu hinu megin við götuna, það var kominn bíll frá hjálpræðishernum að gefa þeim matarpoka og þvílík bleyta... ekkert skjól fyrir aumingja fólkið til að borða sinn mat, nema einhver aum regnhlíf eða plast. Hvernig ætli sé fyrir þetta fólk að sofa úti núna í þessum raka og bleytu, getur varla verið gott!
Buxurnar mínar voru svo blautar að ég þurfi að vinda þær, skórnir rennandi blautir svo eina leiðin var að fara úr þeim og þessar 15 mín. sem ég stóð þarna úti náði þett að þorna aðeins en það rigndi staaaaanslaust, ég horfði í gegnum foss af húsinu, ótrúlegt.

Maggi kom út um leið og rigningin var að dvína.... við röltum því af stað og hittum Finnboga. Hann stökk á okkur á miðri leið og við hrukkum í kút og vissum ekki hvaða fáviti þetta var :-)

Við fórum á eþíópska stað og pöntuðum okkur 3 rétti sem voru allir settir á eitt stórt fat, undur þessu er þunnt brauð, eiginlega eins og þykk pönnukaka, aðeins svampkendari og Maggi líkir þessu við gamla gólftusku :-) Með þessu fylgja líka auka brauð sem maður á að nota sem verkfæri. Karlmennirnir voru pínu penpíur svo þeir fengu hnífapör, daman var ekki alveg eins mikil pempía og lét sig hafa það að borða með guðsgöfflunum :-) Þetta var frábær matur, sut sterkt og annað mildara. Á meðan við sátum þarna inni fór enn og aftur að rigna með þvílíkum eldingum að það var eins og besta flugeldasýning....

Þegar við vorum búin að borða var enn rigning, en við Maggi vorum með regnhlíf og Finnbogi í frakka svo við ætluðum að láta okkur hafa þetta... eeeeeen það fyndnasta við þetta allt var að um leið og við löbbuðum út fór kona uppí leigubíl og skildi regnhlífina sína eftir opna á gangstéttinni, eiginlega beint fyrir framan lappirnar á Finnboga.... auðvitað tók hann hana og labbaði alsæll heim undir sinni nýju fínu regnhlíf :-) Það er gott að geta bara skilið regnhlífina eftir úti á götu.... hún á kannski nóg af þeim... eða langaði í nýja MINNI :-)))

Maggi var búinn að sjá Írskan pub á horninu á 19. og L street, svo við ákváðum að kíkja aðeins þar inn. Lentum á spjalli við nokkra kana og skemmtilega stemmning, rætt um efnahagsmálin og þarna var bankastarfsmaður sem sagðist hafa verið milli í braskinu mikla en núna væri hann EKKI milli lengur.... ungur strákur sem greinilega gerði það gott á tímabili. Han var bara nokkuð eðlilegur og enginn hroki og raunsær.
Þegar við vorum búin með bjórinn sáum við að klukkan var orðin 00:30, úff við vöknum venulega kl. 6:30 og Maggi leggur af stað í vinnuna kl. rúml. 8.... hringingunni var seinkað aðeins í morgun og Maggi karlinn fór seinna af stað :) en það er föstudagur og þá er allt rólegra í bankanum og ekki nema helmingur starfmanna í vinnuni. Fólk vinnur langa vinnudaga og tekur annan hvern föstudag frí í staðin, mjög sniðugt.... en langir dagar í staðinn.

Í kvöld förum við svo út að borða með Jonathan, vinnufélaga Magga. Hann er ný skilinn og virkar nokkuð vel á mann. Það er frábært að kynnast aðeins vinnufélögum Magga og þar sem þessi er kani, þá getur hann örugglega sagt okkur frá ýmsi, bent okkur á svæði eða staði eða gefið okkur einhver ráð... jafnvel í sambandi við mig og vinnu????

Annars var það ferlega fyndið í gær þegar ég sat hér úti með prjónana, ég fílaði þetta alveg í tætlur, horfði á litina, litasamsetninguna, munstur og allt það. Ég held að áferð, litir, munstur, pappír og annað tengt því sé eitthvað sem heillar mig algjörlega... hvernig ég nota þetta eða ger í framhaldinu er enn aðeins í þoku, en ég fékk hugnyndir hér í rigningunni og ætla að halda áfram að hugsa þetta, ætla að kíkja á textílsafn hér rétt hjá og sjá hvernig upplifun það verður...

Það er svo margt í boði hér að ég get gert nánast hvað sem er, það þarf bara að finna staðina og það sem maður vill - en til þess þarf maður að vita HVAÐ maður ætlar og vill gera.... það er stærsti vandinn hjá mér núna í augnablikinu, að taka ávkörðunina miklu... en þetta er allt að skýrast og áfram held ég að lesa bókina góðu og hún hristir verulega upp í manni og kemur með aðra vinkla á málin...

Nú ætla ég að ná í meira vatn og skella mér svo í sturtu, maður svitnar ágætlega hér, lappirnar á mér eru í sólinni svo þær eru að verða nett grillaðar... þýðir ekkert að vera með tölvuna í sólinni, sér þá nákvæmlega ekkert á skjáinn :-))

Þarf að gera leiðréttingar á eilífðarverkefninu fyrir World Bank, Picnic plagatið.... tíu mannst að koma með comment og einmitt eitt mail að detta inn akkúrat núna... ég verð svooooooooo fegin þegar ég verð búin með þetta.... Ég á svo eftir að klára hitt plagaðið og þá ætla ég EKKI að vinna meira fyrir þær, þær eru búnar að biðja mig um að gera nýtt útlit á tímaritið þeirra, allt í svarthvítu og aðeins 3 prentlitir á forsíðu... ekkert spenandi og ég hreinlega nenni því ekki. það er frönsk kona sem sér um heimasíðuna þeirra og þvílíkur HROKI, talar við mig eins og ég viti ekkert um hönnun og myndvinnslu, upplausn mynda og allt það... ég nenni barasta ekki að vinna með henni, ég þarf ekki að EYÐA mínum tíma í þetta. Get alveg eins farið á söfn og fengið eitthvað útúr deginum... ég fæ nákvæmlega ekkert út úr því að vinna fyrir hana, bara kvöð og leiðindi.... ekki neikvæð, nei, nei... ég er bara búin að gera þetta svo oft og þetta er akkúratð það sem ég ætlaði EKKI að gera hérna, vinna fyrir fólk sem veit eki hvað það vill, en veit hvað það vill EKKI :-))) Ekki orð um það meir.....

Á morgun ætlum við svo að skella okkur á hjólið og kíkjum sennilega uppí fjöll, þurfum að ákveða þetta í dag... best væri að fara snemma í fyrramálið, á undan umferðinni svo maður komist eitthvað áfram.... verður örugglega skemmtilegur dagur.

Ég sá inni á mbl að þið eruð búin að fá eftirlitsþyrlu í uferðina, góða skemmtun.. hér fljúga þær yfir borginn allan daginn og þvílíkur hávaði... á kvöldin eru þær með kastara ef eitthvað erum að vera og í einhverjum eltingaleik :-)) ég horfið á videoið inni á mbl og sá að íslenska löggan var að fíla þetta í tætlur :-)

Eigið góða helga, ekki víst að ég lemji lyklaborðið nokkuð á morgun....
Magga

Wednesday, July 22, 2009

Hvað er þetta með svínaflensuna....

Hvernig er þetta með svínaflensuna á Íslandi... ég hef hvorki fundið fyrir neinu hér eða tekið eftir neinu.... kannski eins gott. Hér rekst maður á allskonar fólk út um allt og kraðak víða... maður ætti kannski að fá sér grímu :-) Nei, nei maður verður alltaf að taka smá áættu í lífinu, vera heppinn og vona það besta.

Ég lenti í þvílíka dæminu í morgun, gaman að opna póstinn og sjá panic-mail frá einum kúnnanum... byrjað að prenta og villur í skjalinu, ég eyddi þvílíkum tíma í þetta og hlutirnir redduðust, hinsvegar var mitt netfyrirtæki eitthvað að hökta og ég komst ekki í mailið mitt í þó nokkurn tíma, var farin að hafa áhyggjur... en allt blessaðist og þetta komst til skila. Ég hef ekki fengið nýtt mail svo þetta hlýtur að hafa verið í lagi... þangað til annað kemur í ljós!!!

Ég hafði 45 mín. til að henda mér í sturtu og labba í World Bank (sem tekur tæpl. 20 mín.) svo þetta var tekið á mettíma. Við ætluðum að hitta gaur í bankanum sem er að selja linsu á myndavél eins og mína, hann var að sjálfsögðu stunginn af í mat svo við röltum líka út og fengum okkur að borða. Svo á annan stað og fengum okkur kaffi, það dugar okkur einn lítill bolli (glas) saman. Það er ótrúleg kaffimenning hér, allir með kaffi á röltinu og ég er viss um að stærstu bollarnir nálgast heilan líter.... ég veit hvar ég yrði ef ég drykki þetta allt, kæmi því heldur aldrei niður. Eina leiðin til að fá almenilegt sterkt kaffi er að fara á veitingastað og fá í bolla!! Ég veit ekki hvað er í gangi hér en þetta er greinilega þeirra kaffiþamb, verði þeim bara að góðu, ég held bara áfram að deila minnsta glasinu með mínum manni.... eða drekk bara hálft :-)

Linsugaurinn var kominn úr mat þegar við kíktum á hann í annað sinn og enduðum með að kaupa linsuna, trallallalallalla.... fínasta linsa, mun meira zoom en á móti er hún þyngri og því auka farangur... en maður lætur það nú ekki á sig fá :-) Nú er bara að halda áfram að læra og lesa sér til um þetta allt saman. Hann benti á bók sem hann sagði að væri góð, ég elska bókabúðir svo ég á sennilega eftir að fara og kíkja á hana - jafnvel kaupa hana!

Við hittum Roserio (vinnufélaga / vin Magga) og veit hann að ég er að leita mér að einhverju að gera, hann er með bæklinga sem þarf að vinna fyrir World Bank og var hans hugmynd að auðvitað gæti hann keypt þónustu af íslensku fyrirtæki... við erum að skoða þau mál, fengum mail sem þarf að senda formlega fyrirspurn á, sjáum hvað gerist.... ekki slæmt að hafa World Bank sem viðskiptavin!!!! $$$$$$ Hönnunardeild bankans hefur enganvegin undan og því er keypt þjónusta allsstaðar að, eins og nafnið segir þá er þetta alþjóðlegur banki.... og ætti að skipta við fyrirtæki um allan heim.... sem það og gerir!!

Á leiðinni heim lenti ég í annað sinn á gaur frá Greenpeace, ég hlustaði aðeins á hann, hann var að tala um hlýnun jarðar og allt það vandamál, með mynd af ísbirni á möppunni sinni. Ég ræddi nú aðeins við hann, bæði um mengun og svo hvali, sagði honum reyndar að mér finndist hvalkjötið hinn besti matur og væri alveg til í að borða það oftar... þegar hann vissi að ég væri frá Íslandi fannst honum það „cool", sagði honum hinsvegar að ég skrifaði ekki undir neitt, væri mátulega hrifin af þessu félagi (fyrirtæki??) og ekki alltaf sammála öllu og hefði Paul Watson skemmt heilmikið fyrir þem á sínum tíma.... maður verður nú aðeins að þykjast vita eitthvað :-) Þessi gaukur var nú aðeins meira pirrandi en sá síðasti, maður lætur stundum plata sig í svona spjall en maður lærir á því, veit aðeins hvað er í gangi og svo fær fólk bara að æfa sig aðeins á „rullunni sinni" :-)

Þá var að sýna hörku, setja þvottavélina í gang, hún mallaði meira og minna í allan gærdag því það er slatti sem fer af fötum hér + rúmfötin, það er ekki laust við að maður svitni... stundum sturta tvisvar á dag svo handklæðin fá líka að finna fyrir þessu :-)

Sv0 settist ég niður og kláraði mín mail, sendi próförk hér á Sally í sambandi við fjármálanámskeið og gerði nýja tillögu að öðru plagati, alltaf fínt að taka sér dagsfrí frá svona ef maður getur og byrja svo ferskur.... þetta var allt annað og kom vel út. Nú er bara að sjá hvað fólki finnst. Mér sýnist á öllu hér að menn vilji hafa grunn undir öllu, helst myndir líka og allan texta negativan... ekki alveg minn stíll, svo maður fer einhvern milliveg og tókst bara nokkuð vel. Að sjálfsögðu hélt ég miklum hluta eftir hvítum :-)

Svo reyndi ég að klóra mig aðeins áfram í „resume" (ferilskránni) en það gengur miklu hægar en það ætti að gera, þetta er svo uppskrúfað og mikið af lýsingarorðum og allt mjög ýtarlegt, en samt stutt og mikið um halelúja.... Hér er samkeppni og allir gera sem mest úr sér og sínu.... ég verð bara að setja montsvipinn upp líka þegar ég skrfa og stækka og breikka aðeins allt sem ég hef gert...

Maggi var nokkuð ánægður með sinn dag, hlutirnir eru frekar slow og miklar breytingar svo hann getur ekki klárað sín verkefni, eða verkefnisundirbúninginn. En þetta er allt að koma og vonandi kemst hann í frí eftir næstu viku.
Við (ég) hentum pizzu inní ofn svo hann kæmist í smá rúnt á hjólinu, ég ákvað að fara ekki með því ég held að hann hafi miklu meira gaman af því að tætast áfram á því einn af og til, við förum sennilega í einhverja ferð um helgina, líklegast upp í fjöll og reynum jafnvel að finna okkur gistingu. Ég ætla aðeins að kíkja á þetta og sjá hvað er í boði.

Ég er semsagt alein heim, ekki í fyrsta skipti :-) en mér finnst það líka mjög notarlegt. Það er alltaf þægilegt að setjast og blogga aðeins, maður fer þá aðeins yfir daginn og sér þá hvað maður á eftr að gera. Ég lít líka á þetta blogg sem einskonar dagbók fyrir mig, þarna er þetta þá allt og ég get kíkt á þetta seinna eða vistað þetta einhvernsstaðar í eitt skjal seinna ef ég vil. Það kemur allt í ljós...

Á morgun er fimmtudagur og tek ég litlu íbúðina okkar venjulega í gegn. Frábært að gera þetta reglulega því þá heldur maður þessu hreinu. Við erum alltaf með opinn glugga í eldhúsinu/stofunni, allan sólarhrigninn (flugnanetið er niðri) svo það er hellings skítur og sót sem kemur inn. Ég er oft hissa á því hvað skúringatuskan er skítug.... það er sennilega kominn tími á að fara að þurrka af, það er sko alls ekki mitt uppáhald :-) sem betur fer engar styttur eða dót til að þurrka af, tveir kertastjakar :-)
Svo ætlum við út að borða með Finnboga annað kvöld, Finnbogi byrjaði í bankanum á sama tíma og Maggi (í jan.), er í sjávarútvegsdeildinni og er hér einn ennþá. Fjölskyldan hans (kona og tvö börn) eru komin til landsins en verða á veturströndinni þangað til þau fá húsnæðið í ágúst. Svo er einn vinnufélagi Magga að bjóða okkur að koma með sér út að borða á föstudagskvöldið... brjálað að gera :-)) Við ræddum svo líka við Roserio um að hann og Pam kæmu í mat til okkar í næstu viku, hann var spenntur að fá eitthvað íslenskt.... nú er bara að hugsa og spá í hvað væri ÍSLENSKT af því sem ég elda.... kannski með arabískum áhrifum he, he, he.... hún er grænmetisæta svo það er ekki kjöt, en fiskurinn sleppur, sagði hann.

Jæja þá er ég orðin dofin í rassinm á að sitja hér í myrkrinu úti á svölum, hlusta á endalausar sírenur og þarf að skipta um stellingu. Stólarnir eru ekki nógu mjúkir, ég keypti nú samt nýja stóla hér, plaststóla með háu baki, það voru hér hræðilegir járnstólar fyrir.... en kannski finnum við einhverntíman einhverja góða púða.. þetta sleppur alveg og við lifum þetta af.
Nýja dýnan ætti líka að koma fljótlega, ég hlakka ekkert smá til að fá mjúkt rúm mmmmmmm, hann var nú yndislegur húseigandinn að taka svona vel í þetta, við vorum hissa. Megum reyndar líka kaupa nýja eldhússtóla á hans kostnað.... dregst af leigunni. Það er líka kominn tími á þá, þeir eru vægast sagt ÓNÝTIR. Það er svosem ýmislegt að hér en það er svo margt gott að ég er bara sátt við þetta. En hinsvegar ef þú leigir út húsnæði með húsgögnum, þá verða þau að vera þannig að hægt sé að sitja á þeim :-)

Nú er þetta orðið miklu meira en oooof langt svo ég ætla að segja þetta gott í bili, ég verð að hafa eitthvað segja á morgun líka :-)

Góða nótt (þið eruð sennilega sofnuð....)
Magga

Tuesday, July 21, 2009

Þriðjudagur....

Ótrúlegt að sé kominn þriðjudagur, tíminn líður svo hratt að það er eiginlega ótrúlegt.
Við borðuðum morgunmatinn og hlustuðum á Rás 2, hádegisfréttirnar heima :-) ekki slæmt, nema að þær voru svosem ekkert sérstaklega spennandi!!! En svona er þetta stundum.

Ég ákvað að taka mér algjört frí í hönnun í dag, gaf skít í þetta allt saman.... tók tölvuna mína með mér út á svalir og skoðaði skóla, fann ýmislegt spennandi og hægt að fá allskonar upplýsingar sendar og margt í boði. Það skemmtilegasta var samt að ég fann skóla sem er með allskonar námskeið í málun og fleira, hann er í sömu götu og við búum í, sennilega ekki nema 10-15 mín. að labba þangað og skemmtilegt textílsafn sennilega við hliðina. ég er að spá í að rölta við einvern daginn og skoða málið, ekki ódýr skóli en hámenntaðir kennarar og væri gaman að komast í svona hóp. Það er námskeið þarna allt árið og ég er orðin of sein í júlíhópinn, ætla að skoða hvað verður í boði í haust.

Ég ætlaði að labba við hjá Magga og borða með honum, hann var á námskeiði svo ég skellti mér á veitingastað og fékk mér salatdisk, ekki slæmt. Ég var komin svo langt niðureftir, nánast að Hvíta Húsinu svo ég hélt bara áfram og skoðaði mig um. Í töskunni var ég með efni sem ég þurfti að lesa til að gera Resume, sem er eiginlega ameríska útgáfan af ferilskrá. Ég er búin að hugsa þetta aðeins og notaði tíman á meðan ég gúffaði í mig salatinu og þetta er allt skýrara.

Þegar ég svo snéri við heim á leið var Macy's verslunin í leið minni og ég kíkti þar inn, þetta er mjög fín verslun á 4 hæðum og ég hef keypt mjög góð föt þarna. Eftir smá yfirferð rakst ég á gallabuxur á tilboði, Levi's og mátaði nokkrar... vægast sagt. Fann rosalega fínar buxur og ákvað að kaupa tvennar fyrst þær voru svona ódýrar.... það fyndnasta var samt að ég hef aldrei keypt svona litlar gallabuxur... annað hvort eru númerin svona hrikalega brengluð hér eða labbið og svitinn hefur skilað einbverju???? Það er engin vigt til á heimilinu svo ég get ekki svarað þessu.

Fór svo í Whole Food og keypti lúðu í matinn, hún var virkilega góð og ég var svo pakksödd á eftir að ég lagðist upp í rúm, það síðasta sem ég man var að Maggi spurði mig hvort ég vildi kannski koma smá rúnt á hjólinu.... mitt svar var zzzzzzzzzzz man ekki meir :-) Ég fékk að sofa í klukkutíma og þá er bara að ná að vakna almennilega og fara svo að sofa :-)

Það var yndislegt að labba um í dag, heit sólin og smá vindur og það var rosalega góð tilfinning að vera í léttum kjól og svitna vel....

Á morgun hittum við svo gauk í World Bank sem er að selja linsu á myndavél eins og mína, sjáum hvernig það fer. Var búin að fá ráðleggingar hjá Heiðu mágkonu svo þetta verða allvega góð kaup.

Eigið góðan miðvikudag, ótrúlegt að það sé fljótlega að koma helgi aftur.... hvar endar þetta :-)

Magga

Monday, July 20, 2009

ZOO eða bara zzzzz

Í gær var nokkuð rólegur sunnudagur, það er oft gott að byrja daginn rólega og slaaaaaka bara vel á. Það voru heilmiklar pælingar hvert ætti að fara, internetið var notað ásamt kortunum sem við eigum (orðin nokkuð mörg) og ýmsir spennandi staðir í boði. Google earth er snilld, við fikruðum okkur eftir ánni og skoðuðum hvar væri líklegt að við gætum hent okkur á teppi. Eftir langa umhugsun og að hafa horft nokkrum sinnum upp til himins og séð skýjum fjölga hratt.... ákváðum við að gera þetta bara einfalt og fara í dýragarðinn hér í DC. Það tók okkur ekki nema 10 mín. að fara á hjólinu, hefði kannski verið gáfulegra að labba bara í rólegheitunum.

Þvílík vonbrigði með þennan dýragarð, ég hef nú ekki heimsótt þá marga en Maggi hefur farið í fleiri og vorum við sammála um að þessi væri dapur. Húsdýragarðurinn heima er bara miklu eðlilegri og aðgengilegri að öllu leiti. Það sem þeir gera vel er innanhúss, þar eru settar upp skemmtilegar sýningar og mjög skemmtileg uppsetning, bæði fræðandi og áhugaverðar.

Svo eru allskonar hús með allskonar (smá)dýrum, í vatni og á þurru.... en þau voru sennilega öll í sumarfríi. Þau sem voru á svæðinu voru feimin eða löt og voru ekkert að sýna sig.

Það var það sama utanhúss, sáum sebrahest þegar við komum inn, jú fíll og flóðhestur að drepast úr leti og nánast í kafi... önnur dýr voru bara annað hvort dauð eða í helgarfríi....

Neeeeema þessi otur (vonandi rétt hjá mér - Beaver á ensku) var kostulegur, þetta var eins og besta bíómynd og bjargaði alveg deginum, hann var að koma úr baði og var að klóra sér og þrífa með tilþrifum... því miður er þetta ekki video, en stellingin er góð... notið bara ímyndunaraflið!!!

Það sem við sáum mest af í þessum blessaða dýragarði... var fóóólk, þvílíkur fjöldi og hægagangur og troðningur.... Það besta var að Maggi gleymdi peningaveskinu sínu og ég var bara með nokkra dollara í myndavélatöskunni, maður er alltaf að spara farangurin :-) og við orðin mjög þyrst. Hinsvegar var ekkert merkilegt þarna til að bjarga okkur, t.d. gott kaffihús, ó nei, nóg af gosi, snakki, ís og svoleiðis... við erum kannski orðin of gömul fyrir þetta!

Við vorm svoooo gjörsamlega búin eftir þessa ferð, ekki nóg með troðninginn, heldur var svæðið ekki nógu vel merkt og margir göngustígar lokaðir og því endalausir krókar... Ég ætla nú ekki að vera neikvæð gagnvart þessum dýragarði, eeeeeeeen það mætti gera mikið í viðbót, say no more...

Við vorum því fegin þegar við komumst út aftur eftir ca 2-3 tíma, settumst niður á pub nálægt og fengum okkur bjór og hvíldum þreytta fætur....

Til að bæta upp „ekki nógu góðan" dag, fórum við út að borða á Tyrkneskum stað hér á 18. stræti, frábær matur, litlir réttir og tyrkneskt kaffi í restina. Sáum svo yfirbyggðan pub hinu megin við götuna, uppi á þaki. Þarna sáum við aðeins yfir nágrennið og mjög skemmtileg stemmning, við förum örugglega þangað aftur.

Það góða við gærdaginn var hinsvegar að litla frænka, dóttir Dadda bróður og Heiðu, var skírð í Dalvíkurkirju. Hún heitir Erla María, mjög fallegt og glaðlegt nafn. Til hamingju öll.

Í dag var svo ekki endilega minn dagur, sumir dagar eru bara svona. Talaði að vísu við pabba og mömmu á Skype í tæpan klukkutíma og rölti svo í World Bank og fór á tvo fundi v/hönnunar. Og af því að þetta var ekki einn af „mínum" dögum þá var ég barasta ekki í neinu stuði og fannst þetta bara hundleiðinlegt.... fólkið þarna er mjög misjafnt, upplýsingarnar sem ég fékk í byrjun voru laaaaaangt frá því að vera góðar, hvað þá réttar.... hmmmmmmmmm ég var eiginlega hundfúl. Nú þarf ég að byrja uppá nýtt á hluta af þessum verkefnum og anda djúúúúpt.... anda inn, anda út...... ég ætla ekki einu sinni að líta meira á þetta í dag.... Ég ætla að fara í þetta fersk á morgun og taka þetta á jákvæðu nótunum... svo miklu skemmtilegra :-)

Nú ætla ég að gera eitthvað smá handa okkur í kvöldmat, sömdum um að það yrði einhver matur um ca 8. Er ekki ennþá búin að ákveða hvað það verður. það er til cous-cous, hrísgrjón, kræklingur í spænskri sósu mmmm, túnfiskur, örugglega líka ein dós af kolkrabba, svo keypti ég baguette á leiðinni heim... Nú er bara að nota ímyndunaraflið.. kryddið og listræna hæfileika til að gera eitthvað úr enhverju af þessu....

Það eru oft skemmtilegir matartímar hjá okkur, setjumst út á svalir með einhverja einfalda smárétti og fílum þetta í tætlur... hér hefur ekki verið eldað neitt stórkostlegt hingað til, höfum þetta einfalt... nema jú hef eldað nautasneið og skelfisk :-) jú pasta og eitthvað fleira....

Meira síðar
Magga

Saturday, July 18, 2009

Laugardagur - góður dagur

Í gær ætlaði ég að skrifa en við ákváðum að skella okkur í IKEA fyrir lokun og finna smádót sem vantaði hér. Við náðum á réttum tíma... en þvílík vonbrigði. Nánast öll smávörudeildin var lokuð, það voru einhverjir örfáir hlutir á stangli og ferlega hallærislegt allt. Við gátum keypt eitthvað smá og vorum hundfúl, það voru engar útskýringar á því af hverju þetta væri svona, ég talaði við einn starfsmann og ekki möguleiki að komast í eitthvað annað, engar skálar á svæðinu og fleira sem okkur vantaði. En svona er þetta risaveldi... getur bara hagað sér eins og það vill!!!
Við rúlluðum svo til Veaton og þar keypti Maggi sér flotta skó fyrir vinnuna, hann er búinn að leita út um allt og kaupa eina sem særa hann svo að það er ekki möguleiki að nota þá, en hann var heppinn.
Enduðum svo í Silver Spring, sem er er úthverfi frá DC og fengum okkur að borða á Írskum pub, vorum orðin glorhungruð. Það voru saddir og þreyttir ferðalangar sem fóru að sofa snemma í gær.

Í dag ákváðum við að sofa út, varð nú ekki mjög lengi því það var fugl gargandi hér í trénu við herbergisgluggann og ég vaknaði alltof snemma, Maggi var sprækur líka og við hentum okkur á fætur. Svo skiptum við liði, Maggi fór á hjólinu í Trader Joe's, með bakpoka og töskuna á hjólinu.... verslaði það þunga sem vantaði, úff það er ótrúlegt hvað hann kemst með á hjólinu góða. Ég fór hinsvegar í Riad Aid og keypti stóru hlutina, eins og klósettpappír og annað sem verra er að flytja á hjólinu, sturtuhaus í baðkarið okkar og fleira. Nokkuð góð afköst hjá okkur.

Við biðum alltaf eftir að færi að rigna, spáin var þannig, smá vindur, hitinn +30, en ekkert varð úr (rigningar)veðrinu. Því ákváðum við að fara í smá picnic... skelltum nýja teppinu okkar (úr IKEA) í mótorhjólatöskuna, smá nesti og fórum af stað í stuttbuxum og bol. Yndislegt að sitja á hjólinu með sólina á öxlunum. Við fundum okkur bílastæði við Arlington kirkjugarðinn (mjög frægur kirkjugarður, stíðsgrafir) og röltum að Potomac River (áin sem skiptir Virginu og Washington), settumst í grasið og horfðum á fólkið leika sér á bátum, sjósleðum og þeir hörðustu hentu sér í vatnið. Sólin var eitthvað feimin og faldi sig á bakvið skýin, en þetta var frábært og við slökuðum vel á. Það er göngustígur þarna í gegnum útivistarsvæði, eiginlega frekar hraðbraut hjólamannsins... maður var heppinn að vera ekki hjólaður niður af einhverjum ofurtöffurum á sínum ofurhjólum á þvílíkri ferð... En við lifðum þetta af og komumst heim - í sólinni :-)
Nú er ég búin að malla saman grænmeti í ofn og setja haug af pipar á nautakjötssneið sem við borðum á eftir. Ég er líka búin að setja nokkur kerti á disk (þarf að finna betri lausn) í arininn okkar, svo það verður bara cosy hjá okkur, við gátum semsagt keypt kerti í IKEA :-) Það er ótrúlegt hér í verslunum í DC, það virðast ÖLL kerti vera með ilmi, það getur orðið „too much" af því góða, sérstaklega ef maður er með mörg stykki - hóst, hóst... fann loksins „venjuleg" kerti í IKEA. Það sem er líka frábært hér, er að geta setið hér úti með kveikt á kerti, dimmt og nice + hlýtt. Heima er maður vanur: myrkur = kuldi....
Maggi fór á hjólinu áðan að finna peru í stefniljósið og taka smá rúnt EINN, það er nú meira spennandi og auðveldara að ráða við hjólið þannig (segir hann) en með mig aftaná (eins og ég er nú nett!!!). Enda er þetta hans hjól og áhugamál svo hann verður að fá að fara einn og fíla þetta í botn. Enda þurfum við heldur ekki að hanga saman hér allan daginn... fáum bara nóg hvort af öðru...

Ætlunin er að kíkja á lítinn vínbar í kvöld, sem er nánast í næstu götu við okkur, fá okkur gott vínglas og rölta aðeins um... kemur svo bara í ljós hvort er eitthvað um að vera??

Nótið sunnudagsins
Magga

Thursday, July 16, 2009

Góóóður hiti...

jahérnahér, ég sit hér og hugsa, hreyfi á mér puttana og hreinlega svitna bara... hitinn fór í 37 gráður í dag og þokkalegt grill á labbinu. Rakinn er núna kominn yfir 60% en hitinn lækkað í, bíddu ég kíki á mælinn... 32 gráður.
Það er svo fallegt kvöld, bleik birta en ég sé því miður ekki sólsetrið... húsin verða ennþá rauðari en þau eru venjulega, yndislegt.

Í dag kláraði ég mín verkefni og sendi annarsvegar í prentun á Íslandi og hinsvegar próförk í World Bank, flott að klára þetta. Þá var ryksugan tekin fram og eins og venulega framleiðir hún meiri hávaða en gagn... allt orðið hreint og glansandi. Fimmtudagar eru hreingernngardagar, skipt um á rúminu og því frí um helgar. Þetta er í fyrsta (og líklega síðasta skipti) sem mér er borgað fyrir að vera húsmóðir... þvílíkur lúxus...
Settist svo á svalirnar góðu með dagblaðið góða „The Dupont Current" og ákvað að sjá hvað væri í fréttum... á forsíðunnu stóð „Real World on S street", þegar ég las meira þá er verið að tala um Real World, raunveruleikaþátt á MTV... þeir (þau?) eru víst fluttir inn í S street nr. 2000, sem er ca 300 metra frá okkur. Það hefur víst mikið gengið á í kringum þetta hús, fullt af fólki sem slæst fyrir utan húsið og er með hávaða og læti... í þeirri von að komast í mynd :-) það sem fólki dettur ekki í hug. Löggan hefur margsinnis verið kölluð á svæðið og fylgist í framhaldinu með húsinu... gaman, gaman. Það er semsagt alltaf fjör hér í DC. Nágrannar eru víst ekki par ánægðir með þetta og ýmsar kvartanir í gangi. Ég heyri nú reglulega í sírenum og látum en hef nú ekki tengt þetta við þessa götu... maður fer kannski bara og kíkir á þetta :-) Ég labba þarna framhjá nánast daglega og hef aldrei tekið eftir neinu, vissi að sjálfsögðu ekki um þetta, ekki frekar en að hafa hugmynd um hvaða... eða hverskonar þáttur þetta er.

Ég fór á labbið í dag, yndislegt að leggja stundum af stað án þess að vita hvert maður er að fara, bara beygja hægri, vinstri eða hægri eða.... svo endar maður einhvernsstaðar, fær sér kaffi, horfir á fólkið og heldur áfram, þvílíkt sældarlíf. Ég hugsa líka heilmikið á röltinu, horfi vel í kringum mig og safna í (hugmynda)sarpinn...

Í dag álpaðist ég inn í fataverslun, ekki verslun sem ég færi inní venjulega... ég var bara í þannig stuði, mjög einföld verslun, frekar dýr föt og klassadæmi! Ég fór að spjalla við afgreiðslukonuna, hún spurði hvaðan ég væri og hafði komið til Íslands, var alveg í skýjunum yfir landinu... í framhaldinu fór ég að segja henni að mig vantaði kjól, eiginlega fínan, auðvitað líka hversdags... hún labbaði beint að einum og sýndi mér „hann væri svo flottur við hárið á þér"... ég ákvað að prófa hann, fannst hann flottur á herðatrénu... en hann var hriiiikalega flottur á mér, eins og hann hefði verið sniðinn á mig. Verið stóð aðeins í mér, ég bara eiginlega kúgaðist og gat ekki kyngt... spjallaði aðeins lengur og sagði henni svo að ég ætlaði að labba aðeins og hugsa málið....

Þegar Maggi kom svo heim í kvöld og ég lýsti kjólnum.... og verðinu, þá kom minn maður á óvart... „af hverju varstu að hika, kauptu kjólinn, hann gæti verið farinn á morgun... af hverju ertu að hika...". Ég hlýt að vera heppin kona... einhver hefði nú fussað og kæft þetta. Ég verð semsagt fyrsti kúnnnn á morgun og kaupi kjólinn, hann er óóógeeeeeðslega flottur (og auðvitað ég í honum líka :-)

Þegar ég settist á kaffihús í dag og sötraði kaffibollann minn, blasti við mér skóbúð... þeir sem þekkja mig þokkalega vita að ég er píííínu veik fyrir skóm... Ekki skemmdi fyrir að það var skilti fyrir utan sem á stóð 70% afsláttur. Ég kláraði kaffið og skellti mér yfir götuna. Ég fékk frábæra þjónustu, sagði henni nákvæmlega hvað mig vantaði... fína svarta skó við kjól (sem ég ætla að kaupa), opna í tánna, ekki of hár hæll o. s. frv. Hún dúllaði í kringum mig og annað hvort voru skórnir of þröngir (sem er algengt hér) eða úr hörðu leðri (sem ég kaupi alls ekki) eða ljótir! Það komu sem betur fer fleiri kúnnar inn svo ég fór að skoða sjálf, fór í útsöluhornið og mátaði allt sem mér datt í hug... ég fann tvenna yyyyyndislega skó, aðra svarta opna í tánna, með HÁUM hælum og mjúkum botni og úr mjúku leðri mmmmmm og hina líka háa, með striga (kaðal) hæl og böndum og perlum yfr ristina, mjög lady legir og þægilegir. Þessi hælaskór eru þeir bestu sem ég hef átt.... og hlægilegt verð, bæði pörin helmingi ódýrari en skórnir sem hún sýndi mér í byrjun, trallallallalla.

Á leiðinni heim ákvað ég að labba á „striga" skónum, yndislegir :-)
Áfram hélt ég að svitna og settist út á svalir þegar ég kom heim með haug af vatni í flösku og heitt vatn í bala + olíu og sítrónusafa.... ég skellti mér nefnilega í fótabað :-) Síðan ég fékk öll bitin á vinstri fótinn þá hefur húðin nánast þornað upp og flagnað af, bara á vinstri fætinum... stór undarlegt.

Núna er ég búin að henda mér í góða sturtu, sit hér í myrkrinu með endurspeglið af tölvuskjánum, hvítvínsglas og nýt þess að skrifa, hef komist að því að ég elska að skrifa.... hef reyndar verið þekkt fyrir það lengi að skrifa löng bréf eða mail!

Magga var boðið í einhvern „tengslaneta" klúbb, kynning í kvöld og hann ákvað að kíkja á þetta, veit meira þegar hann kemur heim...

Hafið það öll gott og njótið næturinnar... þið eruð sennilega flest sofnuð þegar ég skrifa þetta því ég er 4 klst. á eftir ykur á Íslandi.

Magga

Rigningardagur?

Seinnipartinn í dag er spáð rigningu og þrumuveðri, það hefur ekki rignt hér í rúma viku svo það er komin tími á smá dembu... það eru engar smá þrumur sem fylgja því og gaman að sitja á yfirbyggðum svölunum og horfa. Veðrið lítur mjög vel út núna, en fljótt að breytast og eins gott að hafa regnhlífina í töskunni...

Rakinn verður svakalegur í rigningum, mælist ekki á hitamælinum góða, hann segir einfaldlega „high". Í morgunn var rakinn 70% og svitnar maður þokkalega, hefur lækkað og allt að verða fínt.
Þrumurnar dundu hér yfir eina nóttina og var það eins og að vera í sprengjuárás, ég hef sjaldan heyrt eins mikinn hávaða. Það er eins gott að vera ekki smeykur við svona veður, þá yrði maður þokkaleg taugahrúga hér :-)

Ég hef verið að vinna í verkefnunum fyrir World Bank Family Network, leit vel út í byrjun en hundleiðinleg verkefni. Alltaf sama sagan þegar of margir eru farnir að skipta sér af, ekki allar upplýsingar í upphafi og svo verður þetta BARA ljótt á endanum. En ég ætla að klára þetta og fara svo yfir listan sem ég fékk hjá HR deildinni um volunteer störf, ætla ekki að eyða mínum tíma í það sem ég hef gert í alltof mörg ár og er greinilega búin að fá ógeð á.

Ég settist niður í gær með hugmyndabókina mína og penna, skirfaði niður það sem ég væri góð í og hvað mig langaði að gera.... þetta er í framhaldi af bókinni sem ég er enn að lesa (en hef ekki gefið mér nógu mikinn tíma í). Það eru áhugaverð atriði sem fara á blað hjá manni og svo er bara að halda áfram að hugsa og finna út hvað ég ÆTLA að gera þegar ég verð stór :-)

Í haust er námskeið í World Bank á vegum fjölskyldunetsins, þar er boðið uppá e.k. Coach, farið í það sem ég er að gera og ætla að klára, finna út mitt „Element". Það er fólk í hópnum sem hefur farið á þetta námskeið og mælir hiklaust með því.

Nú svo er að skoða betur enskuskólann sem WB benti mér á, ég vil bæta við það sem ég hef, víkka orðaforðann og bara reyna að fá sem mest út úr þessu. Vil samt ekki að þetta stangist á við sumarfríið okkar. Maður tekur e.k. stöðupróf og svo settur í hóp sem hentar... mikil hópvinna og örugglega skemmtilegt, lítur allavega vel út á heimasíðunni þeirra.
Það eru semsagt spennandi tímar framundan og fínt að nota tíman í að hugsa og finna „leiðina", enda ætlaði ég líka að nota sumarið í þetta.

Meira síðar - hafið það gott
Magga

Wednesday, July 15, 2009

Þreyttir fætur...

Ef ég hef einhverntíman verið fegin að setjast niður, þá er það núna. Ég ákvað að taka langan göngutúr í dag, sem varð miklu lengri en áætlað var. Allt í allt rúmir 4 tímar...

Dagurinn byrjaði rólega í, þvottur, smá vinna og lestur á svölunum góðu. Lagði svo af stað í 33 gráðu hita, skipti um skoun með gönguleið og var heppin þar. Ég var að hugsa um að byrja á menningarrúntinum, fara á söfn niður við Capitol. Ákvað svo að geyma það aðeins, sem var ágætt því mér skilst að þar hafi verið skotárás og einn „daujur" (eins og einhver góður sagði) eftir eftirför löggunnar. Ég fór í hina áttina og labbaði um Adams Morgan svæðið, fór langt út fyrir kortið góða sem ég var með og varð ferðin því mun lengri.... þegar ég svo nálgaðist S street ákvað ég að ekki munaði um 40 mínútur til eða frá, skellti mér í Whole Food og verslaði það sem vantaði. henti dótinu svo inní forstofu og fór í hina áttina til að kaupa vatnið góða. Það er fínt að kaupa 12 lítra í einu, ég held balance með tvær þriggja lítra flöskur í hvorri hendi :-) Þetta er vikuskammturinn okkar, fyrir utan allt hitt sem við drekkum!! Eins gott að fara í búðina sem er næst okkur í svona leiðangur.

Á leiðinni sá maður mjög mismunandi hús, götur og fólk. Þarna fyrir ofan lendir maður í „kolsvörtu" hverfi, þá meina ég fólkið. Washington er kölluð „svartasta" borg Ameríku því 80-90% borgarbúa eru svartir. Aðstæður fólks hér í borginni eru vægast sagt mismunandi. Algengt að sjá fólk liggjandi á götunum, margir illa farnir, hlandlyktin svakaleg stundum og fólk með sínar innkaupakerrur og/eða poka. Mikið verið að betla og framkoma þess fólks mjög mismunandi. Það er hrikalegt hvernig er farið með þá fátæku, þeir eiga sér enga von, engar bætur, enginn möguleiki að komast áfram í lífinu.
Maggi hitti einn hámenntaðan um daginn sem missti leyfið sitt vegna brasks í sambandi við fíkniefni (fjármagnaði) hann var að safna saman 35 dollurum til að geta byrjað í rafvirkjanámi til að byrja nýtt líf. Hann hafði þá möguleika á að vera inni í athvarfi á meðan á náminu stæði og því öruggur í einhvern tíma. Það eru ekki allir svona heppnir, ég mætti einum í dag sem var illa farinn og bað mig um pening, ég gef ekki öllum því maður færi á hausinn við það. Í gær kom einn til mín og bað um 40 cent, ég tók upp veskið og ætlaði að taka upp 2 dollara, það læddist einn 5 dollara seðill með uppúr, sá var fljótur og ætlaði að taka þetta nánast upp úr veskinu... ó nei, það þarf nú ekki að vera með yfirgang og frekju, en hann fékk 5 dollarana. Hann var mjög þakklátur en svo veit maður ekkert í hvað þetta fer. Maður skilur heldur enganvegin hvernig líf þessa fólks er.
Í garði sem er beint á móti aðalbyggingu WorldBank er hópur útigangsmanna, hrikalegar andstæður þarna, glerhöllin annarsvegar + framapot og milljarðarnir.... og eymd og fátækt hinsvegar og engin framtíð. Ég labbaði þarna framhjá um daginn í rigningu, þá lá fólkið undir sínum plastpokum, ekki mönnum bjóðandi... hvað ætlar Obama að gera í þessu????

Við sáum skondið (kosninga)skilti í afturrúðu á bíl um daginn, á því stóð NObama :-) greinilega ekki allir sáttir við hann..

Mikið hrikalega er svo gott að setjast hér út á svalir með tölvuna góðu, hlýr vindur, engin sól og 30 gráður... yndislegt. Ég hef það ca milljón sinnum betra en aumingja útigangsfólkið og get verið þakklát fyrir það - eins gott að maður kunni að meta það.
Maggi fór með vinnufélögum á veitingastað eftir vinnu og vissi ekki hvað þau myndu endast lengi svo ég er ein í kotinu og ætla að slaka vel á, fara í góða sturtu og lesa góða bók, fæ mér kannski gott hvítvínsglas með og nýt þess í tætlur.

Hafið það gott öll, meira seinna
Magga

Tuesday, July 14, 2009

Fallegur dagur framundan

Þá er kominn þriðjudagur og hitinn er 22 gráður núna kl. 7, ekki mikið en hlýnar örugglega. Fint að sitja hér úti á svölum með kaffibollann og tölvuna í skugga. Sólin gæigist hingað inn eftir ca hálftíma og hitinn hækkar fljólega, skv. netinu eru 18 gráður og á að fara í 30, sem þýðir 30+.
Dagurinn í gær var nokkuð rólegur, 35 stiga hiti, nokkrar þvottavélar, Whole Food að versla í matinn, svo gerði ég eggaldin-dip sem var mjög gott og auðvitað ýmislegt fleira og borðuðum hér úti á svölum. Það tekur rúma 2 tíma að fara í búðina, 20 mín að labba hvora leið og svo er þetta þannig verslun að maður verður ruglaður... úrvalið er ótrúlegt og ég er enn að læra á hana. Það tekur langan tíma að finna vörurnar.

Maggi talaði við húseigandan í gær og sagði honum frá bakinu á mér, ég fór nefnilega inní stofu síðustu nótt og svaf síðustu tímana í sófanum, var algjörlega búin á þessu fína rúmi. Spurningin var hvað hann væri tilbúin að gera, taka þátt í kostnaði við nýja dýnu eða jafnvel góða yfirdýnu. Karlinn kom á óvart, sagði að dýnan væri 8-9 ára gömul og tími til kominn að skipta henni út... frábært. Við kíktum til hans í gærkvöldi og prófuðum dýnu sem þau eru með í gestaherbergi og fínasta dýna, það kemur ný dýna fljótlega og ég á eftir að sofa svooooo vel.
Þegar ég sá íbúðina hjá þeim, sem er mjög skemmtilega og mikið uppgerð, á 2 1/2 hæð, þá skildi ég líka af hverju hann var svona viljugur að skipta. Þau eru sennilega með samviskubit yfir íbúðinni uppi og vita uppá sig sökina, það mætti nefnilega gera helling í viðbót hér og íbúðin er sko í allt öðrum klassa en þeirra, say no more!

Við eigum eftir að dúllast eitthvað við þessa ibúð, það tekur allt tíma og við höfum hann (allavega ég). Mér skilst líka að hann eigi auka eldhússtóla, þessir hér eru gamlir klappstólar sem er búið að setja áklæði yfir til að fela hvað þeir eru ljótir og vondir :-) ekki hægt að sitja í þeim nema með púða. En ekki meira kvart, staðsetningin er frábær og svalirnar yndislegar, það er ekki sjálfgefið að hafa svona lúxus.

Dagurin í dag verður skemmtilegur, ég fer í World Bank á eftir, hitti þar Anne „President" hjá WBFN (World Bank Family Network) og förum við yfir verkefnin sem ég ætla að vinna fyrir þau. Hún er frönsk og mjög lífleg, framburðurinn hryllilegur en það stoppar hana ekki, hún talar út í eitt! Við þurfum að finna góða fyrirsögn á plagat fyrir fjármálanámskeið sem boðið verður uppá fyrir starfsfólk World Bank og maka, þetta á eftir að hanga út um allan banka, sem eru nú ansi mörg stk. Svo er það plagat, mjög stórt sem verður líka víða, það er árleg Picnicferð fyrir starfsfólk og fjölskyldur og langar mig virkilega að gera eitthvað flott, því það sem hefur verið gert síðustu ár er hriiiikalega ósmekklegt. Bæði þessi plagöt fara líka í blað sem gefð er út í bankanum... Nú er bara að standa sig, þá kemur kannski eitthvað fleira, sem ég gæti kannski fengið borgað fyrir :-) Það er orðsporið sem gildir...

Nú ætla ég að fá mér morgunmat, skella mér í sturtu og byrja aðeins að hugsa þessi verkefni áður en ég mæti á þennan fund... tekur mig 20 mín. að labba þangað svo þetta er fínasta upphitun. Þetta er reyndar vegalengdin sem Maggi labbar daglega. Það er eiginlega frábært að vera ekki með bíl, maður hreyfir sig helling, oft einhverja klukkutíma á dag, alltaf hægt að hoppa uppí lest ef þarf að fara lengra og svo mótorhjólið ef vegalengdin er enn lengri.... en þá þarf ég víst bílstjóra!!!

Hafið það gott í dag, setti inn eina mynd úr „garðinum okkar" sem samanstenfur af fjórum blómum og tveimur kryddplöntum!!!! Auðvelt og fljótlegt að vökva hann :-)

Monday, July 13, 2009

Strandferð...


Við vorum búin að ákveða að fara niður að sjó um helgina,
liggja í sólinni og slaka vel á. Það leit nú ekki vel út þegar við vöknuðum á laugardagsmorguninn, ekki mikil sól, ekki mjög heitt og frekar mikill vindur. Spurningar vöknuðu um hvort við ættum frekar að nota daginn í reddingar, IKEA og fleira. En hörkutólin pökkuðu niður lögðu í'ann um hádegi.
Stefnan var tekin á Ocean City, ætluðum að sjá til hvort við fengum gistingu þar og taka svo strandrúnt á sunnudeginum á leiðinni heim.
Við keyrðum í annað sinn yfir Bay Bridge sem liggur yfir Chesapeake Bay, hrikalegt mannvirki og vorum við farin að kvíða fyrir því að keyra yfir hana í þessum vindi... við komumst yfir og ekki eins hvasst og við bjuggumst við.

Við vorum búin að ákveða leiðina til Ocean City, en einhvernvegin tókst okkur að fara lengri leið, vegamerkingarnar eru oft skemmtilegar og auðvelt að villast ef maður er ekki með áttir og númer á hreinu! Vegirnir skipta um númer mjög reglulega og allskonar merkingar sem rugla mann auðveldlega. Á mótorhjóli er heldur ekki alltaf auðvelt að vera með stór kort á ferð!

En á leiðarenda komumst við, það var ekki mjög heitt á Ocean City, haugur af fólki og allir frekar fáklæddir, við mættum í gallabuxum og okkar mótorhjólajökkum og leið bara nokkuð vel. Við rötum hinsvegar niður á strönd og komum okkur í stuttbuxur og gáfum jökkunum frí, entumst að vísu ekki lengi en náðum samt að dýfa tánum aðeins í Atlantshafið, ekki nógu heitur sjór til að henda sér útí... en það var fullt af hörkutólum að synda og á brettum enda nógar öldur.
Eftir smá leit fundum við gistingu, það eru mjög dýrar gistingar sem við sáum í litlum húsum hér og þar, enduðum á Holiday Inn því við ákváðum að vera ekki að spara einhverja nokkrar dollara þar. Fengum herbergi (eiginlega litla íbúð) á fínu verði, svalir, kaffivél og allt sem til þurfti plús það að svalirnar lágu út að sjó og frábært útsýni. Það voru ekki nema örfáir metrar niður á strönd. Úti í garði var sundlaug og sólstólar svo tilhugsunin um að liggja í sólinni morguninn eftir var yndisleg.
Kvöldið notuðum við í að rölta um svæðið, ég fór í kjól, já takið eftir... í kjól! En eftir ca 10 metra frá hótelinu ákvað ég að snúa við og fara í gallabuxurnar góðu, þvílíkur hrollur grrrrr ekki nema ca 25 gráður og vindur, maður er bara svo góðu vanur.
Við röltum inná stað þar sem var lifandi tónlist, verið að spila gömul Rolling Stones lög og fleira sem við fíluðum ágætlega. Spurðum löggu á röltinu hvar við fengjum góðan mat, fínan veitingastað. Hann var ekki í vandræðum að benda á hann, við uppí strætó og fundum staðinn, þegar við komum þangað var kl. 21:58... staðurinn lokaði kl. 22:00, við misstum semsagt af þessu. Þá þýðir ekkert að gefast upp heldur halda leitinn áfram, flestir staðirnir að loka svo við enduðum á pizzusneið við göngustíginn sem liggur meðfram allri ströndinni, framan við verslanir og hótel, ekki slæmt en ekki það sem við ætluðum okkur.
Loksins komst ég svo í gott rúm, rúmið hér „heima" er frekar hart og bakið á mér mótmælir stöðugt. Ég svaf því vel og leið hrikalega vel.

Vekjaraklukkan hringdi kl. 8 á sunnudagsmorgni, einhver sniðugur verið á undan okkur í þessu herbergi, ég var að vísu búin að hlusta á kana á næstu svölum spjalla, hrikalega háværir oft og þegar svalarhurðin er hálf opin þá er enginn svefnfriður. Rifum okkur á fætur, hituðum kaffi og settumst út á svalir í sólina.


Það var svo yndislegt að leggjast á sólbekk við sundlaugina og grilla sig aðeins, áttum að tæma herbergið kl. 11 svo við náðum fínni slökun. Fengum okkur svo flottan morgunmat, sem átti að endast okkur fram á kvöld og komum okkur af stað í norður.
Við vorum á stuttbuxum, en sem betur fer í jökkunum góðu, því við erum þokkalega brunnin á kálfunum, maður finnur ekkert fyrir hitanum á góðri ferð.

Á leið okkar til Rehoboth Beach, stoppuðum við á lítilli strönd (strandbæ) og fengum okkur smá rölt, glaðningur var á hjólinu þegar við komum til baka - sektarmiði uppá $25, gaman - gaman. Við lifum það vonandi af!

Eins sést á mydinn fyrir ofan er ekki alltaf auðvelt að finna bílastæði...

Á Rehoboth Beach röltum við meðfram ströndinn og höfðum það nice, steiktumst á öxlunum því sólin kemur ofanfrá og er helv.. lúmsk.
Eftir góðan dag lögðum við af stað heim, það er ca 3 klst. akstur til baka og gekk það ágætlega, tókum að vísu vitlausan veg og fórum aðeins aðra leið en við ætluðum okkur. Það var að vísu mjög skemmtileg leið, litlir bæir og landbúnaður út um allt og frábært að sitja aftaná hjólinu og horfa á liti og form, finna ilminn og vera algjörlega í eigin hugarheimi. Maður fær allskonar hugmyndir, getur hugsað og pælt í hlutunum fram og til baka. Ég lenti að vísu í því að detta algjörlega út á eihverjum tímapunkti, var djúpt hugsi og rankaði ekki við mér fyrr en Maggi brunaði framúr bílalest á ca 120 km hraða, úff...

