Thursday, December 31, 2009

Gleðilegt ár

Óskum ykkur öllum, fjölskyldu og vinum gleðilegs árs og vonum að árið 2010 verði það allra besta í langan tíma.... ef maður trúir því þá getur ýmislegt gott gerst.
Við erum 5 klst. á eftir ykkur svo við erum enn í okkar hversdagsfötum en það fer að koma að því að maður ákveði í hvað maður á að fara....
Dagný og Aron fóru í smá ferðalag, í verslunarmiðstöð og skoða sig meira um, ég kryddaði lambalærið sem á að vera í matinn á morgun og Maggi er að láta olíuna leka úr mótorhjólinu og ætlar að fara aftur og klára á eftir, setja nýja olíu á það og eitthvað fleira... hef nú ekki sett mig nógu vel inní það :-)
Svo förum við í partý til Michele og Peters og vonum að það verði gaman hjá okkur, vitum ekki hvað verða margir eða hvað verður gert... en það kemur bara í ljós. Ætlum að fá okkur restina af Tajine sem ég eldaði í gær (óskamatur Dagnýjar :-) og svo skellum við okkur í gang. Ég er búin að rista hnetur og krydda með arabísku kryddi og setja olivur í kryddlög og verður það mitt framlag í kvöld, þau yngri ætla að kaupa eitthvað snakk til að taka með og svo skellum við kampavínsflösku með í gjöf handa þeim... og eitthvað smá handa okkur til að væta kverkarnar!

Hafið það gott og farið vel inní nýtt ár - hafið það gott og njótið þess í tætlur, það ætlum við að gera...
Magga, Maggi, Aron og Dagný

Sunday, December 27, 2009

Chesapeake bay og Annapolis

Fórum á bílaleigubílnum til Chesapeake bay og Annapolis, enduðum í Alexandriu..... nokkrar myndir því til sönnunar... minna um texta í dag.

kv Magga og co

Chesapeake bay bridge...

Kíktum á ströndina... sól og fínasta veður en ekki endilega nógu hlýtt til að skella sér í vatnið og leggjast svo í sandinn!

Mæðgur

Saturday, December 26, 2009

Annar í jólum

Nú er kominn annar í jólum, 8 stiga hiti úti og rigning.. ekki beint jólalegt.
Við erum með bíl á leigu og ætlum að fara á þvæling í dag, reddingar og fleira, það verður sennilega ekki leiðinlegur dagur.

Á aðfangadag fóru Dagný og Aron í jólareddingar, þvældust um í lest fram og til baka og redduðu því sem redda þurfti. Við tókum það rólega, ég gerði söngskrá fyrr kvöldið og Maggi fór í bankann og prentaði út og sótti svo bílaleigubílinn. Um kvöldið fórum við svo í jólapartýið til Akins og fjölskyldu, við vorum eina hvíta fólkið þarna og það var ótrúlega gaman. Ekki var manni búið að detta í hug að það gæti verið gaman að syngja jólalög í 4 klst. Þetta var slitið í sundur með smá lestri úr biblíunni, Dagný fékk smá kafla til að lesa :-) svo var bjór, púns, matur og meiri matur og svo endaði þetta með að það var bent á einhvern og hann átti að syngja einsöng. Það voru margir vanir þarna og eftir nokkur púnsglös þá voru menn mjög viljugir að láta ljós sitt skína - með mis góðum árangri, en aðal málið var að hafa gaman og hlæja. Við vorum með 3 ísl. jólalög á pappír og sungum þau, þurftum að endurtaka tvö þeirra því fólki fannst þetta mjög gaman og reyndi að syngja með :-)
Þegar heim var komið fóru allir í mjög svo þægileg föt og opnuðum við pakkana og var farið að sofa kl. 3, takk fyrir okkur.

Í gær tókum við svo ísl. brunch, hangikjöt og tilheyrandi og fórum svo aðeins á bílnum, keyrðum um borgina og fórum svo á National Harbor, það var þvílík rigning að regnhlífarnar komu að góðum notum. Ekki endilega góður dagur í þetta en það er allt nýtt fyrir Dagnýju og Aroni svo þau höfðu sennilega bara gaman að því. Þau fóru svo út að borða á Mexíkóskum stað hér í götunni.

Nú er að lemja á dyrnar hjá þeim yngri og koma þeim á fætur svo við getum komið okkur í gang.
Læt nokkrar myndir fylgja með

kv Magga

Jólatréð stóra... og litlu börnin :-)

Ekki pláss fyrir alla í sólafnum góða!

Jólaklæðnaðurinn góði...

Capitol 25. des.

Aron og Dagný eru eiginlega pínu lítil við jólatréð við National Harbor...

Tekið aðeins nær....

Thursday, December 24, 2009

Gleðileg jól

Dagný og Aron komu hingað 21. des og náðu fluginu alla leið, sem betur fer.
Þau eru búin að þvælast hér um, fara í búðir, í dýragarðinn og eru útlærð í lestarkerfinu.... hoppa þar upp og niður.
Bestu fréttirnar sem hún fékk að morgni 22. des voru þær að Hugo litli er fundinn og kominn aftur til Elvars í Vogum. Hann var veiddur í kattabúr sennilega á vegum meindýraeyðis, hann er örmerktur svo það var hringt í Elvar. Hann sendi okkur stutt video af honum og leit hann rosalega vel út, næsta mál á dagskrá var að fara með hann til dýralæknis til að láta skoða hann aðeins. Elvar sagði að hann hefði verið skítugur en vel á sig kominn og alveg til í smá knús og kelerí, hinsvegar var hann ekki til að láta stjórna sér - enda búinn að vera eiginn herra all lengi. Sá litli er heldur betur búinn að sanna sig og ætlar Elvar að halda honum inni fram yfir jól (allavega) svo hann stingi nú ekki af strax aftur.... en þetta voru yndislegar fréttir og mikill léttir fyrir alla, besta jólagjöfin í ár. Hann var búinn að vera týndur síðan í sumar...

Í kvöld förum við í jólaboð til Akins og á að synga inn jólin, matur og eitthvað fleira, við erum búin að búa til smá plagg með þremur íslenskum jólalögum sem Maggi ætlar að prenta út... sjáum hvort við syngum þau :-)
Svo verða pakkar sennilega opnaðir þegar við komum heim og slökun hjá okkur.
Í fyrramálið ætlum við svo að borða íslenskt hangikjöt, laufabrauð (sem er í molum eftir ferðalagið frá Íslandi), kartöflur, uppstúf og heimagerðan ís :-)
Svo förum við af stað, leigjum bíl í dag og fram á sunudagskvöld svo við ætlum að sýna þeim hér í kring og gera eitthvað skemmtilegt.

Gleðileg jól og vonandi nótið þið þeirra

Magga og Maggi

Monday, December 21, 2009

Jason í mat...

Það var lokað í World Bank í dag vegna snjósins... maður hlær nú bara að þessu. En hinsvegar kann fólk enganvegin að keyra hér og spólar útúr stæðum, setur allt í botn og situr svo að sjálfsögðu pikkfast í 10cm snjó.
Já Maggi sat við tölvuna inni í herbergi og var að vinna, sá svo skugga á fullri ferð framhjá glugganum (úti á svölum) og svo hellings skruðning... svo hann fór að gá - og úti var íkorninn vinur okkar búinn að hrinda blómapottinum niður og sat á brunastiganum. Maggi fór því inn og sótt handa honum hnetur og tók svo þessar myndir af honum - hann er nú ferlega sætur... fær hnetur hér nánast daglega og vonandi geta Dagný og Aron fylgst aðeins með honum líka.

Hér er hann búinn að koma sér í stellingar með hneturnar góðu...
Þetta er sko ekkert rusl sem hann er að borða, keypt í Whole Foods sem er langt frá því að vera ódýr verslun :-)

Hér er hann svo farinn að gæða sér á möndlu - ótrúlega fljótur að gúffa þessu í sig...

Nú bíðum við eftir að Dagný og Aron lendi í Boston, það var allavega klukkutíma seinkunn á flugi Icelandair (nema hvað) og hafa þau því aðeins tæpan klukkutíma til að koma sér í vélina til DC... þá er bara að vona að amerísku flugfélögin séu ekki að standa sig með tímann - frekar en vanalega... þá reddast þetta allt :-)

Bestu kveðjur frá DC, ætla að klára jólakveðjurnar á línuna, á eftir ensku útgáfuna
Magga


Sunday, December 20, 2009

Snjómyndablogg


Snjórinn á svölunum í gær, 19. des.
Helgin fór nánast fyrir lítið, það var eiginlega bara inniveður í gær, fórum að vísu út að borða með húfu, trefil og í góðum skóm... enda óð maður sumsstaðar vel uppá miðja kálfa... :-)

Svona voru upplýsingarnar í sjónvarpinu í gær 19. des... Það gekk ALLt útá veðrið og ég held að það hafi verið neyðarástand hér. Auðvitað er fólk ekki vant þessu og fréttamennirnir kepptust um að segja frá nýjum metum, hvað mikill snjór hafi fallið hvar og bein útsending frá nokkrum vegamótum, viðtöl við fólk og þvílíkar lýsingar.
Bílar eru enganvegin útbúnir fyrir svona veður og voru sjúkrahúsin að biðja fólk á fjórhjóla bílum að bjóða sig fram til að keyra fólk til og frá sjúkrahúsum.
Lestarnar héldu ekki áætlun og stoppistöðvar ofanjarðar voru lokaðar e.h. og hitt raskaðist allt. Strætó hætti að ganga e.h. svo einhverjir hafa lent í vandræðum að komast ferða sinna.

Bílar nágrannana eftir snjóana miklu :-) Þeir hafa ekki verið hreyfðir í dag og enn smá frost. Nú er spurning hvort fólk röltir næstu dagana!!!

Ekki verður borðað við þetta borð á næstunni... Sýnir allavega snjóinn sem er hér yfir öllu. Gaman fyrir okkur íslendingana að fylgjast með þessu caosi. Maður hlær að sjálfsögðu að þessu en við erum hinsvegar vön og við öllu búin heima - en ekki fólk hér.
Munurinn á Reykjavík og Washington DC er líka þónokkur :-) ef við lítum á mannfjöldan!!!!

Þarna var aðeins meira líf í sumar - í hitanum. Hinsvegar var ofboðslega fallegt veður hér í dag svo maður kvartar ekki.

Eins og þið sjáið þá eru hriiiikalegir ruðningar!!! Ruðningsaðilarnir eru greinilega ekki vanir þessu, enda met snjór hér núna. Blaðakassarnir lágu eins og hráviður út um allt.

Ekki mikið rennsli í þessum gosbrunni í dag...
Þetta er „Dupont" torgið sem er mjög nálægt okkur og ég labba yfir nánast daglega. Í sumar sat maður hér með blað og svitnaði.

Einn flottur - þeir voru nokkrir svona á Dupont, enda ekki tækifæri að gera svona gauka á hverjum degi.

Það voru ekki allir búnir að hreinsa bílana þegar við komum heim úr gönguferð dagsins. Það voru ýmsar aðferðir notaðar til að hreinsa snjóinn af bílunum, Maggi fann til þegar menn voru með stál sköfurnar að ýta snjónum af bílþökunum, aðrir notuðu motturnar í bílunum.
Ég sjálf notaði eldhúskústinn til að moka hálfs meters snjó af útitröppunum, húseigendurnir eru ekki heima og engin skófló sýnileg... svo þetta var eina leiðin til að sjá tröppurnar. Svo veit maður ekki hver er ábyrgur ef pósturinn dettur?
Þjóðverjar eru ábyrgir fyrir slysum á þeirra stéttum...

Friday, December 18, 2009

Jólasnjór - ef hann endist

Það er farið að snjóa og á að snjóa mikið í nótt og á morgun, þeir spá „Heavy Snow" og 14°F sem eru -10° C... sjáum hvort þetta stenst.
Í dag er ég búin að vera í jólakveðjum fyrir N4 sjónvarp (Akureyri) þurfti að breyta stærðum og laga sumar, tók meira og minna daginn... money - money :-) fyrir imago, ekki slæmt.
Skrapp á pósthúsið og fór með pakkann til Bigga í Utah, það var ísl. smjör, ísl. ostar, ísl. súkkulaði og ísl. bíómyndir :-) stóð í 45 mín. í biðröð og var nánast að lognast útaf... enda vel klædd. Ein manneksja að afgreiða, mjög yfirveguð og sennilega veitti ekki af.

Dagný fór í stóra prófið sitt í dag og talaði ég við hana eftir það, reyndar fyrir það líka því hún þurfti smá andlegan stuðning frá mömmu :-)... vonum bara það besta en hún segist ekki hafa hugmynd um hvernig henni gekk, mikið af vafaatriðum og auðvelt að villast í þessum hugtökum og dómum.
Maggi karlinn sauð aspargus handa okkur áðan og fínasti matur, svo er hann farinn út með Jonathan vinnufélaga sínum, fínt að þeir fara svona einir af og til... hann er reyndar fínn og ekki málið að vera með þeim, en stundum er þetta bara frábært svona og miklu meira gaman fyrir þá að spjalla aðeins einir :-) Ég því ein heima og sjónvarðið á, er jafnvel að hugsa um að setjast aðeins í sófann góða (eða þannig) og halda áfram með trefil nr. 2, sá er úr skærgrænu eingirni. Sá sem ég er búin með er mjöööög hlýr.

Nú eru veðurfréttir í sjónvarpinu og spá þeir „snow storm" því eins gott að eiga góða trefil :-)

Njótið helgarinnar og jólaundirbúningsins
kv. frá DC
Magga

Thursday, December 17, 2009

Stór dagur á morgun...

...því Dagný fer í stóra prófið sitt og er mjög stressuð, ekki væri verra að geta verið hjá henni og knúsað hana aðeins, henni veitir ekki af andlegum stuðningi :-) En hinsvegar kemur hún á mánudagskvöldið og getum við þá dúllast hér saman.

Ýmsar reddingar í dag og rölti úti í sólinni, það er ekki beint jólalegt hér... jú aðeins en ekki snjór - bara sól!!! sem er í sjálfu sér alveg ágætt en minnir enganvegin á íslensk jól - eeeen hinsvegar erum við einfaldlega EKKI á Íslandi svo það er bara að aðlagast amerískum jólafílingi. Maður sér að fólk er farið að labba hér á milli búða og bara skoða og kaupa litla hluti, fór sjálf inní tvær hér uppi á 18 street og skoðaði aðeins. Er búin með allar jólagjafirnar svo ég var bara að forvitnast, fór til að láta smíða lykla handa Dagnýju og Aroni svo þau geti nú verið ein á þvælingi hér - komið og farið eins og þau vilja, svo það var tilvalið að kíkja aðeins inní hlýjuna hér og þar og skoða hvað væri í gangi. Fann eina búð sem er með notuð föt, ég er einhvernvegin alltaf pínu veik fyrir svona búðum - veit ekki af hverju, það er bara eitthvað spennandi við þær, kannski það sé endurvinnslan... fór að vísu ekki inní hana en hún er hér í 5 mín fjarlægð... það er ALLT hér í innan við 20 mín. göngufæri... búum á frábærum stað.

