Friday, July 10, 2009

Nýja heimilið

Það er búið að taka mig rúmar þrjár vikur að koma þessari síðu á koppinn, hún átti að fara í loftið um leið og ég flutti út, 13. júní 09. Ekki stóðst það en betra er seint en alls ekki. Hugmyndin er að setja inn nokkrar línur daglega, samt best að lofa ekki uppí ermarnar, sem eru reyndar engar því hitinn hentar betur fyrir ermalaust, þar var ég heppin. Sjáum svo til hvað ég verð dugleg að setja inn myndir og eitthvað um það sem við erum að bralla hér.

Fyrsta vikan fór í að koma mér fyrir, Maggi er búinn að vera hér frá því í janúar svo hann var búinn að fylla alla skápa og skúffur. En skipulagshæfileikarnir komu sér vel og það er nóg pláss hjá okkur ennþá! Ég skildi eftir megnið af fötunum mínum heima, aðallega hjá Rauða krossinum og þurfti því að endurnýja birgðirnar. Það hefur tekið tíma og orku, en þetta kemur allt. Einnig þurfti ég að læra á heimilistækin, allar stillingar t.d. á þvottavélinni í Fharenheit, þá eru hitatölur einnig á þeim skala en hinsvegar slæddist hitamælir að heima með ofaní tösku svo ég hef samanburð.
Það tók líka tíma að finna verslanir með mat, Maggi var að sjálfsögðu búinn að finna nokkrar en heldur langt í þær allar. Nú er búið að þrengja hringinn aðeins og styttra í búð með vatni og nauðsynavörum, en lengra ef maður vill einhvern lúxus. Fann í dag almennilegt bakarí, það er í 5 mín. fjarlægð frá okkur. Bara svo það sé nú á hreinu að þegar ég tala um vegalengdir, þá er ég að tala um þann tíma sem tekur mann að ferðast á tveimur jafnfljótum... engin bíll á heimilinu og frúin ekki með próf á mótorhjólið góða...
Fyrstu vikuna var ég bitin svo hrikalega að vinstri fóturinn var stokkbólginn upp fyrir ökla, ég fór í leiðangur á netinu og fann út hvaða efni það voru sem vantaði, svo þið vitið það líka þá er það B-1 og efni sem heitir DEET (ekki minna en 30%) og er oftast í sprayformi eða þá í pennum. Við erum búin með tvö spray og pöntuðum af Amazon 5 penna takk, það veitir ekki af að hafa „vopnin" í öllum töskum gegn þessum skaðræðiskvikindum. En ég er að mestu búin að sigra stríðið við skepnurnar og bólgan farin af fætinum eftir heilar tvær vikur.

Í framhaldinu erum við svo búin að koma mótorhjólinu á götuna, kaupa hjálma, jakka með hlífum og síðast í gær tösku aftaná hjólið svo hægt sé að fara í meira en dagsferðir.

Það er þvílíkt frelsi að hafa hjólið, ég er farþegi og nýt ilmsins ú umhverfinu (mis góður að sjálfsögðu), útsýnisins og hræðslunnar... stundum, því þetta er í fyrsta skipti sem ég ferðast um á svona tæki - en er frábært.
Við höfum farið í dagsferðir uppí fjöll, styttri ferðir í bæi í kringum borgina og úthverfin. Þetta gefur okkur frelsi og hjólið tekur mun minna pláss en bíllinn, auðveldara að fá bílastæði (sem er mjög erfitt að fá) og svo er plássið hér við húsið nánast ekert, bílastæðin eru frátekin og hver millimetri nýttur hér í hverfinu. Við erum hinsvegar heppin að bakvið okkar hús er smá svæði sem hægt er að setja hjólið á, bílastæðin eru mjög þröng og ca 10 bílar sem leggja hér á bakvið, oft ótrúlegt að horfa á fólk bakka inní stæðin, við sjáum þetta af svölunum og hefur maður oft nánast lokað augunum því maður býst við að næsti bíll verði rispaður endilangt... en þetta eru snillingar og baka mjög ákveðið inní sitt stæði. Ekki meira um það.

Íbúðin er eki stór, en nógu stór fyrir okkur tvö og 1-3 gesti.. mætti jafnvel þjappa. Húsbúnaður er ekki endilega glæsilegur, en við ákváðum að gera minni kröfur í húsnæði og nota tíma og peninga frekar í að þvælast um, fara út að borða og gera eitthvað fyrir okkur. Fyrir utan það er mjög þægilegt og fljótlegt að þrífa íbúðina, bara stinga ryksugunni í samband í henni miðri og þrífa allt í einu lagi, það er langt síðan það hefur gerst, maður hefur þurft að flytja ryksuguna á milli hæða og setja í samband hér og þar... en nú er þetta auðvelt.

Borgin er frábær, hitinn hefur verið rokkandi, oftast + 30° og það tók mig smá tíma að venjast, ég er reyndar þannig að ég svitna mjög fljótt og hressilega og það er stundum pirrandi. Hinsvegar er þetta fínasta hreinsun og nóg af vatni svo ég hlýt að vera orðin alveg kristal tær.

Ég á eftir að skoða söfnin, labba um önnur svæði og svo miklu, miklu meira. Mér skilst á fólki sem flytur hingað að það taki eitt ár að komast aðeins inní hlutina hér, ég er 11 mánuði í það!

Það er haugur af pappírum sem þarf að fylla út, persónuauðkenni (PID), ökurskírteini, atvinnuleyfi, bankakort, Social security number og miklu meira. Ég er búin að sækja um PID og það er grunnurinn, svo er ég búin að senda inn umsókn um atvinnuleyfi en það fer ekki í gang fyrr en PID númerið kemur. Svooooo get ég ekki sótt um Social Security nr. fyrr en ég er búin að fá atvinnuleyfi... svona er þetta, eins gott að maður talar enskuna þokkalega því þetta er þvílíkur frumskógur, en World Bank hjálpar mér við þetta, ég fer í HR deildina, kynningafund í WBFN svo er að skila öllu inn í VISA deildina... þetta er allt skammstafað og maður er aðeins að komast inní þetta.

Hér er yndislegt að versla í matinn, dýrt en hér fæst ALLT, hvað langar þig í? Hvað á að vera í matinn? Í hvernig stuði ertu í dag? Þetta er allt til hérna. Það sem kemur mikið á óvart er líka það að mjög mikil áhersla er lögð á „lífrænt ræktað" og það er mjög áberandi hér. Svo eru ódýrari búðir út um allt, en alltaf lífræn hilla inni á milli. Það kom hinsvegar í Washington post í síðustu viku að það vri sett spurningamerki við þetta lífræna, það væri víst allskonar efnum bætt í þessar vörur, ég las greinina ekki alla en þetta var ekki endilega smekklegt. En ef maður getur valið lífærnt þá gerir maður það, þetta er að sjálfsögðu aðeins dýrara en við erum bara tvö á heimilinu og ekki endilega mikið sem fer af mat hér, svo við getum leyft okkur það.

Ekki meira í dag, nú verð ég að standa mig og reyna að koma inn einhverju skemmtilegu af og til og myndum.

Eigið öll góðan dag

No comments: