Sunday, November 29, 2009

Einn dagur...

...þangað til minn kemur heim :-)
Af því tilefni ákvað ég að þrífa aðeins hér, það voru strigar, litir og málningardót út um allt, er búin að nota síðustu daga í að mála og mála. Smá slettur á gólfinu og fleira sem mátti alveg þrífa og eldhúsvaskurinn ekki til fyrirmyndar - en fínasta efni á heimilinu sem hreinlega eyðir öllu svona.

Byrjaði samt á að fá mér kaffibolla í sólinni, um 20°C í dag og því yndislega hlý sólin. Þá var ryksugan tekin fram og látin hamast á gólfinu, fyrst ég var byrjuð þá skúraði ég líka og jú þvoði klósett, vask og sturtuna... tók þá veggflísarnar í leiðinni, svona er maður duglegur.
Svo er þvottavélin búin að malla á rúmfötum og fleiru í dag, alltaf yndislegt að skipta á rúminu :-) Ég fékk mér fínan (mjög) síðbúinn brunch og skellti mér út á röltið eftir góða sturtu og dúllerí og Skype spjall við pabba, mömmu og ömmu, sem var í mat hjá þeim eftir laufabrauðsgerðina, harkan þar.
Það var fínasta veður, bjart og hlýtt og ég hefði alveg mátt klæða mig minna, maður vanmetur hitann of oft hér... Ég endaði í Macy's og gerði góðan díl á svörtum háum stígvélum, er búin að skoða út um allt en aldrei fundið... en þarna voru þau bara á útsölu og auka -$25... ekki slæmt, trítlaði því alsæl heim og spjallaði svo við Dagnýju og Magga á Skype. Þau voru að koma af jólahlaðborði á Einari Ben með Heiðu og co, hálf afvelta af ofáti :-) Laufabrauð og alles mmmmmmmmm væri alveg til í það. Dagný ætlar að kaupa fyrir mig laufabrauð og koma með hingað um jólin, smá íslenst :-)
Búin að strauja og prjóna á meðan ég horfði á eina mynd í tölvunni og ætla að fá mér smá í svanginn því ég hef algjörlega gleymt að borða síðan um hádegi... ekki gott.

Meira síðar
Magga

Friday, November 27, 2009

Magga málar..

Fór í málnngabúðina eftir hádegi og er svo búin að vera að mála meira og minna í dag og í kvöld, kemur nú fljótlega að því að ég kíki í bólið.
Maggi er á Íslandi hjá Heiðu og fjölskyldu, náði aðeins í hann á Skype en sambandið var svo sæmt á Selfossi... að ég gafst upp, allavega gott hlóðið í honum. Hann verður þarna á morgun og fer svo til Dagnýjar á sunnudag og svo looooksins til mín á mánudaginn, ekki slæmt eftir tæpar 4 vikur.

Í dag er svokallaður „Black Friday" og virðist allt ganga útá að VERSLA, það eru endalausar auglýsingar frá verslunum í útvarpinu, útsölur, tilboð og allkonar bull. Það var líka sagt frá því að það væri umferðaröngþveiti í kvingum verslunarmiðstöðvarnar í úthverfunum - mikið er ég fegin að þurfa ekki að taka þátt í þessu. Miðborgin var nánast eins og draugaborg í dag, greinilega allir að keppast við að fara í Mallin :-) Líka eins gott að vera inni - það er svoooo kalt hér, var sól, rok og rigning í dag, sá þarna uppi gat greinilega ekki ákveðið sig :-)

Á morgun ætla ég svo að halda áfram að mála, keypti nefnilega nýtt efni i dag sem ég er að prófa og það þarf að þorna í nótt svo ég geti málað yfir...
Svona í gríni set ég inn fyrstu myndina sem ég gerði hér í DC, algjörlega nafnlaus (án titils :-) og engar nánari útskýringar.


Hafið það gott um helgina, ég ætla að gera það
kv Magga

Thursday, November 26, 2009

Thanksgiving

Þá rann þessi dagur upp, svaf lengi (las til 2 í gærkvöldi...)... fór svo í ræktina og rakst þar á útsendingu frá skrúðgöngu Macy's í New York, á einni sjónvarpsstöðinni, æi ekki endilega spennandi... allt svo gervilegt og plastlegt - auðvitað STÓRT og amerískt :-) Þá veit ég það og fer þá frekar á almennilegt Carnival til Brasilíu einhverntíman... og sé almennilega heimatilbúna, skrautlega og ekta vagna :-) Þetta er alveg eins á ferðamannastöðum hér, allt tilbúið, lækir og gosbrunnar með grænu, bláu eða fjólubláu vatni... frekar gervilegt og EKKERT náttúrulegt :-( Klettar steyptir og málaðir og frekar „sorglegt" eins og einhver myndi segja!

Á leiðinni heim keypti ég Washington Post til að ath. hvort eitthvað væri um að vera í dag - EKKERT þar.
Eftir heita sturtu og fínan morgunmat ákvað ég samt að fara aðeins út að rölta og sjá hvort ég rækist á eitthvað hér í nágrenninu, fór niður 18. stræti - EKKERT í gangi, einstaka bílar og fólk á ferð, sennilega svona afgangslið eins og ég sem er eitt heima og hefur EKKERT annað að gera en að athuga hvort sé eitthvað um að vera :-)
Jú nokkrir spariklkæddir á leið í veislu. Ég tók því hægri beygju inní K stræti og upp 19. stræti til baka. Allt var lokað m.a.s. kaffihúsið eeeeeen það var ein bókabúð opin svo ég ákvað að kíkja þangað inn og fletta bókum - ELSKA BÆKUR, hef kanski tekið það fram hér áður :-)
Ég endaði með (eftir ca klukkutíma fletterí) að kaupa mér eina bók um endurvinnslu, allskonar hlutir gerðir úr allskonar efni ($22), mjög margar hugmyndir sem mætti þróa áfram eða nota á annan hátt - hugmyndir, hugmyndir, hugmyndir... ég er greinilega að safna í sarpinn, á leiðinni út voru DVD myndir á $6, ein Richard Gere mynd fékk að fljóta með :-)

Eftir þetta ákvað ég bara að spara mér 3ja rétta Thanksgiving matseðil sem ég sá auglýstan á Connection Avenue.... $20 þar + vínglas... komið í sama verð og það sem ég freistaðist til að kaupa áðan :-) he, he... græddi þar!!! og eins og Dagný myndi segja „frekar sorglegt að sitja þar ein á svona degi" :-)
Nú ætla ég semsagt að skella svokallaðri „Thanksgiving-pissu" í ofninn (hún fær bara þetta flotta nafn í tilefni dagsins, laukur, ostur og svo eru til sveppir hér líka :-), fletta bókinni góðu, horfa á myndina og njóta þess að vera hér inni - undir sæng í þessum skítakulda sem er úti... mmmmm enda er ég hrikalega löt, það er búið að vera mjög grátt og dimmt hér í dag og BARA veður til að kúra undir sæng. Það verður líka einhver Thanksgiving útsending á útvarpsstöðinni OKKAR, gamlar og nýjar... gaman að heyra hvernig það verður.
Maggi er sennilega í loftinu núna á leið til London, svo er það Ísland á morgun.... heyri þá vonandi í honum

Thanksgiving greetings from DC
Magga

Fór ekki út úr húsi í dag!

Í dag var einn af þeim fáum dögum sem ég fór ekki út úr húsi, fór ekki í ræktina en hafði nóg að gera.
Svaf til 10 í morgun, sem gerist ekki oft - horfði nefnilega á mynd í gærkvöldi og fór ekki að sofa fyrr en kl. 2... Það var haugur af leiðindarverkefnum sem biðu mín í dag.
Kláraði bókhald imago, launatengd gjöld, gerði vaskinn fyrir desember og búin að skila því inn, á heilar 1.000 kr. inni hjá íslenska ríkinu :-) vá enginn smá gróði það. Svo gerði ég verkefni fyrir fyrir Coaching og sendi önnur verkefni sem ég var búin að lofa. Sendi líka tilboð til Íslands sem ég var bein um, í jólablað á Akureyri... Þetta tók allt sinn tíma og hitaði ég mér svo pastarétt síðan um daginn, sem ég átti í frysti - bara nokkuð góður :-)

Á morgun bíða mín nokkur mail og þá er tossalistinn farinn að minnka allverulega. Þarf líka að fara yfir mail og skjöl sem ég fékk fyrir fund hjá WBFN á þriðjudaginn.

Thanksgiving er hér í USA á morgun, nú er slæmt að hafa ekki sjónvarp því það er örugglega eitthvað um að vera þar... m.a hin árlega skrúðganga Macy's í New York, en ég ætla að ná mér í dagblað og sjá hvort ekki er eitthvað um að vera. Mér skilst að þessi dagur gangi mikið útá þeirra „football" og margir leikir í skólum og hópum. Þetta er víst heljarinnar dagur og mjög mikilvægur hjá fólki hér, kalkúnninn úttroðinn af einhverjum fyllingum og meðlæti af bestu gerð + pumpkin-pie. Verslanir eru fullar af þessum hormóna ofvöxnu skepnum, fyllingum og cranberries þetta og hitt... Þessi hefð er ekki mjög gömul hér, síðan 1941 minnir mig en heldur betur gert mikið úr þessu og verslanir keppast við að auglýsa tilboð - eins alla aðra hátíðsdaga... ég held að ég hafi aldrei upplifað eins mikið af auglýsingamennsku og tilboðum eins og hér, endalausir tilboðsdaga í tilefni af þessu og hinu....

Hér hefur einhver verið að dunda sér við að útbúa hinn fullkomna „Crispy Thanksgiving Turkey :-)"

Kannski get ég fengið mér einhvern Thanksgiving mat á veitingastað á morgun til að fá einhvern smá fíling! Við Maggi vorum búin að plana að gera eitthvað þessa helgi en svo var Íslandið góða tekið framyfir... en þá bara næst :-) Mér skilst líka að það sé hræðilegt að ferðast þessa helgi, flugvellir yfirfullir og í Washington Post í vikunni voru sýndar nokkrar góðar leiðir til að komast hjá umferðatöfum út úr borginni... sennilega ástæða fyrir því :-)

Ég spjallaði við Dagnýju á Skype og náði aðeins í Magga á Skype líka, kl. var 3 um nótt hjá honum og hann að koma heim og ákvað að kveikja rétt aðeins :-) við urðum að hvísla því hann er á vonlausu hóteli í Nairobi (Kenya) eins og hann lýsir þessu, heyrist allt á milli herbergja. Þarna eru einhverjir íslendingar sem fara með sömu vél til Íslands og fór hann með þeim út.
Mér heyrist hann vera orðinn ansi þreyttur eftir 3ja vikna ferð og endalausa fundi, flug og misjöfn hótel, hann sefur sennilega vært í kyrrðinni á Selfossi :-) og nýtur þess að fara í smá afaleik. Svo hittir hann Dagnýju á sunnudaginn og loooooksins fæ ég hann heim á mánudagskvöldið, verð eiginlegag að viðurkenna að ég er farin að sakna hans.... eiginlega nokkuð mikið.

Kl. er að verða 1 og er ég því að hugsa um að hætta þessu núna, koma mér í bólið lesa aðeins og svo zzzzzzzzzzzz

Góða nótt og meira síðar
Magga

Tuesday, November 24, 2009

Þreytt Magga...

Jæja þá er þessi dagur að verða búinn, vaknað alltof snemma í morgun - var nefnilega ákveðin í að láta klukkuna ekki hringja - bara sofa... en helv... ruslabíllinn byrjaði með látum eldsnemma.
Ég er svo eina ferðina enn að fara seinna að sofa en ég ætlaði... og fór ekkert í listann minn langa í dag, en hann fer víst ekkert og það kemur annar dagur eftir þennan dag.
Kláraði að pakka inn pökkum til Íslands og kom þessu á pósthús 5 mín fyrir lokun. Kassinn reyndist vera 11 kg. ekki furða þó ég hafi gefist uppá að labba með hann og húkkaði Taxa hér rétt hjá :-) Fegin að þetta er farið og allt í einu orðið heilmikið pláss hér í stofunni :-) ekki barnaföt og skór út um allt.

Ég byrjaði daginn í ræktinni (tæpl. 2 klst...) og kom svo við í vínbúð (selja sterkari vín þar) og keypti Brandy til að setja í jóla/ávaxtakökuna. Brytjaði alla þurrkuðu ávextina og skellti þeim í bleyti í vökvann góða... þetta þurfti að standa í 4 klst. Gat því klárað pakkana á meðan og farið á pósthúsið. Þegar ég kom til baka fór ég í að malla kökuna og hún þurfti að bakast í 3 klst.... tókst bara nokkuð vel - vona ég.
Notaði tímann í að klára trefilinn úr eingirninu sem ég byrjaði á fyrir mánuði síðan, ekkert smá fegin að hann er búinn - hætti ekki í dag fyrr en ég var BÚIN.
Fékk fyrirspurn um tvö verkefni í dag, á Íslandi, þarf að skella saman einhverju tilboði á morgun. Er búin að vera svo róleg í þessu síðan ég kom hingað að það þarf heljarinnar átak til að setjast yfir þetta - nákvæmlega eins og bókhald Imago... en þetta er víst enn hluti af mínu lífi svo ég klára þetta.
Er með fullt af hugmyndum og nota vonandi Imago síðar í að koma þessum hlutum á framfæri.
Fékk líka mail í dag um samkeppni... ætla að skoða þetta aðeins og jafnvel taka þátt!

Fékk símhringingu frá WBFN, hvort ég gæti mætt á fund með þeim á þriðjudaginn, það er eitt heljarinnar verkefni að fara í gang :-) Book Project sem þær eru með og vantar allt kynningarefni, var búin að hitta þær og samþykkja að gera þetta - nú er komið að því!

Nú ætla ég í bólið, kláraði bókina í gær svo kannski kíki ég aðeins á einhverja mynd - ekki ólíklegt að ég sofni yfir henni :-)

Þangað til næst... hafið það gott
kveðja frá DC
Magga

Monday, November 23, 2009

Vika eftir...

...þangað til minn maður kemur loooooksins heim!
Ég snoozaði nokkrum sinnum á vekjaraklukkunni, líkaminn var greinilega ekki tilbúinn að vakna kl. 7, ég gat nefnilega ekki hætt að lesa í gær og kl. var að verða 2 þegar ég loksins lokaði augunum.
Fór og lét prenta út fyrir mig ensku kynninguna og hélt minn fyrirlestur kl. 10, gekk fínt og þetta tók sennilega 20 mín. með allskonar spurningum og umræðu. Tók fyrir jólasveinana 13 og aðeins um íslenskar jólahefðir... Borðuðum svo saman í hádeginu og hélt ég svo heima á leið, mígandi rigning og ógeð, en ég varð að fara með tölvuna heim því ekki ætlaði ég að bera hana í allan dag...

En það var ekkert væl - fór út aftur og í Macy's, keypti jólabuxurnar á frændur mína og jólakjólinn á litlu prinsessuna, ferlega flottur. Svo var skóbúð og þar voru íþróttaskór keyptir og ég kooooolféll fyrir litlum hvítum prinsessu skóm :-) smá fyrir-jólaglaðningur frá Möggu frænku...
Ég var orðin svooooo hungruð eftir þetta að ég henti mér inná McDonalds, hef ALDREI farið þar inn áður (jú ég lýg því, við Maggi fórum einu sinni í North Carolina til að komast í skjól og fá smá salt við vökvatapinu... vorum þá á hjólinu í 40° hita :-) en OK ég sagði bara eins og var „ég kann ekkert á þetta, vantar lítinn hamborgara og smá af frönskum" hann reddaði þessu og ég borgaði $ 2.40. Nú skil ég af hverju fólk étur þarna OFT... þetta er náttúrlega hundódýrt miðað við allt annað hér... meðal máltíð í mötuneyti World Bank er $ 6-10.... en ég vildi hinsvegar ekki borða þarna oft, fékk á tilfinninguna að ég væri að borða ALLT sem ég ætti ekki að borða, alla þessa fitu, hvítt brauð og örugglega hromónasprautað kjöt!!! En maður þarf nú stundum að sukka :-)

Kom ekki heim fyrr en hálf sjö og er búin að hlusta á CD (fyrirlestur), prjóna og ætla að reyna að koma mér í bólið snemma og klára að lesa bókina mína.
Á morgun er langur minnislisti, ekkert námskeið en það er hellingur af smámálum sem ég er búin að ýta á undan mér... nú svo bíður hvítur strigi eftir að ég BYRJI að mála á hann, reyndar fleiri... fullt af hugmyndum en ég þarf að hafa tíma og vera slök og upplögð svo ég njóti þess.

„Have a good one", eins og yngra liðið segir alltaf hér (og eldra auðvitað líka)... fólk er hætt að nenna að segja „Have a nice day" og allt þetta vanalega... sennilega svipað og í íslenskunni! Þetta er að sjálfsögðu ekkert styttra, bara meira „töff" :-)

Magga þreytta zzzzzzzzzzzzzz

Sunday, November 22, 2009

Handmade Nation

Í gær var leeeeeeti dagur og eins og ég hafi ekki gert neitt, en samt ýmislegt... ræktin, verslaði í matinn og las hér heima. Ýmis smáverkefni sem þufti að klára og undirbúa. Kláraði slide showið fyrir enskuna en var of sein með þetta i prentun, verð því að fara mjög snemma á mánudagsmorguninn með þetta i prentun - fyrir tímann sem byrjar kl. 10. Eldaði mér í fyrsta skipti í langan tíma, pasta og góða kjötsósu mmmmmmm

Í dag var ég búin að ákveða að fara á mynd sem sýnd var í Renwick Gallery, kl. 2. Þessi mynd var alveg frábær, heitir „Handmade Nation" og er um handverksfólk, listamen og hönnuði sem eru að gera ýmsa hluti, endurvinnsla og margt mjög spennandi - ég fór út uppfull af hugmyndum.

Coverið á myndnni. Fann heimasíðuna og þar er ýmislegt líka...

Skoðaði sýningarnar sem voru í safninu og margt skemmtilegt þar, ég held að þeir kalli þetta gallery „American Craft Gallery" og þannig voru líka sýningarnar, allskonar hlutir gerðir úr öllum mögulegum efnum. Einhvernvegin endaði ég í versluninni þeirra á leiðinni út, fór að sjálfsögðu að skoða þar, margar áhugaverðar bækur og bókasjúklingurinn freistaðist til að kaupa eina bók um bókagerð... nákvæmlega bókin sem ég er búin að leita að... allavega einhvernvegin svona bók. Ætla að skella mér með hana í bólið og skoða hana aftur - fullt af skemmtilegum hugmyndum þar!

Ég eldaði mér laukböku áðan, veit ekki hvað er komið yfir mig... það voru eggjahvítur afgangs svo ég ákvað að skella í eina smákökuuppskrift, setti Cappuchino duft útí og byrjaði að hræra... ekki þeyttist þetta eins og það átti að gera - svo ég bætti bara smjöri, hveiti og því sem venjulega fer í smákökur.... vissi nákvæmlega EKKERT hvað ég var að gera, átti hvítt súkkulaði svo það for líka samanvið, útkoman var hinsvegar mjög góð en engin uppskrift til :-)

Svo opnaði ég rauðvín, settist með hinn endalausa trefil fyrir framan tölvuna og horfði á myndina „The curious case of Benjamin Button" ekki nema 2 tímar og 40 mín... en það var ekkert hægt að hætta og ég prjónaði haug....

Nú er það bólið - bókin og svo zzzzzzzzzzzzz
Á morgun ætla ég að reyna að byrja á ræktinni og fara svo í Target með innkaupalistann frá Heiðu og Dadda... barnaföt!

Góða nótt - kl. er orðin 01:13... og ég þykist ætla að taka daginn snemma!!!
Magga

Thursday, November 19, 2009

Grillaður heili!

Ég er algjörlega búin eftir þennan dag, byrjaði á Coaching kl. 10 í morgun til kl. 13:30, þá hlupum við Karin yfir í næstu World Bank byggingu á Networking námskeið í klukkutíma... svo ég var komin út kl. 15 með grillaðan heila...
Eftir það fór ég í Macy's og kláraði jólagjöfina hennar ömmu og keypti tvær barnaflíkur á fyndnu verði... alltaf útsölur þarna, jú líka gollu handa mér sem var á 70% afslætti + 40% afslætti af því verði... ekki slæmt :-)

Rölti svo heim og var orðin svo svöng kl. 5 að ég keypti mér Subway á leiðinni og gúffaði honum í mig á röltinu, rigningarúði og raki svo ég svitnaði þvílíkt. Stökk inní Safeway og keypti vatn því ég mundi að það var búið á heimilinu og ekki er vatnið úr krananum beint gott!

Það var því þreytt Magga sem skreið upp tröppurnar með afrakstur dagsins + verkefnabækur dagsins. Nú er bara að láta renna í bað og taka rólegt kvöld, á morgun er FRÍ hjá mér og ætla ég að njóta þess. Var að hugsa um að skreppa á eitt safn á leiðinni úr Macy's en ég meikaði það einfaldlega ekki, verður að bíða betri tíma....

Í Coaching tímanum var skemmtileg útkoma, það var gaman að sjá hvernig Elena sá mynstrið hjá mér og hvernig allt tengdist hjá mér, eiginlega í eina viðskiptahugmynd... sem er mjög spennandi. Hún bað um leyfi hjá mér til að senda mitt „brainstorm" verkefni á hinar fjórar í hópnum svo þær gætu lesið þetta og jafnvel komið með hugmyndir á móti. Þetta er frábært og gott að fá feedback frá hinum. Það væri nú ekki slæmt að geta byrjað að undirbúa þetta hér og jafnvel kynna, ég get nefnilega notað alla mína reynslu, þekkkingu og skipulag í þetta. Ætla ekki að tjá mig mikið meira um þetta því ég þarf að hugsa þetta betur og sjá hvort þetta er eitthvað sem gengur upp!!!

Bestu kveðjur frá þreyttri Möggu

Wednesday, November 18, 2009

Batteríslaus...

...ég og tölvan.
Er komin í bólið, búin að horfa á eina mynd og ætla að fara að kúra. það eru 6 mín. eftir á batteríinu í tölvunni og sennilega álíka mikið eftir hjá mér.

- Enskunámskeið
- Fórum svo nokkrar saman í mat í mötuneyti World Bank, reynum að gera það eftir hvern tíma til að kynnast betur
- Spjallaði við Magga á Skype, hann er kominn til Tansaniu... tvö lönd eftir í viðbót, Eþíópía og Kenía... og svo Ísland í gegnum London, bara svona rétt aðeins í leiðinni heim!!
- Þvottavélaviðgerðamaðurinn kom og kláraði að laga vélina - looooooksins. Og hún virkar :-)
- Gerði boðskort fyrir Michele fyrir áramótapartýið
- Verkefni fyrir Networking á morgun... næstum búin - klára restina með morgunkaffinu
- Keypti kassa fyrir pakkann til Íslands...

3 mínútur eftir zzzzzzzzzzzzzzzzzz
Góða nótt
Magga

Tuesday, November 17, 2009

13 dagar...

13 dagar þangað til minn maður mætir á svæðið - verð fegin þegar hann kemur heill heim :-) Þetta er bara sami dagafjöldi og þegar maður fór að fá í skóinn - 13 dagar til jóla :-)

Byrjaði daginn á ræktinni, það var enginn fundur eða námskeið í dag - yes... þó það sé ekki slæmt þá er fínt að fá algjöran frídag inná milli.
Eftir góða sturtu ákvað ég að fara í Target, sem er e.k. lágvöruverslun með allt fyri heimilið og líka föt. Kíkti á barnafötin - fáránleg verð og freistaðist í smá handa frændsystkinum mínum... sendi þetta í vikunni Heiða og Daddi... (sendi þér mail Heiða) Þegar hægt er að fá flotta peysu fyrir $6 þá er það fáránlegt! Keypti líka glös því við eigum 3 stk. Það vantar ef einhverjir koma í mat og svo um jólin handa ungunum :-)

Ég fór svo í mat til Michele og Pete, frábært kvöld hjá okkur og fínasta pasta hjá henni, hún bjó á Ítalíu í 3 ár ssvo hún lærði ýmislegt þar.... Við Michele höfum náð mjög vel saman og höfum svipaðan húmor og áhugamál - og líka áherslunr í lífinu! Pete kom á óvart, Maggi hitti þau á ganginum í World Bank um daginn og hélt að hann væri ekki sín typa, en ég held að þeir séu ekki ólíkir, með sama skítahúmorinn og við eigum örugglega eftir að skemmta okkur vel saman :-) Er með texta á áramótapartýs boðskortin og ætla að senda á hana.... það verður sennilega fjör þar :-) Við káluðum góðu hvítvíni sem ég fór með til hennar (hún náði nefnilega bílprófinu í dag) og smökkuðum svo annað líka.... tók svo strætó heim.
Frábært kvöld og mjög gaman að tala við þau, fyndið að maður fattar stundum ekki að maður sé að tala ensku, þetta rennur stundum svo ljúflega að maður þarf ekki að hugsa. Eins og Michele sagði líka „þú átt að vera í næsta hópi fyrir ofan" semsagt efsta hópnum... ég fer þangað eftir áramót ef ég held áfram.... en minn hópur er samt svo frábær að mig langaði að klára þetta með þeim.

Nú er ég að hugsa um að skella mér í bólið, enskunámskeið hjá Michele í fyramálið kl. 10 og þá er eins gott að vera ferskur :-)

Góða nótt öll
Magga

Maggi í Úganda

Maggi sagði mér skemmtilega sögu á Skype í gær. Þeir Akin fóru í orkumálaráðuneytið í Úganda (Kampala) í gær og vildu ráðherra og fleiri sýna þeim slide show af því sem þeir eru að gera. Málið var að það voru bara til þrjár tölvu í ráðuneytinu og allar út útláni... hmmmm Maggi sökk því uppí leigubíl og sótti sína tölvu á hótelið.
Þá var byrjað á slide showinu og tókst að sýna 2 glærur þá fór rafmagnið... í ORKUMÁLA ráðuneytinu! Var því ákveðið að þeir færu allir í leigubíl og inná hótel hjá þeim og endaði það með að þeir kláruðu glærurnar og fundinn inni á hóttelherberginu :-)
Í dag er annar fundur og ætla þeir að halda hann inni á hótelherberginu, líklega mun öruggara en í opinberu byggingunum. Eins og Maggi sagði sjálfur þá myndi hann ekki endilega vilja búa þarna akkúrat núna.

Það kom viðvörun frá World Bank til þeirra um að það væri yfirvofandi hryðjuverkaárás þarna, úff ekki endilega vinalegt. Maggi er hinsvegar sallaraólegur og finnst hann mjög öruggur þarna, vopnaðir verðir á hverju götuhorni og því allt OK, kannski eins gott að haga sér þá vel líka :-)

Hótelið sem hann er á var víst hluti af útrýmingarbúðum Idi Amin - já þetta er svo sannarlega vinalegt umhverfi sem hann er í. Ég get sagt það að ég verð því fegnust þegar hann labbar hér inn um dyrnar og er kominn HEIM. En hinsvegar hefur Maggi verið heppinn hingað til og trúir því að hann sé heppinn - það er aðal málið.

Kv. frá DC, ætla í ræktina
Magga

Fann þessa mynd á netinu - Kampala höfuðborg Úganda

Frábær fyrirlestur í dag

Ég byrjaði daginn á að fara á frábæran fyrirlestur hjá manni sem heitir Chris Wright, þessi fyrirlestur var um persónuleikana 9 sem við finnum okkur öll í. Sumir sjá sig mjög greinilega í einum en aðrir í fleirum... þ.á.m. ég sem er SEXA, eins og hann sagði þá „myndi heimurinn ekki virka án sexunnar". Þetta var mjög áhugavert og hægt er að skoða þetta hér inni: http://www.enneagraminstitute.com/intro.asp Chris er e.k. hjónabandsmiðlaði og var þessi fyrirlestur til að fá okkur til að þekkja okkur sjálf og maka, jú börnin líka til að vita af hverju við högum okkur eins og við gerum og virða þarfir annara... hollt fyrir alla.

Þarna hitti ég fullt af mökum bankastarfsmanna og Anne forseti WBFN bað mig um að vinna fyrir þær eitt verkefni, það er Book Project sem þær eru með í kjallara byggingarinnar og fór ég niður með Hillary, sem sér um þetta. Þau vantar merkingar og kynningarefni til að bæði fá bækur frá fólki innan bankans (notaðar) og selja þeim það sem til er. Það er risa sending að fara til Tansaníu fljótlega, heill gámur... ótrúlegt starf sem er unnið þarna og verður spennandi að gera tillögur...

Ég ætlaði að fara í kvöldmat til Michele í kvöld en við ákváðum að fresta þessu til morguns, ég var eiginlega fegin því ég var algjörlega búin þegar ég kom heim kl. 5.... Keypti samt gott hvítvín á heimleiðinni til að taka með mér á morgun :-)

Fékk svar frá Elenu markþjálfanum mínum og var hún svo ánægð með Brainstorm verkefnið mitt að hún sagðist ekki hafa getað hætt að lesa fyrr en hún var búin - áhugavert efni sagði hún :-) Enda lagði ég svoooo mikla vinnu í þetta. Hún vildi fá að senda einni í hópnum fyrstu síðuna mína til að hjálpa henni að komast í gang - auðvitað var það í lagi, við erum jú að vinna þetta í sameiningu og eins ég sagði við hana þá fæ ég vonandi hjálp frá þeim og punkta sem ég get lært af.

Alexandre kom upp áðan og kíkti á þvottavélina það var þvílíkur hávaði í tromlunni þegar hún var að vinda að mér leist ekkert á þetta - vonandi kemst viðgerðarmaðurinn fljótlega því það er ekkert grín að hafa ekki þvottavél aðra viku... öll fötin úr ræktinni... og fleira.

Var að fá mail frá Elenu akkúrat núna (kl. 00:09) það eru fleiri en ég að vinna, henni finnst mín kynning óaðfinnanleg og betri kynning verði sennilega ekki í hópnum :-) ég eigi að vísu eftir að sjá eitthvað ólíkt frá hinum...

Byrjaði á kynningunni minni fyrir enskuna, ákvað að taka fyrir jólasveinana íslensku, hafa þetta á þjóðlegu nótunum. Og auðvitað vann ég þetta í tölvunni og er komin með 20 glærur... þetta eiga að vera 10 mín og ég vona að ég verði ekki mikið lengur að þessu en það :-) en svona er þetta þegar maður byrjar og jólasveinarnir eru nú 13 svo þeir verða að fá eina glæru hver + grýla + jólakötturinn og svo ein til að kynna landið... úff ég hlýt að vera fullkomunaristi... en þetta er jú mitt starf svo ég hlýt að gera þetta VEL!

Hér er fyrsta glæran... smá „þjóðarstolts glæra" :-)

Ég er búin að komast að því að besta „megrunaraðferðin" er að vera ein í 3 vikur, ég nenni ekki að elda og gleymi jafnvel að borða. Var orðin svo svöng áðan og ekki furða, kl. orðin 21... skellti á pönnu því sem til var í ísskápnnum: laukur, brokkoli, sveppir, hvítlaukur og ekki, barasta fínasta fylling...

En núna er ég að hugsa um að skella mér í bólið og reyna að komast lengra í bókinni minni, á ca 100 síður eftir... það er svo auðvelt að lognast út af við lesturinn - besta svefnmeðal :-)

Knús frá DC
Magga

Sunday, November 15, 2009

Búin með verkefnin mín

Í dag hélt ég að yrði rólegur dagur, var að vinna til miðnættis í gær til að klára verkefnin mín fyrir Markþjálfunina.
Ég byrjaði á að fara í ræktina til að hressa mig við, hitinn úti fór í 28° í dag svo ég settist út á svalir með dagblaðið og prjónaði svo aðeins. Þegar sólin var farin af svölunum fór ég inn hélt áfram að vinna í verkefnunum mínum, náði að klára þau kl. 10 í kvöld! Þetta endaði í tæplega 20 síðum og er ég ánægð með árangurinn. Ég er að komast að niðurstöðu, þarf að vinna betur í þessu og halda svo áfram. Ég spjallaði við pabba og mömmu á Skype en missti af Magga.
Á morgun eru 2 vikur þangað til hann kemur heim, 25 dagar eru eiginlega langur tími... ég á örugglega eftir að komast að því síðar :-) En ég hef nóg að gera og spennandi verkefni í gagni.
Á morgun fer ég á fund/fyrirlestur í WBFN, var að skoða e-mailið sem Catherine sendi mér, þar er viðhengi uppá 4 síður sem ég þarf að lesa, best að fara með tölvuna uppí rúm og lesa þetta. Þetta er fyrirlestur hjá manni sem heitir Chris Wright og er e.k. hjónabandsráðgjafi. Fyrirlesturinn heitir „Now Let's Figure Out Your Relationship", þetta er spennandi :-) Mér skilst að þetta skjal sem ég á að lesa sé um 9 mismunandi persónuleika og hvernig þeir eiga saman... nú er bara að sjá hvort fræðin segi að við Maggi eigum saman ha, ha, ha, ha....
Ég var svo svöng seinnipartinn að ég fór út á Connecticut Ave og sá þar hamborgarastað, ekta amerískan með borgurum, shake og tilheyrandi sukki, fékk mér hamborgara og franskar... hef aldrei farið þarna inn og er EKKI vön að kaupa mér svona mat, vantaði bara ofurorku. Fékk svo mikið af tómatsósubréfum með að þau endast sennilega fram á næsta ár, en ég gúffaði þessu í mig með bestu lyst hér heima og eiginlega það eina sem ég hef borðað í dag af viti (ekki endilega viturlegur matur - en samt.... eins og einhver segir alltaf :-)

Klukkan er orðin 11 og því eins gott að koma sér í bólið og lesa þetta skjal. Ég held að þetta byrji kl. 9 á morgun og til kl. 3 svo það verður ekkert gefið eftir. Michele og Pete eru búin að bjóða mér í mat annað kvöld og verður það sennilega ekki leiðinlegt. Hef ekki hitt Pete en Michele er fín.

Góða nótt og sofið rótt - það ætla ég allavega að gera!
Magga

Saturday, November 14, 2009

Brainstorm...

Í dag hef ég lítið gert en að hugsa og hugsa.. brainstorm, og er orðin yfirfull af hugmyndum. Það var verkefni dagsins að klára verkefnin fyrir Coaching. Ég er búin með eitt stk. sem var hugmyndavinna fyrir hvað mig langar að gera, hvaða leiðir get ég farið af krossgötunum stóru - sem ég er búin að standa á alltof lengi.
Það komu upp hugmyndir, sumar er ég búin að hafa lengi og aðrar nýrri, þetta er svosem ekkert nýtt aðal málið er bara að koma þessu frá sér í bundið mál... og það er eitt af því sem ég hef áhuga á, þ.e. að skrifa. En þetta kemur allt í ljós og ég á eftir að mæta í ca 4 tíma í Coaching. Ég lofaði Elenu að klára þetta um helgina og ætla að gera það.
Nú á ég eftir að skrifa 6-8 sögur þar sem ég er í aðalhlutverki, ekki hugsa um hvað aðrir halda eða hugsa, bara hvernig ég var og hvernig mér leið, úff ég er komin með 6 hugmyndir en á eftir að skrifa þetta allt, hálf blaðsíða hver og á ensku... maður fer nú að verða nokkuð góður :-)

Nú mallaar þvottavélin og þurrkarinn líka... jú og uppþvottavélin líka. Viðgerðarmaðurinn birtist allt í einu og gerði við þetta, varahlutirnir voru komnir. Alexandre boppaði hér á milli hæða, var að brasa eitthvað niðri svo við tvö gátum spjallað saman á meðan, man bara alls ekki hvað hann heitir. Já á milli þess sem Dagný hringdi á Skype og Maggi líka, hann talaði við Alexandre og viðgerðamanninn í leiðinni... um Afríku og viðgerðirnar, ekki slæmt að geta verið viðstaddur úr annari heimsálfu.
Þessi gaur er frá Afríku, mjög gaman að spjalla við hann og var hann með heilmikinn fyrirlestur um þvottaefni. Fólk notaði alltof mikið sem verður til þess að það verður of mikil froða, þvottavélin ræður ekki við að koma henni allri út um götin í tromlunni og þ.a.l. verður hún eftir inni í tromlunni og allar bakteríurnar líka, fara í þvottinn og verða svo eftir í vélinni. Hann segir að þetta sé ástæðan fyrir því að vond lykt verði í vélinni og af þvottinum líka.
Semsagt, ein matskeið af þvottaefni í eina vél gerir allt sem gera þarf... þvottaefni er gert úr olíum og allskonar efnum sem vinna saman og við þurfum ekki meiri olíu í þvottinn en þá olíu sem er í þvottinum.... semsagt pínu lítið. Það var gaman að honum og greinilega mikill spekingur.
Þannig að ef vond lykt er af þvottinum ykkar = of mikið þvottaefni... speki dagsins.
Ætlaði í ræktina en svo byrjaði ég á þessari vinnu, sleppti ræktinni og er ekki einu sinni farin í sturtu enn, en ætla nú bara að skella mér í hana áður en ég held áfram.

Mér var boðið á RC meeting á mánudaginn hjá WBFN, þetta er e.k. fulltrúaráðsfundur og hélt ég í byrjun að ég hefði ekki átt að fá þetta mail, en jú sem „active member" er mér boðið, það verður einhver fyrirlestur um persónuleika og hvernig á að leysa ágreining, bara spennandi.

Fyndið líka að ég var að skoða Mosaic, sem er blað World Bank Family Network, gefið út mánaðarlega og sá þá undir upplýsingasíðunni að mitt nafn er þar undir Publication / Graphics Team... ekki slæmt. Svo las ég eina grein í blaðinu um Picnik sem var í október, þar var talað um hvernig undirbúningurinn hefði gengið og var þar Margreti (nota ekki é í nafninu hér) þakkað fyrir flotta hönnun :-) hmmmmmm maður er bara að verða frægur innan samfélagsins he, he...

Jæja ekki meira bull, ætla að skrifa sögur um MIG og sjá hvernig mér gengur að koma þessu frá mér... ef ég þekki sjálfa mig rétt þá verð ég búin að fylla hálfa síðu áður en ég veit af!

Magga


Friday, November 13, 2009

Föstudagur og leti... eða hvað

Nú er kominn enn einn föstudagur, rúm vika síðan Maggi fór og ekki nema rúmar tvær þangað til hann kemur aftur.... ekki nema segi ég, mér finnst það nú bara alveg nógu asskoti mikið.

Veðrið í dag er búið að vera ömurlegt, rigning og rok og rigning og rok og.... ekki orð um það meir. Ákvað því að halda mig bara inni í dag, það var ekkert sérstakt sem ég ÞURFTI að gera úti svo það var barasta engin ástæða til að rennblotna - jú ég ætlaði í Body Pump kl. 12...
Byrjaði á að ryksuga hér, var orðið heldur ógeðslegt. Ætlaði reyndar að bíða eftir að þvottavélaviðgerðarmaðurinn kæmi í dag... en hann sást ekki. Ryksugan er svo hávær og var ekkert að virka, þurfti því að opna hana og prófa allavega hundakúnstir til að fá þetta til að virka, loksins sogaði hún upp ruslið og ég kláraði íbúðina - alla :-) og ákvað svo að henda mér í íþróttagallann... kl. var þá orðin 11:57, djööööö var ég spæld, allt þessari ryksugu að kenna að ég missti af tímanum. Nú þá var bara að halda áfram í ræktinni (heima) og skúraði því líka, ákvað svo að halda áfram og bakaði eina smákökuuppskrift, fáum tvo matarháka um jólin svo það er ágætt að byrja á að birgja sig upp :-)
Talaði heillengi við Dagnýju á Skype og það var bara fínasta skemmtun, daman hefur áhyggjur af lögfræðinni, það er greinilega markvisst verið að fella liðið... svo margir í náminu núna. Hún er ekki beint heppin að vera þarna akkúrat núna, þó svo þetta sé sennilega gáfulegasta fjárfestingin, þ.e. að vera í námi.

Fyrst ég var komin í stuð þá ákvað ég bara að skella mér í ræktina, mér líður alltaf svoooo vel á eftir og maður keyrir sig í botn, í dag var ég í einhverju ofurformi svo ég var þarna í sennilega 2 klst, labbaði, fór á stigvélina og lyfti + haug af magaæfingum... Nú get ég fengið mér pizzu, bjór og jafnvel low fat ís með góðri samvisku.

Á morgun er svo harkan, ég ÞARF/VERÐ að klára verkefnin mín fyrir námskeiðin, fer svo á fund á mánudaginn og þarf að lesa eitthvað fyrir það líka... helgin fer sennilega í þetta :-( en OK þetta er það sem ég vildi, vinna í sjálfri mér og þá er eins gott að gera það og standa sig... og taka svo ákvörðunina stóru í restina.

Er banhungruð og er búin að kveikja á ofninum, ætla að henda einhverju ofaná frosnu pizzuna og henda mér í sturtu á meðan hún bakast. Oh no, ég var búin að setja hreinsilög í baðkarið og klósettið + vaskinn áður en ég fór í ræktina, þarf víst að þrífa þetta áður...
Þá er ég bara búin að því :-)

Meira seinna
ps. hér eru myndirnar sem ég talaði um í gær, sem ég tók á síman minn og sýnir laufin hér. Ekki góð gæði en mér tókst að senda þær á mailið mitt.

Magga

Svona lítur gatan út, þykkt lag yfir öllu og þetta orðið að grauti

Bílarnir eru löðrandi í laufum, þessi er nú bara með lítið af þeim miðað við aðra sem eru eins og auglýsing fyrir haustútsölu :-)

...og svona lítur út fyrir framan húsið okkar, það hefur ekkert verið hreinsað hér og ekki ætla ég að gera það :-) Nú er ég fegin að vera ekki húseigandi því þetta er þvílíkur viðbjóður, sérstaklega eftir að hafa gegnblotnað...

Thursday, November 12, 2009

Það rignir og rignir og rignir....

Það er búið að rigna þvílíkt hér í gær og í dag, eiginlega typiskt íslenskt haustveður... en sem betur fer ekki hellidemba eins og var í sumar. Svo eru laufblöð út um allt og núna er þetta orðið eins og grautur á gangstéttum og götum, ég er viss um að það er hálka sumsstaðar út af þessu og örugglega á gangstéttum líka. Útvarpið segir að það séu 46° á fahrenheit, sem þýðir 9 gráður... það var svoooo kalt í dag. Ég tók myndir á síman minn í dag af laufunum en þær eru ekki að skila sér í gegnum netið, verð bara að setja þær inn á morgun, ef þær skila sér yfirleitt!

Fór í ræktina í morgun, mér líður bara miklu betur ef ég fer og tek vel á því... blóðrásin kemst á fullt og svo held ég líka að maður fari í hollari mat í leiðinni.
Hinsvegar þarf ég að fara á vigina aftur, fór síðast í ágúst og fór svo í buxur í dag sem mér finnst vera heldur lausar á mér.... í mittið, kannski eru bara farin fleiri kíló!!! Það er búið að hræða mann svo mikið að fólk fitni hér, ég held það hljóti að vera liðið sem tekur upp ameríska lifnaðarhætti, snakk, hamborgarar og tilbúinn matur. Ég held að þetta samfélag sé yfirfullt af rotvarnarefnum og frosnum Fastfood... fór í búð í dag, keypti mér salat og svo aðeins efni í bakstur, er nefnilega að hugsa um að baka pínu af smákökum fyrir jólin :-) Fyrir framan mig var frekar þykk dama með þvílíkt magn af frosnum mat, örugglega 5 stk. af sömu tegund - kannski eitt á mann fyrir alla familíuna, ógeðslegt..., mig langar ekki einu sinni að lesa innihaldslýsinguna á þessum pökkum.

Kl. 12 var svo námskeið (workshop) í Networking. Leiðbeinandinn, Karin, var alveg frábær og veit nákvæmlega hvað hún er að gera og hvernig á að vekja áhuga okkar. Við eigum eftir að gera allskonar verkefni og standa upp og æfa okkur í tímum, það eru 3 tímar eftir og er ég með nokkur heimaverkefni fyrir þetta.
Svo er ég líka með heimaverkefni í ensku og Coaching, er eiginlega að drukkna í þessu akkúrat núna :-)
Ætlaði að byrja á þessu í kvöld.... en nenni því varla! en kannski harka ég af mér. Mig langar eiginlega meira að gefa mér góðan tíma í þetta á morgun og fara að mála í staðinn :-) Málaði eitt stykki mynd og tókst hún nokkuð vel, að sjálfsögðu ekki búin eeeeeeen lítur þokkalega vel út. Ég sýndi Magga hana á Skype og það heyrðist bara váááá.... ekki hlutlaus auðvitað, en ég tek samt smááááá mark á honum, á meðan það er jákvætt he, he...

Ætla að fara í Body Pump kl. 12:15 á morgun... eins gott að láta það bara vaða svo ég fari :-)

Vonandi kemur þvottavélaviðgerðarmaðurinn (langt orð) á morgun, varahlutirnir áttu að koma í dag... ég bara vona því ég er búin að vera þvottavéla og þurrkaralaus í viku, fékk lykilinn niðri hjá Alexandre og Patriziu og hef sett í tvær vélar... en það er mun þægilegra að þvo hér og geta sett í þurrkarann hér, þau eru með ameríska vél sem er með sama hitann á allan þvott... líst ekkert á það :-) Hér erum við með Sænska eðalvél (sem bara bilar) en þar er allavega hægt að stilla á mismunandi hita.

Er að útbúa mér salat og ætla svo að gera eitthvað??
kv Magga

Tuesday, November 10, 2009

Aftaka í Virginiu í kvöld

Dagurinn í dag var nokkuð góður, við Michele (enskukennarinn minn) vorum búnar að ákveða að fara saman á Get Together, sem er í heimahúsi og hittast þar ca 10 manns (makar World Bank starfsmanna) og spjalla, kynnast öðrum og smakka á einhverju skemmtilega hjá gestgjafanum. Núna var þetta hjá japanskri konu sem á Norskan mann, gaman að sjá amerískt hús að utan og japanskt að innan, hún var líka yndisleg, bauð uppá mism. te og allskonar gúmmulaði. Þarna voru ca 10 konur frá ca 7-8 löndum svo þetta var mjög gaman. Mér var hrósað fyrir enskuna og hvort ég hefði virkilega BARA verið hér síðan í júní :-)

Á eftir fórum við Michele heim til hennar og þar settumst við niður, spjölluðum og fengum okkur fínasta kaffi og eitt hvítvínsglas :-) ekki slæmt á miðjum þriðjudegi - hver segir svo að þetta sé eitthvað lúxuslíf he, he...
Þetta var fínasti einkatími í ensku og held ég að það hafi ekki verið dauð sekúnda hjá okkur. Við ætlum að hittast oftar, ýmislegt sem okkur datt í hug að gera saman og erum við að sumu leyti með svipaðan bakgrunn... Hvernig við kynntumst okkar manni og fleira :-)
Þau eru að hugsa um að hafa áramótapartý og er okkur boðið, bað mig að gera fyrir sig boðskort og ekki er það nú mikið mál. Þau hafa líka (eins og við) verið að tala um að gaman væri að hafa einhver hjón til að fara með út að borða af og til, eru barnlaus eins og við og kynntust fyrir 10 árum... hafa gaman að mat og fá sér gott vínglas - perfect...
Um jól og áramót verða dætur þeirra hjá þeim, þær eru allar (þrjár) á sama aldri og Dagný og Aron... svo þetta gæti orðið fínasta dæmi!

Það eru hinsvegar neikvæðir hlutir að gerast í dag líka - veit ekki alveg hvað ég á að segja um þetta og spyr mig hvort þetta eigi rétt á sér... Það verður bara hver að dæma fyrir sig.
Í kvöld kl. 21 að bandarískum tíma verður John Allen Muhammad tekinn af lífi í Virginiu fylki, ekki endilega vinalegt en það voru víst allir í panic þegar þetta gerðist hér, í DC, Virginiu og Maryland (jafnvel víðar) því hann fór hér um og skaut mann og annan. Hafida sem er með mér í enskutíma bjó hér þegar þetta gerðist og var m.a. eitt fórnarlambið skotið bakvið húsið hennar. Hún sagðist glöð vilja vera viðstödd aftökuna... hún er múslimi og sagði að þessi maður væri ekki múslimi þrátt fyrir Muhammad nafnið... hún hefði enga samvisku með honum. Hún lýsti því líka þegar löggan stöppaði hana fyrir of hraðan akstur einu sinni, málið var að lýst var eftir hvítum sendibíl og ferðaðist hann víst á þannig bíl til að byrja með og á eftir Hafidu var hvítur bíll og hún skíthrædd og gaf í til að losna í burtu. Fólk hringdi sín á milli og fylgdist með fréttum til að heyra hvar hann drap síðast.... fór svo út í búð strax á eftir ef það hafði ekki gerst nálægt þeim, því það bjóst við að maðurinn væri á flótta og myndi ekki kála næsta hálftíma a.m.k. Þetta hlýtur að hafa verið hrikalegt ástand og ekki hefði ég viljað vera hér þá...
Hér er hægt að lesa meira um þetta: http://en.wikipedia.org/wiki/John_Allen_Muhammad

Ég ætla nú ekki að velta mér of mikið upp úr þessu, get ekki alveg dæmt um þetta - en finnst þetta samt fregar ömurlegt... veit ekki hvort lífstíðar fangelsi eða dauðarefsing er réttmætari?

Nú ætla ég að fara aðeins yfir allt sem ég þarf að gera næstu daga og reyna að skipuleggja tíman minn aðeins, annars næ ég einfaldlega ekki að klára það sem klára þarf... á eftir að gera ÖLL verkefnin fyrir Coaching (markþjálfun) og þarf sennilega góðan tíma í þetta, Elena bað um að þetta kæmi ekki of seint til hennar svo hún hefði tíma til að lesa þetta... eins gott að klikka ekki á því :-)

Missti af Magga í kvöld á Skype :-) hann er kominn til Rwanda frá Djibouti og ætlaði að vera á Skype... ég sá mailið bara of seint möhöhöhöhö, en það tekst vonandi á morgun

Meira síðar
Magga

Monday, November 9, 2009

Being in Balance

Er búin að hlusta á 2 diska (af 6) með Dr. Wayne W. Dyer „The Essence of Being in Balance" Creating Habits to Match Your Desires... frábært að hlusta á þetta, fínasta enskuæfing og frábær boðskapur. Það er nefnilega hugarfarið sem ræður - við getum nákvæmlega það sem við viljum... bara trúa því! Smá djúpt kannski en þetta eru frábærir diskar og jákvæðnin í botni.
Sullaði málningu á strigan á meðan ég hlustaði, ekki slæm blanda það.

Fór í enskutíma í morgun, borðaði með Michele, Söru og ... man ekki hvað hún heitir. Þær eru allar enskukennarar og ég virðist vera sú eina sem mæti reglulega af nemendunum... Ástæðan núna er sú að ég nenni ekki að elda handa mér einni svo þetta er frábært og auðvitað fínasti aukatími í ensku :-)

Ég hitti Michele svo í fyrramáli, við förum saman á Get together, sem er haldið í heimahúsi nálægt henni. Það eru makar World Bank starfsmanna sem hittast reglulega heima hjá einhverjum og spjalla, hef aldrei mætt á þetta áður en Michele spurði hvort ég vildi fara með henni - auðvitað er ég til í það :-) Þarf að taka Bus hér nálægt og vona svo að ég fari í rétta átt og fari út á réttum stað.. er með leiðbeiningar frá henni, ég lendi alltaf einhvernsstaðar, hef símanúmerið hennar svo ég get alltaf fengið leiðbeiningar ef ég lendi í bulli. Hún er svo búin að bjóða mér í hádegismat heim til sín á eftir, fínt að spjalla aðeins og mér líst mjög vel á hana. Hún er fædd í Þýskalandi en hefur búið í Bretlandi í mörg ár, með breskan hreim... maðurinn hennar er breti og vinnur á sömu hæð og Maggi, fyndin tilviljun :-) Maggi spjallaði við hana um daginn líka þegar hann fékk sér Sushi með mér og við eigum örugglega eftir að hittast aftur, öll saman.
Hún ætlar að halda partý hjá sér í byrjun des. þá er Maggi kominn svo hann kemur með, nemendur + makar. Allir koma með einhvern rétt og hún sér um drykkina...
Fékk fundarboð frá forseta World Bank Family Network áðan, fundur á mánudaginn, veit ekki nákvæmlega hvaða fundur þetta er en virðist vera stjórnin og einhverjir fleiri... spyr Michele á morgun hvað þetta er.... þarf líka að sleppa enskutíma til að mæta :-) En þetta verður sennilega fínasta enskuæfing eins og allir aðrir fundir, námskeið og workshop.

Er að hita mér eina litla sneið af böku, ætla í bólið snemma - lesa eða kíkja á eina DVD...

Meira síðar
Magga

Sunday, November 8, 2009

Magnaðir tónleikar - frábær endir á góðum degi

Var að koma heim eftir frábæra tónleika, Mariza er ótrúlegur tónlistarmaður og „Fado" tónlistin er alveg mögnuð og nafnið Fado þýðir „tilfinningar og/eða örlög" eins og hún útskýrði fyrir okkur. Það var þvílík tilfinning í flutningnum og svo náði hún frábærlega til allra í salnum og fólk klappaði stóð upp og í lokin var dansað :-) Hún er greinilega þaulvön á sviði og ekki skemmir fyrir að hún er svooo flott á sviði líka, líður um í síðum kjól og lýsingin listaverk. Undirleikararnir eru greinilega af bestu sort og hún getur sennilega valið úr þeim allra bestu... og hefur greinilega gert það. Þetta var algjört nammi.
Það var stundum stutt í tárin, tilfinningarnar voru svo rosalegar og krafturinn í flutningnum og ég fór að hugsa til Jóa bróður... það var bara eitthvað sem gerðist þarna.... Ekki slæm tilfinning

Hér er hægt að hlusta á hana

Þetta er coverið á diskinum sem Maggi gaf mér fyrir nokkrum árum :-) Það er búið að hlusta nokkrum sinnum á hann og hann er einn af fáum CD sem fengu að fljóta með til USA...