Í kvöld röltum við Maggi í Whole Foods og keyptum svona eins og 5 íslensk smjörstykki og íslenska osta + ísl. súkkulaði til að senda vini hans í Utah (sem er íslenskur).... það var semsagt VELJUM ÍSLENSKT - JÁ TAKK í kvöld :-) og ein daman í deildinni hjá Magga spurði hann hvort hann ætti meira af þessi íslenska súkkulaði sem hann kom með í gær, ásamt ostum og kexi... á jólahlaðborð deildarinnar í hádeginu í gær... við keyptum því eitt súkkulaði handa heinni í leiðinni :-) Smá markaðssetning hjá okkur - ættum að fá prósentur hjá Osta- og smjörsölunni og Síríus... nokkrar bragðprufur kannski í leiðinni :-)

Vikan hefur verið löng hjá Magga og vaknað snemma, hann mætti í spænskupróf í morgun og er bara nokkuð drjúgur með sig... hef nú ekki efasemdir þar því tungumál liggja einhvernvegin mjög vel fyrir honum, sem heyrist m.a. á íslenskunni! Ætlum því ekki að fara að sofa of seint, eeeeeeen hinsvegar er hann að lesa yfir verkefni sem þarf að skila á morgun, e.k. álit á mjög stóru jarðhitaverkefni sem World Bank er að leggja mikinn pening í og vill fá álit nokkurra aðila.

Hafi það nice og hlakkið til jólanna - og njótið þeirra líka
Magga

Wednesday, December 16, 2009

Jólaundirbúningur

Það er svo langt frá því að það sé jólalegt hér úti, glampandi sól en að kólna. En hinsvegar eru jólin víst að nálgast og við að fá gesti í 2 vikur svo maður er að reyna að gera eitthvað smá...
Um helgina leigðum við okkur bíl og keyrðum um, fórum í Best Buy og keyptum okkur sjónvarp með innbyggðu DVD, ekki slæmt að spara sér pláss :-) Sjónvarpið virkar, ég stillti það í morgun, loftnetinu er haldið með límbandi aftaná sjónvarpinu því við þorðum ekki að klippa af vírnum fyrr en við fáum aðilann frá Comcast á sunnudaginn. Við náum núna ca 2-3 stöðvum... meira en hefur verið í þessari íbúð síðasta árið.. sem voru þá núll stöðvar og núll sjónvarp :-)
Ég fór svo í leiðangur í gær, keypti borð undir sjónvarpið, lítið gervijólatré og seríur... allt komið á tilboð núna... svo var unginn minn búinn að spyrja hvort ekki yrði jólasokkur á arninum... eins og í bíómyndunu... auðvitað, ég reddaði því líka í gær. Við getum þá notað þetta næstu jól, nema við fáum sömu gestina og/eða aðra - hver veit! Það er nú ótrúlegt hvað er til, það eru til standar fyrir 4 jólasokka til að setja fyrir framan arininn, líka einhver fjölskyldusett til að hengja 4 sokka á, ég ákvað nú bara að vera nísk og kaupa einn krók fyrir tvo sokka... en er allavega á arninum... sem er í leiðinni sjónvarpsskápurinn okkar... he, he, he...

Sjónvarpið okkar komið í arininn, kertin urðu að víkja - en þetta tæki er eiginlega velkomið á heimilið... maður getur þá fylgst aðeins meira með hvað er um að vera. Fáum 80 stöðvar á sunnudaginn - minnsti pakkinn í boði, komumst auðvitað ALDREI yfir að horfa á þær allar :-)

Skrautið sem fór á jólatréð í ár er allt hægt að borða... þarf ekki að pakka neinu niður :-) Ég ákvað semsagt að gera þetta á ameríska vísu í ár - skreyta bara snemma (í gær) og reyna að ná smá fíling. Akim kom með jólarós handa okkur um daginn þegar hann kom í mat, mér hefur nú alltaf tekist að drepa þær fyrir jól!!! sjáum hvað gerist núna.

Litla nammijólatréð okkar, það vantar eiginlega eitthvað sniðugt á toppinn, ég þarf að láta mér detta eitthvað í hug... kannski bara búa til eitthvað skemmtilegt úr namminu :-) Við ætlum nefnilega ekki að kaupa eitthvað af svona dóti því við höfum ekki hugmynd um hvað við verðum lengi hér... allt okkar jóladót er heima og við getum alveg verið án þess ein jól - eða tvö.... eða...?

Í gær ryksugaði ég líka 3 ofna, þetta eru gamlir ofnar og þvílíkt ryk inni á milli, hlýtur að verða betra loft hér. Svo breytti ég gestaherberginu og snéri öllu við, rúmfötin eru í þvottavélinni svo þetta verður tilbúið fyrir helgi - ekki slæmt að klára svona. Það gæti jafnvel orðið vinna hjá mér á fimmtudag og föstudag... en öll námskeið búin í bili. Fínt að fá svona frí og geta bara dúllað sér.
Hinsvegar er eitt verkefni eftir - það er alltaf það erfiðasta... jólagjöf handa Magga!!! Er komin smá af henni en þarf aðeins að fara í brainstorming með restina :-)

Hafið það nice og njótið jólaundirbúningsins
kv Magga

Saturday, December 12, 2009

Forsetamatur...

Í gærkvöldi fórum við á heljarinnar dæmi í World Bank, man nú ekki hvort þetta var kallar Holiday partý eða hvað, allavega matur, vín, skemmtiatriði og hrikalegur fjöldi af fólki. Það voru hljómsveitir og tónlistaratriði á þremur stöðum (sölum), matur og vín á nokrum stöðum og þvílíkur troðningur af fólki að þetta var eins og pakaðri lestarstöð... endalausar raðir og fínerí. En gaman að sjá þetta og prófa að mæta á svona. Við hitum allskonar fólk og spjölluðum við marga.
Í dag leigðum við bíl og skilum á morgun, við byrjuðum á að skutla Agnesi vinnfélaga Magga út á flugvöll, hún er á leiðinni heim til Uganda fram yfir áramót og þvílíkur farangur.... gjafr og meiri gjafir :-)
Svo héldum við áfram og enduðum í Culpepper og borðuðum á veitingastað sem við fórum á í sumar, fyrrverandi kokkur í Hvíta húsinu, kokkur Reagans. Fengum okkur austurrískan mat og keyrðum svo heim. Fyndið var að stelpa sem vinnur þarna mundi eftir okkur frá í sumar, að við hefðum verið á mótorhjóli... ekki slæmt.

Nú ætlum við að kíkja á video og svo zzz

knús frá DC
Magga og Maggi

Friday, December 11, 2009

Frost - kannski veturinn sé að koma?

Það var hriiiiikalega kalt í gærkvöldi, nálægt frostmarki og mikill kaldur vindur grrr. Nún er heinsvegar heiðskýrt, glampandi sól og -3°C, veturinn er kannski bara að fara að láta sjá sig með tilheyrandi kulda, allavega miðað við reynslu mína hér í janúar í fyrra :-)
Í gær var vinna hjá mér fyrir imago, námskeið og svo meiri vinna... Maggi kom heim kl. 9 í gærköldi og hafa dagarnir verið langir núna. Hans verkefni (plan) var samþykkt á miðvikudaginn yyyyhhhhaaaaa og fórum við því út að borða með félaga hans og héldum uppá þetta.

Sá hinn sami er búinn að bjóða okkur heim til sín á aðfangadagskvöld, matur, einhverjir drykkir og svo sungið. Þetta er hefð sem hann hefur haldið í mörg ár og býður til sín ca 15 fjölskyldum, hann hélt að það yrðu 30-50 manns. Dagný og Aron eru búin að samþykkja að halda jólin aðeins á ameríska vísu svo við ætlum að mæta. Því ekki að upplifa jól heimamanna hér og ýta okkar hefðum aðeins til hliðar - tækifærið er núna.

Það eru bara 10 dagar þangað til Dagný og Aron koma og verður ekki leiðinlegt, hún sendir mér skilaboð daglega og telur niður :-)

Nú er það morgunmatur og svo vinna, vinna, vinna.... jólatörnin í smærri mynd en venjulega... en það er líka 2009 :-)

Í kvöld förum við á eitthvað jóladæmi, matur og fleira... veit ekki nógu mikið. Þetta er allavega í aðal byggingunni á stóru miðsvæði og veit ég um fólk sem fór síðasta föstudag og hrikalegur fjöldi af fólki - við hverju bjóst fólk... það vinna þúsundir manna þarna!!!

Vetrarkveðjur frá DC :-)
Magga

Monday, December 7, 2009

Jólakortin farin í póst

Þegar ég var búin í enskutímanum í morgun fór ég á pósthúsið með restina af jólagjöfunum til Ísland og Þýskalands... plús jólakortin. Ég stóð í hálftíma í röð, það voru greinilega fleiri að klára málin :-)

Annars er dagurinn búinn að fara í vinnu fyrir imago, auglýsingar fyrir Extra, eða N4 dagskrá eins og hún heitir víst núna, er með 7 síður í blaðinu þessa vikuna. Það eykst alltaf hjá þeim fyrir jólin og vantaði smá aðstoð, ekki málið að gera nokkrar svona af og til og heldur manni í þjálfun.

Svo er Coaching á morgun og meiri vinna...
Í dag kom þetta flotta jólakort frá Mohan á Indlandi, það er strákurinn sem ég styrki þar, hann er fæddur 1998 og gengur vel í skólanum, hefur áhuga á tónlist og teikningum - ekki slæmt. Ég fór og keypti jólakort handa honum, ekki beint jóla en allavega til að senda honum, svo þegar ég kom heim þá var kortið frá honum komið. fyndið. Það eru auðvitað ekki jól hjá honum en hef alltaf sent honum smá kveðju og límmiða um jólin. Hann sagði að þau væru með mynd af forsetanum okkar uppi á vegg... það er meira en ég geri :-)

Nú ætla ég að vinna aðeins fyrir tíman á morgun og fara svo snemma í bólið, eiginlega drulluþreytt og ekki búin að vera í neinu superformi í dag. Maggi kom heim kl. 9 í köld, langur dagur hjá honum og er hann byrjaður að vinna hér heima líka - engin miskunn þar...

Hafið það gott
kv Magga

Sunday, December 6, 2009

Veturinn kominn?

Nú er spurning hvort veturinn er kominn hér í DC, í gær snjóaði og hitinn var rétt um frostmark seint í gærkvöldi / nótt. Það er allavega helv... kalt úti.

Í gærkvöldi fórum við í partý hjá Michele og Pete, þetta var ágætt og blandaður hópur. Vegna snjókomu afboðuðu nokkrir sig m.a. frá Perú, Argentínu og Marokkó... þeir sem mættu voru frá Frakklandi, Íslandi, Víetnam, Þýskalandi, Kanada og Bretlandi... segir kannski eitthvað um löndin.
Það komu allir með einhverja rétti frá sínum löndum, salat, brauð, graflax frá Íslandi (allavega ísl. uppskrift), franskur búðingur (kaka) og svo prófuðum við í fyrsta skipti pumpkin-pie... bara nokkuð gott. Þegar var farið að líða á köldið þá komum við Maggi með TROMPIÐ... hákarl og frosið brennivín... Það lyktaði allt mjög vel þarna (eins og þið getir rétt ímyndað ykkur) og bretinn kallaði „it smells like public toilet"... það létu sig samt allir hafa það að prófa einn bita og sopa af brennivíni á eftir. Maggi útskýrði vel hvernig þetta væri gert og við sögðum þeim líka að þó þau kæmu til landsins þá væri ekki endilega víst að þau kæmust í svona, ekki endilega á veitingastöðum.... semsagt tækifærið þeirra þarna í gær :-) Ég held að þau eigi eftir að muna eftir þessu og frakkinn ætlaði að Googla þetta til að vita meira.

Í dag var rólegur dagur, pökkuðum inn jólagjöfum, skrifuðum jólakort og svo er búin að vera vinna og allskona smáreddingar. Ágætt að taka einn svona dag af og til. Nú ætlum við að skríða í bólið, Maggi er að drukkna í lesefni fyrir vinnuna, þarf að skila áliti á allskonar skýrslum og verkefnum, ásamt því að klára stórt mál í þessari viku!!!

Við spjölluðum við pabba, mömmu og ömmu á Skype, Maggi hafði ekki séð eða heyrt í ömmu í marga mánuði (allavega vikur :-) svo þetta var fínt. Skypið var hinsvegar að stríða mér og Dagnýju svo við gáfumst upp.

Við vorum að átta okkur á því að það eru bara 2 vikur þangað til Dagný og Aron koma... ekki slæmt, hlökkum til að sjá þau.
Smelli hér inn einni mynd frá í gærkvöldi. Myndavélin gleymdist algjörlega og hefði verið gaman að ná myndum af „hákarla-smakkinu" :-) því svipurinn var yndislegur á sumum....

kv Magga

Maggi, Lucie og hennar maður Paul (bæði frá Frakklandi) og Phi frá Víetnam, hún er gift norðmanni sem var ekki á svæðinu.

Saturday, December 5, 2009

Fyrsti snjórinn í DC

Jæja þá kom að því... snjókoma - en hinsvegar er hiti sem fylgir þessu og því festist hann nú ekki mikið.
Fengum vinnufélaga Magga í mat í gær og erum sjálf að fara í partý í kvöld, enskuhópurinn minn.

Nú er verið að fara yfir fjármál, jólamál og annað sem hefur setið á hakanum.... Reikningar okkar malla víst áfram á Íslandi og þarf að borga, borga, borga....

Set inn tvær myndir sem ég tók hér úti á svölum - bara uppá grín!

kv Magga

Svona líta bílarnir út hér á bakvið húsið okkar... þvílíkur snjór :-)
Ég verð nú samt að viðurkenna að ég er alveg til í að vera laus við snjóinn hér..

Snjórinn á svölunum á næsta húsi - maður brosir nú bara :-)

Thursday, December 3, 2009

Vikan að verða búin

Nú er fimmtudagskvöld og vikan að verða búin, þetta er ótrúlegt.
Maggi kom heim í gærkvöldi kl. 8 eftir smá gleði-gleði með samstarfsmönnum á vinnustaðnum. Hann var svo þreyttur að það var ekki mögulegt að vekja hann eftir klukkutíma eins og hann bað mig um.. svaf því í rúma 10 klst... veitti sennilega ekki af.

Í morgun var enskunámskeið og svo beint á Networking námskeið, þar gekk mín kynning vonum framar, áttum að halda 30 sek. kynningu á okkur, fékk þá einkunn frá öllum að ég væri mjög örugg í kynningu en vantaði í restina hjá mér að segja betur frá HVAÐ ég ætlaði að gera... en það er einmitt málið, ég er enn að vinna í því :-) Við áttum semsagt að gefa öllum skriflega og auga-fyrir-auga einkunn... jákvætt og hvað mætti laga. Maður er greinilega góður leikari - eða þarf bara að trúa þessu :-) Var komin heim um 3 og búin að vera í mailinu mínu að klára ýmisl mál. Ætlaði að leggjast aðeins niður og slaka vel á... er ekki enn farin í það! Svvona enda dagarnir alltof oft hér, maður er á fullu og hvorki málar eða fer í hugmyndavinnu :-( en þetta kemur.

Er að gera sósu núna og ætla að steikja smá nautakjöt og gott salat á undan... það var til ein stór bökkunarkartafla og hún er að dúlla sér í ofninum :-) Maggi var að hringja og er á leiðinni heim... ætla að klára þetta - meira síðar

Magga

Tuesday, December 1, 2009

Maggi kominn heim

Ekki slæmt að fá hann heim aftur eftir tæpar 4 vikur...

Við ákváðum að sofa aðeins út í morgun, enda þreyttur maður sem kom heim. Ég mætti á fund kl. 11 út af Book Project hjá WBFN og Maggi fór í vinnuna á sama tíma. Fundurinn gekk vel hjá mér og var þarna önnur manneskja sem ætlar að fara í hugmyndavinnu með mér, hún er með BA í Visual Art og verður gaman að prófa að fara í svona vinnu með öðrum. Við ætlum að hittast morgun eftir enskutíman minn og skoða þetta.

Ég kíkti við í málningabúðinni á leið heim og keypti tvo striga, hugmyndir í gangi... pantaði mér klippingu og litun á föstudaginn, heldur betur kominn tími á það. Ég kom líka við í verslun sem heitir PENGEA og er á vegum IFC (International Finance Corporation) og er þetta verslun sem er með vörur frá þróunarlöndunum, flottar vörur og margar hugmyndir sem ég fékk þarna inni. Fór því heim og í smá hugmyndavinnu... er með bók sem ég skrifa inn hugmyndir og verður gaman að byrja að vinna úr þessu síðar, sennilega ekki fyrr en eftir áramót... eða hvað!

Nú er marokkóska súpan að verða nógu heit til að byrja á henni, búin að hita brauð og íslenska smjörið komið á borðið... nú er bara að bíða eftir að Maggi sé búinn í símanum, þá fáum við okkur að borða og tökum því svo rólega í kvöld. Minn maður er þreyttur eftir ferðina og er jafnvel að fá kvef... sem er mjög typiskt eftir svona ferð - loksins þegar hann fer að slaka aðeins. Hinsvegar er botnlaus vinna framundan og nóg að gera hjá honum.

Meira seinna
Magga

Sunday, November 29, 2009

Einn dagur...

...þangað til minn kemur heim :-)
Af því tilefni ákvað ég að þrífa aðeins hér, það voru strigar, litir og málningardót út um allt, er búin að nota síðustu daga í að mála og mála. Smá slettur á gólfinu og fleira sem mátti alveg þrífa og eldhúsvaskurinn ekki til fyrirmyndar - en fínasta efni á heimilinu sem hreinlega eyðir öllu svona.

Byrjaði samt á að fá mér kaffibolla í sólinni, um 20°C í dag og því yndislega hlý sólin. Þá var ryksugan tekin fram og látin hamast á gólfinu, fyrst ég var byrjuð þá skúraði ég líka og jú þvoði klósett, vask og sturtuna... tók þá veggflísarnar í leiðinni, svona er maður duglegur.
Svo er þvottavélin búin að malla á rúmfötum og fleiru í dag, alltaf yndislegt að skipta á rúminu :-) Ég fékk mér fínan (mjög) síðbúinn brunch og skellti mér út á röltið eftir góða sturtu og dúllerí og Skype spjall við pabba, mömmu og ömmu, sem var í mat hjá þeim eftir laufabrauðsgerðina, harkan þar.
Það var fínasta veður, bjart og hlýtt og ég hefði alveg mátt klæða mig minna, maður vanmetur hitann of oft hér... Ég endaði í Macy's og gerði góðan díl á svörtum háum stígvélum, er búin að skoða út um allt en aldrei fundið... en þarna voru þau bara á útsölu og auka -$25... ekki slæmt, trítlaði því alsæl heim og spjallaði svo við Dagnýju og Magga á Skype. Þau voru að koma af jólahlaðborði á Einari Ben með Heiðu og co, hálf afvelta af ofáti :-) Laufabrauð og alles mmmmmmmmm væri alveg til í það. Dagný ætlar að kaupa fyrir mig laufabrauð og koma með hingað um jólin, smá íslenst :-)
Búin að strauja og prjóna á meðan ég horfði á eina mynd í tölvunni og ætla að fá mér smá í svanginn því ég hef algjörlega gleymt að borða síðan um hádegi... ekki gott.

Meira síðar
Magga

Friday, November 27, 2009

Magga málar..

Fór í málnngabúðina eftir hádegi og er svo búin að vera að mála meira og minna í dag og í kvöld, kemur nú fljótlega að því að ég kíki í bólið.
Maggi er á Íslandi hjá Heiðu og fjölskyldu, náði aðeins í hann á Skype en sambandið var svo sæmt á Selfossi... að ég gafst upp, allavega gott hlóðið í honum. Hann verður þarna á morgun og fer svo til Dagnýjar á sunnudag og svo looooksins til mín á mánudaginn, ekki slæmt eftir tæpar 4 vikur.

Í dag er svokallaður „Black Friday" og virðist allt ganga útá að VERSLA, það eru endalausar auglýsingar frá verslunum í útvarpinu, útsölur, tilboð og allkonar bull. Það var líka sagt frá því að það væri umferðaröngþveiti í kvingum verslunarmiðstöðvarnar í úthverfunum - mikið er ég fegin að þurfa ekki að taka þátt í þessu. Miðborgin var nánast eins og draugaborg í dag, greinilega allir að keppast við að fara í Mallin :-) Líka eins gott að vera inni - það er svoooo kalt hér, var sól, rok og rigning í dag, sá þarna uppi gat greinilega ekki ákveðið sig :-)

Á morgun ætla ég svo að halda áfram að mála, keypti nefnilega nýtt efni i dag sem ég er að prófa og það þarf að þorna í nótt svo ég geti málað yfir...
Svona í gríni set ég inn fyrstu myndina sem ég gerði hér í DC, algjörlega nafnlaus (án titils :-) og engar nánari útskýringar.


Hafið það gott um helgina, ég ætla að gera það
kv Magga

Thursday, November 26, 2009

Thanksgiving

Þá rann þessi dagur upp, svaf lengi (las til 2 í gærkvöldi...)... fór svo í ræktina og rakst þar á útsendingu frá skrúðgöngu Macy's í New York, á einni sjónvarpsstöðinni, æi ekki endilega spennandi... allt svo gervilegt og plastlegt - auðvitað STÓRT og amerískt :-) Þá veit ég það og fer þá frekar á almennilegt Carnival til Brasilíu einhverntíman... og sé almennilega heimatilbúna, skrautlega og ekta vagna :-) Þetta er alveg eins á ferðamannastöðum hér, allt tilbúið, lækir og gosbrunnar með grænu, bláu eða fjólubláu vatni... frekar gervilegt og EKKERT náttúrulegt :-( Klettar steyptir og málaðir og frekar „sorglegt" eins og einhver myndi segja!

Á leiðinni heim keypti ég Washington Post til að ath. hvort eitthvað væri um að vera í dag - EKKERT þar.
Eftir heita sturtu og fínan morgunmat ákvað ég samt að fara aðeins út að rölta og sjá hvort ég rækist á eitthvað hér í nágrenninu, fór niður 18. stræti - EKKERT í gangi, einstaka bílar og fólk á ferð, sennilega svona afgangslið eins og ég sem er eitt heima og hefur EKKERT annað að gera en að athuga hvort sé eitthvað um að vera :-)
Jú nokkrir spariklkæddir á leið í veislu. Ég tók því hægri beygju inní K stræti og upp 19. stræti til baka. Allt var lokað m.a.s. kaffihúsið eeeeeen það var ein bókabúð opin svo ég ákvað að kíkja þangað inn og fletta bókum - ELSKA BÆKUR, hef kanski tekið það fram hér áður :-)
Ég endaði með (eftir ca klukkutíma fletterí) að kaupa mér eina bók um endurvinnslu, allskonar hlutir gerðir úr allskonar efni ($22), mjög margar hugmyndir sem mætti þróa áfram eða nota á annan hátt - hugmyndir, hugmyndir, hugmyndir... ég er greinilega að safna í sarpinn, á leiðinni út voru DVD myndir á $6, ein Richard Gere mynd fékk að fljóta með :-)

Eftir þetta ákvað ég bara að spara mér 3ja rétta Thanksgiving matseðil sem ég sá auglýstan á Connection Avenue.... $20 þar + vínglas... komið í sama verð og það sem ég freistaðist til að kaupa áðan :-) he, he... græddi þar!!! og eins og Dagný myndi segja „frekar sorglegt að sitja þar ein á svona degi" :-)
Nú ætla ég semsagt að skella svokallaðri „Thanksgiving-pissu" í ofninn (hún fær bara þetta flotta nafn í tilefni dagsins, laukur, ostur og svo eru til sveppir hér líka :-), fletta bókinni góðu, horfa á myndina og njóta þess að vera hér inni - undir sæng í þessum skítakulda sem er úti... mmmmm enda er ég hrikalega löt, það er búið að vera mjög grátt og dimmt hér í dag og BARA veður til að kúra undir sæng. Það verður líka einhver Thanksgiving útsending á útvarpsstöðinni OKKAR, gamlar og nýjar... gaman að heyra hvernig það verður.
Maggi er sennilega í loftinu núna á leið til London, svo er það Ísland á morgun.... heyri þá vonandi í honum

Thanksgiving greetings from DC
Magga

Fór ekki út úr húsi í dag!

Í dag var einn af þeim fáum dögum sem ég fór ekki út úr húsi, fór ekki í ræktina en hafði nóg að gera.
Svaf til 10 í morgun, sem gerist ekki oft - horfði nefnilega á mynd í gærkvöldi og fór ekki að sofa fyrr en kl. 2... Það var haugur af leiðindarverkefnum sem biðu mín í dag.
Kláraði bókhald imago, launatengd gjöld, gerði vaskinn fyrir desember og búin að skila því inn, á heilar 1.000 kr. inni hjá íslenska ríkinu :-) vá enginn smá gróði það. Svo gerði ég verkefni fyrir fyrir Coaching og sendi önnur verkefni sem ég var búin að lofa. Sendi líka tilboð til Íslands sem ég var bein um, í jólablað á Akureyri... Þetta tók allt sinn tíma og hitaði ég mér svo pastarétt síðan um daginn, sem ég átti í frysti - bara nokkuð góður :-)

Á morgun bíða mín nokkur mail og þá er tossalistinn farinn að minnka allverulega. Þarf líka að fara yfir mail og skjöl sem ég fékk fyrir fund hjá WBFN á þriðjudaginn.

Thanksgiving er hér í USA á morgun, nú er slæmt að hafa ekki sjónvarp því það er örugglega eitthvað um að vera þar... m.a hin árlega skrúðganga Macy's í New York, en ég ætla að ná mér í dagblað og sjá hvort ekki er eitthvað um að vera. Mér skilst að þessi dagur gangi mikið útá þeirra „football" og margir leikir í skólum og hópum. Þetta er víst heljarinnar dagur og mjög mikilvægur hjá fólki hér, kalkúnninn úttroðinn af einhverjum fyllingum og meðlæti af bestu gerð + pumpkin-pie. Verslanir eru fullar af þessum hormóna ofvöxnu skepnum, fyllingum og cranberries þetta og hitt... Þessi hefð er ekki mjög gömul hér, síðan 1941 minnir mig en heldur betur gert mikið úr þessu og verslanir keppast við að auglýsa tilboð - eins alla aðra hátíðsdaga... ég held að ég hafi aldrei upplifað eins mikið af auglýsingamennsku og tilboðum eins og hér, endalausir tilboðsdaga í tilefni af þessu og hinu....

Hér hefur einhver verið að dunda sér við að útbúa hinn fullkomna „Crispy Thanksgiving Turkey :-)"

Kannski get ég fengið mér einhvern Thanksgiving mat á veitingastað á morgun til að fá einhvern smá fíling! Við Maggi vorum búin að plana að gera eitthvað þessa helgi en svo var Íslandið góða tekið framyfir... en þá bara næst :-) Mér skilst líka að það sé hræðilegt að ferðast þessa helgi, flugvellir yfirfullir og í Washington Post í vikunni voru sýndar nokkrar góðar leiðir til að komast hjá umferðatöfum út úr borginni... sennilega ástæða fyrir því :-)

Ég spjallaði við Dagnýju á Skype og náði aðeins í Magga á Skype líka, kl. var 3 um nótt hjá honum og hann að koma heim og ákvað að kveikja rétt aðeins :-) við urðum að hvísla því hann er á vonlausu hóteli í Nairobi (Kenya) eins og hann lýsir þessu, heyrist allt á milli herbergja. Þarna eru einhverjir íslendingar sem fara með sömu vél til Íslands og fór hann með þeim út.
Mér heyrist hann vera orðinn ansi þreyttur eftir 3ja vikna ferð og endalausa fundi, flug og misjöfn hótel, hann sefur sennilega vært í kyrrðinni á Selfossi :-) og nýtur þess að fara í smá afaleik. Svo hittir hann Dagnýju á sunnudaginn og loooooksins fæ ég hann heim á mánudagskvöldið, verð eiginlegag að viðurkenna að ég er farin að sakna hans.... eiginlega nokkuð mikið.

Kl. er að verða 1 og er ég því að hugsa um að hætta þessu núna, koma mér í bólið lesa aðeins og svo zzzzzzzzzzzz

Góða nótt og meira síðar
Magga

Tuesday, November 24, 2009

Þreytt Magga...

Jæja þá er þessi dagur að verða búinn, vaknað alltof snemma í morgun - var nefnilega ákveðin í að láta klukkuna ekki hringja - bara sofa... en helv... ruslabíllinn byrjaði með látum eldsnemma.
Ég er svo eina ferðina enn að fara seinna að sofa en ég ætlaði... og fór ekkert í listann minn langa í dag, en hann fer víst ekkert og það kemur annar dagur eftir þennan dag.
Kláraði að pakka inn pökkum til Íslands og kom þessu á pósthús 5 mín fyrir lokun. Kassinn reyndist vera 11 kg. ekki furða þó ég hafi gefist uppá að labba með hann og húkkaði Taxa hér rétt hjá :-) Fegin að þetta er farið og allt í einu orðið heilmikið pláss hér í stofunni :-) ekki barnaföt og skór út um allt.

Ég byrjaði daginn í ræktinni (tæpl. 2 klst...) og kom svo við í vínbúð (selja sterkari vín þar) og keypti Brandy til að setja í jóla/ávaxtakökuna. Brytjaði alla þurrkuðu ávextina og skellti þeim í bleyti í vökvann góða... þetta þurfti að standa í 4 klst. Gat því klárað pakkana á meðan og farið á pósthúsið. Þegar ég kom til baka fór ég í að malla kökuna og hún þurfti að bakast í 3 klst.... tókst bara nokkuð vel - vona ég.
Notaði tímann í að klára trefilinn úr eingirninu sem ég byrjaði á fyrir mánuði síðan, ekkert smá fegin að hann er búinn - hætti ekki í dag fyrr en ég var BÚIN.
Fékk fyrirspurn um tvö verkefni í dag, á Íslandi, þarf að skella saman einhverju tilboði á morgun. Er búin að vera svo róleg í þessu síðan ég kom hingað að það þarf heljarinnar átak til að setjast yfir þetta - nákvæmlega eins og bókhald Imago... en þetta er víst enn hluti af mínu lífi svo ég klára þetta.
Er með fullt af hugmyndum og nota vonandi Imago síðar í að koma þessum hlutum á framfæri.
Fékk líka mail í dag um samkeppni... ætla að skoða þetta aðeins og jafnvel taka þátt!

Fékk símhringingu frá WBFN, hvort ég gæti mætt á fund með þeim á þriðjudaginn, það er eitt heljarinnar verkefni að fara í gang :-) Book Project sem þær eru með og vantar allt kynningarefni, var búin að hitta þær og samþykkja að gera þetta - nú er komið að því!

Nú ætla ég í bólið, kláraði bókina í gær svo kannski kíki ég aðeins á einhverja mynd - ekki ólíklegt að ég sofni yfir henni :-)

Þangað til næst... hafið það gott
kveðja frá DC
Magga

Monday, November 23, 2009

Vika eftir...

