Wednesday, July 29, 2009

Ánægð með daginn

Nú styttist óðum í fríið okkar, Maggi á bara eftir að vinna á morgun og svo tveggja vikna frí (rúmlega það). Við erum ekki búin að ákveða nákvæmlega hvenær við gerum hvað, en erum komin með hugmyndir, m.a. skreppa til New York... þar ætlar minn maður að hitta einhverja gauka út af verkefni, ætli ég fljóti ekki bara með eða kíki á borgina á meðan - það kemur allt í ljós. Svo er ætlunin að fara í suður og kíkja á strendur og slaka á, fá smá sól á annað en handleggi, fætur og andlit :-)

Í dag fór ég í íslenska sendiráðið og fékk þau til að þýða ökuskírteinið mitt yfir á ensku, það þarf víst að vera svoleiðis og stimpill frá sendiráðinu. Hún sagði mér að hér væru hópur af íslenskum konum sem hittust af og til, ég þyrfti bara að koma mér í samband við sendiherrafrúnna.... ég hlýt að finna hana :-) allavega byrja ég þá á sendiherranum, við erum með mailið hans. Það væri örugglega gaman að hitta þessar dömur, veit ekert hverjar þær eru.

Eftir hádegi hitti ég Sally Macartney, veit ekki hvort hún er eitthvað skyld goðinu sjálfu :-) en hún er sú sem sér um fjármálanámskeið innan WBFN (fjölskyldunet WB). Við fórum yfir stöðuna og ég fer í að klára verkefnið þegar ég kem úr fríinu. Fínasta kella og við töluðum um ýmislegt og m.a. um hvað við Maggi gætum gert í fríinu okkar, henni fannst nú full langt að keyra á hjólinu frá New York til Toronto....

Fyrst ég var komin svona neðarlega í borgina (G street) þá var stutt í Macy's, ég ákvað að kíkja þangað og athuga hvort ennþá væru til bikinin sem ég sá um daginn.... auðvitað voru þau búin mööhöhö.... þau voru sennilega bara ekki nógu flott :-)
Við erum búin að vera að leita að einhverju fati í eldhúsið, því það eru bara 4 matardiskar og eitt eldfast mót... + glös og kaffibollar og fleira. En okkur vantar fat ef við eldum eitthvað eða fáum t.d. gesti í mat. Ég fór því niður í kjallarann í Macy's þar sem eru búsáhöld, húsgögn og fleira. Þar var ýmislegt til og mjög flott matarstell.... ég labbaði framhjá þeim, en skoðaði föt í ýmsum litum. Ákvað að taka eitt sem er á e.k. standi, hægt að nota það sér eða á þessum standi ef það er heitt. Fyrst þetta var á tilboði þá kippti ég líka með súpu-skál með loki, ausu og standi með sprittkerti (til að halda heitu). Það er líka hægt að nota þetta sér svo þetta er barasta fínasta búbót og ekki veitir af.... sorglegt að vita af öllu dótinu sínu í kössum :-) fína ryksugan, Kitchen Aid hrærivélin og allt hitt...... en þetta völdum við og þá er bara að lifa með því :-) og fara út að borða...... ha, ha, ha....

Ég trítlaði svo af stað heim á leið, var með hrikalega þungan bakpoka með tölvunni minni og fleira dóti.... + þetta leirót, stendur reyndar á pakkanum að þetta sé postulín...?????? Þá sá ég búð sem ég er búin að leita að lengi, búð með málningarvörur, striga og liti.... ég kíkti þangað inn til að skoða hvað væri til og hvernig verðin væru, mig langar nefnilega mikið til að byrja að mála aðeins aftur. Nú það var tilboð á start-pakka, 10 akryllitir, penslar og palletta, ekki gat ég labbað út og séð eftir að hafa EKKI keypt þetta... og svo ég gæti nú notað litina þá keypti ég 4 litla blindramma með striga til að æfa mig á. Nú er ekki aftur snúið..... ég fékk afsláttarkort þarna, sem allt virðist snúast um hér... til að fá þennan afslátt, en OK ég er í USA, afsláttamiðaveldinu :-)

Á leiðinni heim þá svitnaði ég svo hrikalega, bakið á mér var rennandi blautt og hárið eins og ég hefði verið í sturtu, nei kannski ekki alveg en vel blautt... enda var þetta orðið ansi þungt. Skýringin var líka sú að það var búið að rigna í dag (á meðan ég var á fundinum) og rakinn kominn upp í 75% og er núna 90%.... sem þýðir sviti. Hitinn var ca 30 gráður í dag og það munar miklu þegar rakinn er svona mikill. En það er kaldara núna og loftkælingin mallar til að kæla aðeins áður en við förum að sofa. Það er ekki hægt að hafa loftælingu á nóttunni, það er svo mikill hávaði í henni og svo erum við bæði þannig að við byrjum að hósta og fáum hálfgert kvef.... ég hef oft fundið fyrir þessu í verslunum og í lestum, þoli þetta greinilega ekki vel.

Ég er að klára að copera verkefni á CD til að láta þær hjá fjölskyldunetinu (World Bank) hafa, þær ætla að klára það.... ég var svooooo fegin þegar Gilda spurði hvort ég væri viðkvæm fyrir því að hún gerði það, ég verð svo fegin að losna við þetta því það hafa verið að koma 10-20 mail til mín á dag þegar verst hefur verið. Það eru ca 10 manns að vasast í þessu og það er að sjálfsögðu alltof mikið, auðvitað á einn aðili að taka við commentum og koma til mín.... svona er þetta bara oft. Ég get allavega farið í frí með góðri samvisku og laus við að klára síðustu cm á þessu eilífðar plagati íííhaaaaaaaaaa Það þarf nefnilega að klára þetta í byrjun næstu viku, átti að sjálfsögðu að vera löngu búið....

Maggi fór á hjólinu að hitta Roserio, hann plataði Magga í Squash eða eitthvað mjög svipað... gaman að sjá hvort hann kemst heim eftir það :-) annars erum við komin með góða lærvöðva af allri göngunni hér og ég á handleggina eftir pokaburð :-)

Nú ætla ég að snúa mér að því að klára eitt verkefni svo ég geti farið að skoða litina mína og undirbúa fyrsta meistaraverkið.......

Magga

No comments:

Post a Comment