Í morgun gat ég aftur sofið nokkuð lengi og var sátt við það, dagurinn var svo bara að mestu úti á svölum því hitinn fór upp í 30°C, ekki ský á himni og ekki annað hægt en að njóta blíðunnar.... mun meiri hiti en spáð var. Prjónaði, las, þambaði te, vatn og barasta slakaði hrikalega vel á.... og svitnaði!

Ég ákvað að sækja miðann minn snemma svo ég gæti sest niður og fengið mér eitt vínglas einhvernsstaðar úti fyrir tónleikana, því það var enn vel heitt... ekki gekk það nú upp, það var ekki einn einasti staður með borð úti 2-3 blokkir í kringum tónleikastaðinn, ekki einu sinni staður með vínglas yfirleit, bara hamborgarastaðir eða verslunarmiðstöð... fór þar inn og fann í lokin kaffihús, fékk mér kaffi og brownie... ullabjakk þetta var nú ekki merkilegt. Komst að því þegar ég var komin út að kaffið var hlandvolgt og kakan eins og við var að búast... ekkert spes :-( Fann mér samt bekk fyrir utan tónleikasalinn og lét mig hafa það. Salurinn sem tónleikarnir voru í var mun minni en ég bjóst við, á heimasíðunni var teikning af honum og var ég búin að ímynda mér hann mun stærri og svalir YFIR hinum sætunum... keypti mér því miða á þeim... en þetta var eins og Háskólabíó og ég fékk miða á frábærum stað, fyrir miðju á fyrstu upphækkun, hljómgæðin geggjuð og ég er einfaldlega í skýjunum :-)

Ætla að opna rauðvínsflösku og fá mér eitt glas, kannski tvö.... en svo tekur raunveruleikinn við, á eftir að klára enskuverkefni og ganga frá pakkanum sem ég þarf að senda á morgun... hrikalega er maður eitthvað óskipulagður stundum - en það er líka Í GÓÐU LAGI... ég ákvað að slaka á þessar vikur og hugsa BARA um sjálfa mig - en ekki alla aðra!!!

Sweet dreams
Magga

Saturday, November 7, 2009

Auka sumarauki í dag og á morgun

Ég svaf lengi í morgun, eða það finnst mér þegar ég sef til 10:30, ekki oft sem það gerist. Skellti mér í ræktina og tók vel á því, yndislegt að getað labbað þangað á 5 mín og farið svo heim í sturtu.
Veðrið var frábært, 18 gráðu og glampandi sól, ég settist því út á svalir með prjónana mína og sat þar örugglega í 1-2 tíma og naut þess í botn. En það þýðir ekkert að sitja bara á afturendanum svo ég ákvað að koma mér aðeins út úr húsi, rölti góðan hring og kom við í Whole Foods. Endaði með að kaupa mér risa hörpuskel í kvöldmat, keypti 4 stk. og var pökkuð eftir tvær... veit hvað verður í kvöldmatinn á morgun :-) Þessi verslun er ótrúleg, maður er alltaf að sjá eitthvað nýtt, ekki endilega að kaupa - það er bara svo gaman að skoða þarna. Það eru vörur frá öllum heimshornum, lúxusvörur og rándýrar auðvitað, en við þurfum ekki svo mikið af öllu að maður getur alveg látið þetta eftir sér, hreinar vörur og mikið af lífrænu.

Ég er búin að ætla mér að mála í nokkra daga en það hefur ekki alveg gengið upp hjá mér, bæði út af iðnaðarmönnum hér og leti í mér - en ég lét verða af því að byrja áðan, nú er bara að hafa trönurnar og græjurnar í eldhúsinu þá kemur maður sér í þetta reglulega. Er að hugsa um að plana aðeins næstu vikurnar svo ég geti gert allt sem mig langar til að gera.... sem er hellingur!

Nú er ég hinsvegar að hugsa um að skella mér í bælið með bókina mína...
Á morgun á að vera gott veður og þá ætla ég að nota daginn í útiveru.... svo eru það tónleikarnir með Marizu annað kvöld - enginn smá spenningur :-) Hún er frábær!

Góða nótt
Magga

Friday, November 6, 2009

Köld spá fyrir nóttina....

Það er heldur betur búið að spá kaldri nótt hér, 32° á fahrenheit sem er 0° á celsius grrrrrrrr það er semsagt að koma haust. Sem betur fer er ofnakerfið komið í lag en mig grunar að húseigandinn hafi slökkt í morgun svo það tekur smá tíma að hitna aftur. Gluggarnir eru ekki mjög þéttir, blæs meðfram svo þetta er aðeins öðruvísi en maður er vanur, en við lifum þetta nú af :-)

Ég skellti mér í ræktina í morgun og tók bara nokkuð vel á því, vígði nýju buxurnar mínar. Þær gömlu voru orðnar svo gamlar að það var farið að skína í gegnum þær og þurfti ég að vera í öðrum innan undir, alltof heitt.

Iðnaðarmenn voru hér á svölunum í mest allan dag (held ég) og voru að laga svalirnar, ein undirstaðan fyrir þakið (yfir svölunum) var víst farin að fúna innan frá og eins gott að gera við þetta, þakið hefði víst getað fokið í almennilegu roki. Maður hefur nú ekki beint verið að spá í þetta, bara notið þess að sitja þarna í sólinni :-) Það var orðið dimmt þegar ég kom heim svo ég sá þetta ekki almennilega, það er allavega búið að skipta um staurinn og mér sýnist þeir vera búnir að bera á allt tréverkið, ekki veitti af.

Ég skilaði af mér fyrsta verkefninu fyrir Coaching, eiginlega samningur minn við mig, hvað ég ætla að takast á við og hvernig, með tímasetningum... nú er ekki aftur snúið og hellings vinna framundan - BARA SPENNANDI

Tók eftir það góðan hring í dag, labbaði um og fór í útréttingar sem þurfti að klára. Nú er bara að leggjast í gott bað, fá sér að borða og taka rólegt kvöld - opna jafnvel einn öllara og horfa kannski á eina mynd í tölvunni - erum ekki enn búin að fá sjónvarp! Nema ég leggist bara í bólið og haldi áfram að lesa bókina góðu mmmmmmmmm eins gott að vera bara inni í svona kulda :-) segir íslendingurinn!!!

Bestu kveðjur í kuldann!
Magga

SPÁIN:

A FREEZE WARNING REMAINS IN EFFECT FROM 1 AM TO 8 AM EST SATURDAY (semsagt 1-8 um morguninn).

A FREEZE WARNING MEANS SUB-FREEZING TEMPERATURES ARE IMMINENT OR HIGHLY LIKELY. THESE CONDITIONS WILL KILL CROPS AND OTHER SENSITIVE VEGETATION.

Thursday, November 5, 2009

Home alone

Nú er hinn helmingurinn floginn í burtu, a.m.k. í nokkra daga - eða vikur... til Afríku fer hann og er mjög spenntur. Það er búið að vera mjög mikið að gera hjá honum síðustu daga og stressið í botni við undirbúning ferðarinnar, farseðillinn kom á síðustu stundu eftir breytingar og óvissu um að þetta gengi allt upp, en þetta gekk upp og hann á leiðinni.

Ég er búin að ákveða að nota tímann vel, menningarveisla hjá mér... Ætla að fara á söfn borgarinnar, sjáum til hvað ég næ mörgum. Ég ætla að nota tímann í að mála og mála, er með fullt af hugmyndum og þarf bara að koma þeim á strigann, svo er ýmislegt fleira sem ég ætla að gera og fullt af verkefnum sem ég þarf að skila á næstu viku fyrir Coaching. Ég mætti í fyrsta tímann í dag, við vorum fjórar sem mættum og ein á eftir að koma í viðbót, að vísu erfitt að missa af fyrsta tímanum sem er eiginlega undirstaðan - Elena ætlar að reyna að koma henni inní málin. Það var mjög skemmtilegur punktur sem kom upp í þessum tíma (reyndar margir) og var það að þetta er þvílíkt lúxuslíf sem við lifum hér!!! og það er alveg rétt, forréttindi að getað tekið öll þessu námskeið - frítt og allt annað sem í boði er hér. Það sem var líka forvitnilegt var að maður sá sjálfan sig í hinum, e.k. spegilmynd og það verður gaman að taka á sínum málum og sjá hvernig hinar gera það líka - maður græðir BARA á þessu...