...þangað til minn maður kemur loooooksins heim!
Ég snoozaði nokkrum sinnum á vekjaraklukkunni, líkaminn var greinilega ekki tilbúinn að vakna kl. 7, ég gat nefnilega ekki hætt að lesa í gær og kl. var að verða 2 þegar ég loksins lokaði augunum.
Fór og lét prenta út fyrir mig ensku kynninguna og hélt minn fyrirlestur kl. 10, gekk fínt og þetta tók sennilega 20 mín. með allskonar spurningum og umræðu. Tók fyrir jólasveinana 13 og aðeins um íslenskar jólahefðir... Borðuðum svo saman í hádeginu og hélt ég svo heima á leið, mígandi rigning og ógeð, en ég varð að fara með tölvuna heim því ekki ætlaði ég að bera hana í allan dag...

En það var ekkert væl - fór út aftur og í Macy's, keypti jólabuxurnar á frændur mína og jólakjólinn á litlu prinsessuna, ferlega flottur. Svo var skóbúð og þar voru íþróttaskór keyptir og ég kooooolféll fyrir litlum hvítum prinsessu skóm :-) smá fyrir-jólaglaðningur frá Möggu frænku...
Ég var orðin svooooo hungruð eftir þetta að ég henti mér inná McDonalds, hef ALDREI farið þar inn áður (jú ég lýg því, við Maggi fórum einu sinni í North Carolina til að komast í skjól og fá smá salt við vökvatapinu... vorum þá á hjólinu í 40° hita :-) en OK ég sagði bara eins og var „ég kann ekkert á þetta, vantar lítinn hamborgara og smá af frönskum" hann reddaði þessu og ég borgaði $ 2.40. Nú skil ég af hverju fólk étur þarna OFT... þetta er náttúrlega hundódýrt miðað við allt annað hér... meðal máltíð í mötuneyti World Bank er $ 6-10.... en ég vildi hinsvegar ekki borða þarna oft, fékk á tilfinninguna að ég væri að borða ALLT sem ég ætti ekki að borða, alla þessa fitu, hvítt brauð og örugglega hromónasprautað kjöt!!! En maður þarf nú stundum að sukka :-)

Kom ekki heim fyrr en hálf sjö og er búin að hlusta á CD (fyrirlestur), prjóna og ætla að reyna að koma mér í bólið snemma og klára að lesa bókina mína.
Á morgun er langur minnislisti, ekkert námskeið en það er hellingur af smámálum sem ég er búin að ýta á undan mér... nú svo bíður hvítur strigi eftir að ég BYRJI að mála á hann, reyndar fleiri... fullt af hugmyndum en ég þarf að hafa tíma og vera slök og upplögð svo ég njóti þess.

„Have a good one", eins og yngra liðið segir alltaf hér (og eldra auðvitað líka)... fólk er hætt að nenna að segja „Have a nice day" og allt þetta vanalega... sennilega svipað og í íslenskunni! Þetta er að sjálfsögðu ekkert styttra, bara meira „töff" :-)

Magga þreytta zzzzzzzzzzzzzz

Sunday, November 22, 2009

Handmade Nation

Í gær var leeeeeeti dagur og eins og ég hafi ekki gert neitt, en samt ýmislegt... ræktin, verslaði í matinn og las hér heima. Ýmis smáverkefni sem þufti að klára og undirbúa. Kláraði slide showið fyrir enskuna en var of sein með þetta i prentun, verð því að fara mjög snemma á mánudagsmorguninn með þetta i prentun - fyrir tímann sem byrjar kl. 10. Eldaði mér í fyrsta skipti í langan tíma, pasta og góða kjötsósu mmmmmmm

Í dag var ég búin að ákveða að fara á mynd sem sýnd var í Renwick Gallery, kl. 2. Þessi mynd var alveg frábær, heitir „Handmade Nation" og er um handverksfólk, listamen og hönnuði sem eru að gera ýmsa hluti, endurvinnsla og margt mjög spennandi - ég fór út uppfull af hugmyndum.

Coverið á myndnni. Fann heimasíðuna og þar er ýmislegt líka...

Skoðaði sýningarnar sem voru í safninu og margt skemmtilegt þar, ég held að þeir kalli þetta gallery „American Craft Gallery" og þannig voru líka sýningarnar, allskonar hlutir gerðir úr öllum mögulegum efnum. Einhvernvegin endaði ég í versluninni þeirra á leiðinni út, fór að sjálfsögðu að skoða þar, margar áhugaverðar bækur og bókasjúklingurinn freistaðist til að kaupa eina bók um bókagerð... nákvæmlega bókin sem ég er búin að leita að... allavega einhvernvegin svona bók. Ætla að skella mér með hana í bólið og skoða hana aftur - fullt af skemmtilegum hugmyndum þar!

Ég eldaði mér laukböku áðan, veit ekki hvað er komið yfir mig... það voru eggjahvítur afgangs svo ég ákvað að skella í eina smákökuuppskrift, setti Cappuchino duft útí og byrjaði að hræra... ekki þeyttist þetta eins og það átti að gera - svo ég bætti bara smjöri, hveiti og því sem venjulega fer í smákökur.... vissi nákvæmlega EKKERT hvað ég var að gera, átti hvítt súkkulaði svo það for líka samanvið, útkoman var hinsvegar mjög góð en engin uppskrift til :-)

Svo opnaði ég rauðvín, settist með hinn endalausa trefil fyrir framan tölvuna og horfði á myndina „The curious case of Benjamin Button" ekki nema 2 tímar og 40 mín... en það var ekkert hægt að hætta og ég prjónaði haug....

Nú er það bólið - bókin og svo zzzzzzzzzzzzz
Á morgun ætla ég að reyna að byrja á ræktinni og fara svo í Target með innkaupalistann frá Heiðu og Dadda... barnaföt!

Góða nótt - kl. er orðin 01:13... og ég þykist ætla að taka daginn snemma!!!
Magga

Thursday, November 19, 2009

Grillaður heili!

Ég er algjörlega búin eftir þennan dag, byrjaði á Coaching kl. 10 í morgun til kl. 13:30, þá hlupum við Karin yfir í næstu World Bank byggingu á Networking námskeið í klukkutíma... svo ég var komin út kl. 15 með grillaðan heila...
Eftir það fór ég í Macy's og kláraði jólagjöfina hennar ömmu og keypti tvær barnaflíkur á fyndnu verði... alltaf útsölur þarna, jú líka gollu handa mér sem var á 70% afslætti + 40% afslætti af því verði... ekki slæmt :-)

Rölti svo heim og var orðin svo svöng kl. 5 að ég keypti mér Subway á leiðinni og gúffaði honum í mig á röltinu, rigningarúði og raki svo ég svitnaði þvílíkt. Stökk inní Safeway og keypti vatn því ég mundi að það var búið á heimilinu og ekki er vatnið úr krananum beint gott!

Það var því þreytt Magga sem skreið upp tröppurnar með afrakstur dagsins + verkefnabækur dagsins. Nú er bara að láta renna í bað og taka rólegt kvöld, á morgun er FRÍ hjá mér og ætla ég að njóta þess. Var að hugsa um að skreppa á eitt safn á leiðinni úr Macy's en ég meikaði það einfaldlega ekki, verður að bíða betri tíma....

Í Coaching tímanum var skemmtileg útkoma, það var gaman að sjá hvernig Elena sá mynstrið hjá mér og hvernig allt tengdist hjá mér, eiginlega í eina viðskiptahugmynd... sem er mjög spennandi. Hún bað um leyfi hjá mér til að senda mitt „brainstorm" verkefni á hinar fjórar í hópnum svo þær gætu lesið þetta og jafnvel komið með hugmyndir á móti. Þetta er frábært og gott að fá feedback frá hinum. Það væri nú ekki slæmt að geta byrjað að undirbúa þetta hér og jafnvel kynna, ég get nefnilega notað alla mína reynslu, þekkkingu og skipulag í þetta. Ætla ekki að tjá mig mikið meira um þetta því ég þarf að hugsa þetta betur og sjá hvort þetta er eitthvað sem gengur upp!!!

Bestu kveðjur frá þreyttri Möggu

Wednesday, November 18, 2009

Batteríslaus...