Við vorum búin að ákveða að stoppa á Big Owl bar sem er við Prospect Bay (Chesapeak Bay), áður en farið er yfir Bay Bridge. Þar fengum við okkur krækling og hamborgara, gott hvítvín og horfðum á sólina setjast. Ekki slæmt það.

Aksturin heim gekk vel, tók ekki nema ca halftíma að komast til DC og gott að setjast á svalirnar og fá sér eitt hvítvínsglas fyrir svefninn. Ég var með dúndrandi hellur í eyrunum eftir ferðina, sit beint fyrir ofan pústið á hjólin og þegar driverinn fer uppí 120-140 km hraða þá hvín ansi vel í hjólinu....

Við eigum örugglega eftir að fara svona ferðir aftur. Maggi tekur sennilega 2 vikur í frí í ágúst og svo aftur í sept/okt, þá gerum við eitthvað skemmtilegt

Meira síðar...


Friday, July 10, 2009

Nýja heimilið

Það er búið að taka mig rúmar þrjár vikur að koma þessari síðu á koppinn, hún átti að fara í loftið um leið og ég flutti út, 13. júní 09. Ekki stóðst það en betra er seint en alls ekki. Hugmyndin er að setja inn nokkrar línur daglega, samt best að lofa ekki uppí ermarnar, sem eru reyndar engar því hitinn hentar betur fyrir ermalaust, þar var ég heppin. Sjáum svo til hvað ég verð dugleg að setja inn myndir og eitthvað um það sem við erum að bralla hér.

Fyrsta vikan fór í að koma mér fyrir, Maggi er búinn að vera hér frá því í janúar svo hann var búinn að fylla alla skápa og skúffur. En skipulagshæfileikarnir komu sér vel og það er nóg pláss hjá okkur ennþá! Ég skildi eftir megnið af fötunum mínum heima, aðallega hjá Rauða krossinum og þurfti því að endurnýja birgðirnar. Það hefur tekið tíma og orku, en þetta kemur allt. Einnig þurfti ég að læra á heimilistækin, allar stillingar t.d. á þvottavélinni í Fharenheit, þá eru hitatölur einnig á þeim skala en hinsvegar slæddist hitamælir að heima með ofaní tösku svo ég hef samanburð.
Það tók líka tíma að finna verslanir með mat, Maggi var að sjálfsögðu búinn að finna nokkrar en heldur langt í þær allar. Nú er búið að þrengja hringinn aðeins og styttra í búð með vatni og nauðsynavörum, en lengra ef maður vill einhvern lúxus. Fann í dag almennilegt bakarí, það er í 5 mín. fjarlægð frá okkur. Bara svo það sé nú á hreinu að þegar ég tala um vegalengdir, þá er ég að tala um þann tíma sem tekur mann að ferðast á tveimur jafnfljótum... engin bíll á heimilinu og frúin ekki með próf á mótorhjólið góða...
Fyrstu vikuna var ég bitin svo hrikalega að vinstri fóturinn var stokkbólginn upp fyrir ökla, ég fór í leiðangur á netinu og fann út hvaða efni það voru sem vantaði, svo þið vitið það líka þá er það B-1 og efni sem heitir DEET (ekki minna en 30%) og er oftast í sprayformi eða þá í pennum. Við erum búin með tvö spray og pöntuðum af Amazon 5 penna takk, það veitir ekki af að hafa „vopnin" í öllum töskum gegn þessum skaðræðiskvikindum. En ég er að mestu búin að sigra stríðið við skepnurnar og bólgan farin af fætinum eftir heilar tvær vikur.

Í framhaldinu erum við svo búin að koma mótorhjólinu á götuna, kaupa hjálma, jakka með hlífum og síðast í gær tösku aftaná hjólið svo hægt sé að fara í meira en dagsferðir.

Það er þvílíkt frelsi að hafa hjólið, ég er farþegi og nýt ilmsins ú umhverfinu (mis góður að sjálfsögðu), útsýnisins og hræðslunnar... stundum, því þetta er í fyrsta skipti sem ég ferðast um á svona tæki - en er frábært.
Við höfum farið í dagsferðir uppí fjöll, styttri ferðir í bæi í kringum borgina og úthverfin. Þetta gefur okkur frelsi og hjólið tekur mun minna pláss en bíllinn, auðveldara að fá bílastæði (sem er mjög erfitt að fá) og svo er plássið hér við húsið nánast ekert, bílastæðin eru frátekin og hver millimetri nýttur hér í hverfinu. Við erum hinsvegar heppin að bakvið okkar hús er smá svæði sem hægt er að setja hjólið á, bílastæðin eru mjög þröng og ca 10 bílar sem leggja hér á bakvið, oft ótrúlegt að horfa á fólk bakka inní stæðin, við sjáum þetta af svölunum og hefur maður oft nánast lokað augunum því maður býst við að næsti bíll verði rispaður endilangt... en þetta eru snillingar og baka mjög ákveðið inní sitt stæði. Ekki meira um það.

Íbúðin er eki stór, en nógu stór fyrir okkur tvö og 1-3 gesti.. mætti jafnvel þjappa. Húsbúnaður er ekki endilega glæsilegur, en við ákváðum að gera minni kröfur í húsnæði og nota tíma og peninga frekar í að þvælast um, fara út að borða og gera eitthvað fyrir okkur. Fyrir utan það er mjög þægilegt og fljótlegt að þrífa íbúðina, bara stinga ryksugunni í samband í henni miðri og þrífa allt í einu lagi, það er langt síðan það hefur gerst, maður hefur þurft að flytja ryksuguna á milli hæða og setja í samband hér og þar... en nú er þetta auðvelt.

Borgin er frábær, hitinn hefur verið rokkandi, oftast + 30° og það tók mig smá tíma að venjast, ég er reyndar þannig að ég svitna mjög fljótt og hressilega og það er stundum pirrandi. Hinsvegar er þetta fínasta hreinsun og nóg af vatni svo ég hlýt að vera orðin alveg kristal tær.

Ég á eftir að skoða söfnin, labba um önnur svæði og svo miklu, miklu meira. Mér skilst á fólki sem flytur hingað að það taki eitt ár að komast aðeins inní hlutina hér, ég er 11 mánuði í það!

Það er haugur af pappírum sem þarf að fylla út, persónuauðkenni (PID), ökurskírteini, atvinnuleyfi, bankakort, Social security number og miklu meira. Ég er búin að sækja um PID og það er grunnurinn, svo er ég búin að senda inn umsókn um atvinnuleyfi en það fer ekki í gang fyrr en PID númerið kemur. Svooooo get ég ekki sótt um Social Security nr. fyrr en ég er búin að fá atvinnuleyfi... svona er þetta, eins gott að maður talar enskuna þokkalega því þetta er þvílíkur frumskógur, en World Bank hjálpar mér við þetta, ég fer í HR deildina, kynningafund í WBFN svo er að skila öllu inn í VISA deildina... þetta er allt skammstafað og maður er aðeins að komast inní þetta.

Hér er yndislegt að versla í matinn, dýrt en hér fæst ALLT, hvað langar þig í? Hvað á að vera í matinn? Í hvernig stuði ertu í dag? Þetta er allt til hérna. Það sem kemur mikið á óvart er líka það að mjög mikil áhersla er lögð á „lífrænt ræktað" og það er mjög áberandi hér. Svo eru ódýrari búðir út um allt, en alltaf lífræn hilla inni á milli. Það kom hinsvegar í Washington post í síðustu viku að það vri sett spurningamerki við þetta lífræna, það væri víst allskonar efnum bætt í þessar vörur, ég las greinina ekki alla en þetta var ekki endilega smekklegt. En ef maður getur valið lífærnt þá gerir maður það, þetta er að sjálfsögðu aðeins dýrara en við erum bara tvö á heimilinu og ekki endilega mikið sem fer af mat hér, svo við getum leyft okkur það.

Ekki meira í dag, nú verð ég að standa mig og reyna að koma inn einhverju skemmtilegu af og til og myndum.

Eigið öll góðan dag