Við byrjuðum á að teikna okkur og hvernig við sjáum okkur sjálfar... það var frábært að þurfa svo að útskýra hvað maður er að meina, setja sér markmið og hvað maður ætlar sér að gera... þetta þarf ég allt að klára og vera meðvituð um hvernig ég hugsa og hvað ég geri, „partur af programmet" :-) Mér líst hrikalega vel á þetta og vonandi er þetta endapunkturinn á því að ég geti ákveðið framhaldið hjá mér - hvað ætla ég að gera t.d. eftir áramót og áfram...

Ég er líka að fara á námskeið í „Networking", það er víst undirstaðan í atvinnuleit hér í landi... svo er enska hjá mér tvisvar í viku. Michele enskukennarinn minn stakk uppá því að við gerðum eitthvað saman, tvær. Við höfum náð skemmtilega saman og líst mér vel á það, hún er þýsk en hefur búið í Bretlandi í mörg ár - með breskan hreim :-) Hún er líka nýlega flutt hingað og þekkir ekki marga. Þetta er allt að koma... Kim er á listanum hjá mér og Lucie, frönsk stelpa með mér í ensku, hefur áhuga á að koma með í hitting - semsagt þrír grafískir hönnuðir :-) Ísland - USA - Frakkland, bara gaman að blanda svona saman og ræða málin yfir kaffibolla... eða bjór :-) Nú svo ætlum við Paula að hittast líka - spennandi umræðuefni hjá okkur síðast, höldum því vonandi áfram og sjáum hvað kemur út úr því.

Í dag kom aðili að kíkja á þvottavélina og þurrkarann, það vantar varahluti svo þetta verður óvirkt í allavega 5 daga... hlýt að lifa það af! Þurrkarinn hefur ekki virkað í viku og þvottavélin er að verða furðuleg, vatnið rétt lekur inná hana og hún í 4-5 tíma að þvo auman 30° þvott. Annars er búið að koma hitanum í lag, það rann ekki inná nema örfáa ofna hér og farið að kólna á kvöldin, hitinn farinn niður í 10° svo það er eins gott að þetta virki :-) Alexandre er að vinna í málunum á fullu og vill allt fyrir okkur gera, enda erum við ekki með nein vandræði hér og leigan borguð á réttum tíma :-)

Ég ætla að reyna að sinna þessu bloggi aðeins betur á næstu vikum og mánuðum, reyna jafnvel að setja einhverjar myndir inn, er búin að vera alltof löt að taka myndir og það er bara ekki nógu gott. Byrja á að setja inn tvær hér... sem ég tók í dag og jú aðra þeirra í gær.

Bestu kveðjur
Magga

Þetta er vinnustaðurinn hans Magga. The main complex eins og aðal byggingin er kölluð, á horni 18. og H street. Undir húsinu er risa mötuneyti með nokkrum veitingastöðum, banki, fundarsalir og heilsugæslustöð... og örugglega eitthvað fleira sem ég veit ekki um :-)
Þetta gler rými fremst, er opið uppí topp og risa gosbrunnur í miðju húsinu! Engin smá bygging, en hisvegar mætti leggja aðeins meira í skrifstofurnar... say no more!

Þessa tók ég af svölunum í dag, sól, rigningarský og regnbogi! Rigningin skellti sér í gang stuttu eftir myndatöku, en bara í smá tíma!

Monday, November 2, 2009

Allt er þegar þrennt er...

Í dag vaknaði minn maður eldsnemma, þurfti að mæta á fund kl. 8 - en ég fékk að sofa aðeins lengur... til kl. 7 :-) Ég þurfti að fara með föt í hreinsun og svo í enskutíma kl. 10.
Á leiðinni var alveg hrikalega mikil umferð (á 18. stræti), miklu meiri en venjulega. Það var búið að loka einni hliðargötunni og því mun meiri þungi þarna. Þegar ég kom að lokuðu götunni sá ég að það voru slökkviliðs- og sjúkrabílar um allt og búið að setja stigann upp að einu húsi, greinlega eitthvað í gangi...

Þessi enskutími var ekki nógu öflugur, ég var bara ekki í rétta stuðinu eða kennarinn ekki nógu undirbúinn.... en við fórum svo saman að borða niðri í mötuneytinu, Maggi kom líka og prófaði Sushi með mér... Hann hefur hingað til ekki viljað borða þetta en ég fæ mér þetta oft þarna því það er eina leiðin til að fá Sushi :-) en kannski verður bara breyting á!
Þegar við komum út var búið að girða af götuna, búið að loka henni og slökkviliðsbílar og löggur út um allt.... svona er þetta stundum hér!

Á heimleiðinn kom ég við í verslun sem selur málningu og annað efni fyrir listamenn, keypti mér striga á blindramma, stærri en ég hef verið að mála á (hélt ég) og ætla að nota næstu vikur í að mála... ætlaði í leiðinni að kíkja í íþróttabúð á 19. stræti og ath. verð á fótboltaskóm fyrir Dagnýju. Það var heldur betur harðlæst og allt í bulli í kring. Búið var að loka götunni, löggur og blikkandi bílar út um allt, greinilega búið að rýma húsið við hliðina á búðinni, sem er Vegabréfs afgreiðslan hér. Ég hef ekki hugmynd um hvað var í gangi en þetta var ekki þægileg tilfinning.... Þetta var þriðja skiptið þennan daginn sem ég kom að svona aðstæðum, this is Washington DC to day :-)

Ég komst allavega klakklaust heim, sá þá að striginn sem ég keypti var of lítill, miðað við það sem ég ætlaði að kaupa... hljóp því til baka og skipti og nú er allt tilbúið fyrir málninguna!
Fyrst ég var nú komin í gang þá ákvað ég að klára það af að versla í matinn, það var farið að vanta einhverjar nauðsynavörur... og þá verður maður að redda því.
Þegar ég loksins kom kom til baka með þvílíka þyngd af mat, bjór... og öðrum nauðsynjavörum þá var klukkan orðin 18, ótrúlegt hvernig dagarnir hverfa stundum hér.

Nú er klukkan orðin 19:15 (eða 7:15 pm eins og kanarnir nota!!) og Maggi var að hringja... er á leiðinni heim. Þar fór málningin :-( en ég byrja á morgun... ég þarf nefnilega að vera ein þegar ég mála, þarf pláss og næði...

Í fyrramálið fæ ég iðnaðarmann hingað, einhver sem húseigandinn er með í smáverkefni. Eins gott að vera þá búinn að „sjæna" sig aðeins til svo hann verði ekki hræddur :-)

Bestu kveðjur frá DC - meira síðar
Magga

Sunday, November 1, 2009

Vetrartímin er kominn

Vetrartíminn er kominn í USA sem þýðir að við erum núna 5 klst. á eftir íslenska tímanum, í staðin fyrir 4 klst. áður. En það á ekki að skipta neinu máli, bara hugsa aðeins uppá nýtt :-)

Halloween einkenndist af búningum og meira skrauti, aðallega samt að sýna sem mest af líkamanum... eiginlega mikið af keyptum búningum og því leiðinlegt til lengdar því þetta var heldur einsleitt...

Í gær var Holloween og mikið skraut og læti. Maggi byrjaði daginn á að flyta með Agnesi vinnufélaga sínum, það endaði nú með að taka allan daginn, fólk vanmetur alltaf tíman sem fer í þetta... ég fór í Macy's og skipti ferðatöskunni minni, sú sem ég keypti fyrir Íslandsferðina fór illa, það rifnaði botninn á henni. Það var ekkert mál að skipta og ég fékk litinn sem ég vildi í upphafi - græna.
Í leiðinni keypti ég kristals vínglös á útsölu og fleira sem vantaði, rölti síðan heim og svitnaði þvílíkan helling í rigningu og raka. Maggi kom heim klukkutíma seinna og var heldur betur búinn að svitna við flutningana og stressið. Hann var algjörlega búinn að vera og eins og góðri eiginkonu sæmir :-) var ég búin að láta renna í bað, froða, kerti og rauðvín beið hans þegar hann kom heim, góð slökunartónlist að auki...
Við skelltum okkur svo út til að kíka á fjörið, fengum okkur að borða á mjög skemmtilegum stað efst á 18. stræti og röltum á pub á heimleiðinni. Það var heilmikið fjör á mannskapnum og tilheyrandi fyllirí...

Annars er vikan búin að einkennast af mikilli vinnu hjá Magga, dagarnir hafa verið langir og því nógur tími hjá mér til að bralla hitt og þetta. Þvottavélin og þurrkarinn hafa verið að stríða okkur og fórum við í að kíkja á þetta eitt kvöldið, löguðum vonandi þvottavélina. Húseigandinn er að kominn í málið og þetta ætti allt að komast í lag í vikunni - vonandi... annars gengur víst allt svona hægt hér.

Maggi fékk að sofa út í morgun enda þreyttur eftir vikuna. Ég skellti í íslenskt pönnukökudeig og bakaði litla uppskrift. Pannan sem ég er með er lítil svo þetta var mini útgáfa. Nú ætlum við að fá okkur síðbúinn brunch og sjá svo til hvað við gerum í dag, það er búið að rigna að mestu síðustu daga en skýin eru eitthvað að láta sig hverfa núna svo vonandi verður sól á okkur á eftir og við getum þá farið á röltið eða eitthvað?

Bestu kveðjur
Magga