...ég og tölvan.
Er komin í bólið, búin að horfa á eina mynd og ætla að fara að kúra. það eru 6 mín. eftir á batteríinu í tölvunni og sennilega álíka mikið eftir hjá mér.

- Enskunámskeið
- Fórum svo nokkrar saman í mat í mötuneyti World Bank, reynum að gera það eftir hvern tíma til að kynnast betur
- Spjallaði við Magga á Skype, hann er kominn til Tansaniu... tvö lönd eftir í viðbót, Eþíópía og Kenía... og svo Ísland í gegnum London, bara svona rétt aðeins í leiðinni heim!!
- Þvottavélaviðgerðamaðurinn kom og kláraði að laga vélina - looooooksins. Og hún virkar :-)
- Gerði boðskort fyrir Michele fyrir áramótapartýið
- Verkefni fyrir Networking á morgun... næstum búin - klára restina með morgunkaffinu
- Keypti kassa fyrir pakkann til Íslands...

3 mínútur eftir zzzzzzzzzzzzzzzzzz
Góða nótt
Magga

Tuesday, November 17, 2009

13 dagar...

13 dagar þangað til minn maður mætir á svæðið - verð fegin þegar hann kemur heill heim :-) Þetta er bara sami dagafjöldi og þegar maður fór að fá í skóinn - 13 dagar til jóla :-)

Byrjaði daginn á ræktinni, það var enginn fundur eða námskeið í dag - yes... þó það sé ekki slæmt þá er fínt að fá algjöran frídag inná milli.
Eftir góða sturtu ákvað ég að fara í Target, sem er e.k. lágvöruverslun með allt fyri heimilið og líka föt. Kíkti á barnafötin - fáránleg verð og freistaðist í smá handa frændsystkinum mínum... sendi þetta í vikunni Heiða og Daddi... (sendi þér mail Heiða) Þegar hægt er að fá flotta peysu fyrir $6 þá er það fáránlegt! Keypti líka glös því við eigum 3 stk. Það vantar ef einhverjir koma í mat og svo um jólin handa ungunum :-)

Ég fór svo í mat til Michele og Pete, frábært kvöld hjá okkur og fínasta pasta hjá henni, hún bjó á Ítalíu í 3 ár ssvo hún lærði ýmislegt þar.... Við Michele höfum náð mjög vel saman og höfum svipaðan húmor og áhugamál - og líka áherslunr í lífinu! Pete kom á óvart, Maggi hitti þau á ganginum í World Bank um daginn og hélt að hann væri ekki sín typa, en ég held að þeir séu ekki ólíkir, með sama skítahúmorinn og við eigum örugglega eftir að skemmta okkur vel saman :-) Er með texta á áramótapartýs boðskortin og ætla að senda á hana.... það verður sennilega fjör þar :-) Við káluðum góðu hvítvíni sem ég fór með til hennar (hún náði nefnilega bílprófinu í dag) og smökkuðum svo annað líka.... tók svo strætó heim.
Frábært kvöld og mjög gaman að tala við þau, fyndið að maður fattar stundum ekki að maður sé að tala ensku, þetta rennur stundum svo ljúflega að maður þarf ekki að hugsa. Eins og Michele sagði líka „þú átt að vera í næsta hópi fyrir ofan" semsagt efsta hópnum... ég fer þangað eftir áramót ef ég held áfram.... en minn hópur er samt svo frábær að mig langaði að klára þetta með þeim.

Nú er ég að hugsa um að skella mér í bólið, enskunámskeið hjá Michele í fyramálið kl. 10 og þá er eins gott að vera ferskur :-)

Góða nótt öll
Magga

Maggi í Úganda

Maggi sagði mér skemmtilega sögu á Skype í gær. Þeir Akin fóru í orkumálaráðuneytið í Úganda (Kampala) í gær og vildu ráðherra og fleiri sýna þeim slide show af því sem þeir eru að gera. Málið var að það voru bara til þrjár tölvu í ráðuneytinu og allar út útláni... hmmmm Maggi sökk því uppí leigubíl og sótti sína tölvu á hótelið.
Þá var byrjað á slide showinu og tókst að sýna 2 glærur þá fór rafmagnið... í ORKUMÁLA ráðuneytinu! Var því ákveðið að þeir færu allir í leigubíl og inná hótel hjá þeim og endaði það með að þeir kláruðu glærurnar og fundinn inni á hóttelherberginu :-)
Í dag er annar fundur og ætla þeir að halda hann inni á hótelherberginu, líklega mun öruggara en í opinberu byggingunum. Eins og Maggi sagði sjálfur þá myndi hann ekki endilega vilja búa þarna akkúrat núna.

Það kom viðvörun frá World Bank til þeirra um að það væri yfirvofandi hryðjuverkaárás þarna, úff ekki endilega vinalegt. Maggi er hinsvegar sallaraólegur og finnst hann mjög öruggur þarna, vopnaðir verðir á hverju götuhorni og því allt OK, kannski eins gott að haga sér þá vel líka :-)

Hótelið sem hann er á var víst hluti af útrýmingarbúðum Idi Amin - já þetta er svo sannarlega vinalegt umhverfi sem hann er í. Ég get sagt það að ég verð því fegnust þegar hann labbar hér inn um dyrnar og er kominn HEIM. En hinsvegar hefur Maggi verið heppinn hingað til og trúir því að hann sé heppinn - það er aðal málið.

Kv. frá DC, ætla í ræktina
Magga

Fann þessa mynd á netinu - Kampala höfuðborg Úganda

Frábær fyrirlestur í dag

Ég byrjaði daginn á að fara á frábæran fyrirlestur hjá manni sem heitir Chris Wright, þessi fyrirlestur var um persónuleikana 9 sem við finnum okkur öll í. Sumir sjá sig mjög greinilega í einum en aðrir í fleirum... þ.á.m. ég sem er SEXA, eins og hann sagði þá „myndi heimurinn ekki virka án sexunnar". Þetta var mjög áhugavert og hægt er að skoða þetta hér inni: http://www.enneagraminstitute.com/intro.asp Chris er e.k. hjónabandsmiðlaði og var þessi fyrirlestur til að fá okkur til að þekkja okkur sjálf og maka, jú börnin líka til að vita af hverju við högum okkur eins og við gerum og virða þarfir annara... hollt fyrir alla.

Þarna hitti ég fullt af mökum bankastarfsmanna og Anne forseti WBFN bað mig um að vinna fyrir þær eitt verkefni, það er Book Project sem þær eru með í kjallara byggingarinnar og fór ég niður með Hillary, sem sér um þetta. Þau vantar merkingar og kynningarefni til að bæði fá bækur frá fólki innan bankans (notaðar) og selja þeim það sem til er. Það er risa sending að fara til Tansaníu fljótlega, heill gámur... ótrúlegt starf sem er unnið þarna og verður spennandi að gera tillögur...

Ég ætlaði að fara í kvöldmat til Michele í kvöld en við ákváðum að fresta þessu til morguns, ég var eiginlega fegin því ég var algjörlega búin þegar ég kom heim kl. 5.... Keypti samt gott hvítvín á heimleiðinni til að taka með mér á morgun :-)

Fékk svar frá Elenu markþjálfanum mínum og var hún svo ánægð með Brainstorm verkefnið mitt að hún sagðist ekki hafa getað hætt að lesa fyrr en hún var búin - áhugavert efni sagði hún :-) Enda lagði ég svoooo mikla vinnu í þetta. Hún vildi fá að senda einni í hópnum fyrstu síðuna mína til að hjálpa henni að komast í gang - auðvitað var það í lagi, við erum jú að vinna þetta í sameiningu og eins ég sagði við hana þá fæ ég vonandi hjálp frá þeim og punkta sem ég get lært af.

Alexandre kom upp áðan og kíkti á þvottavélina það var þvílíkur hávaði í tromlunni þegar hún var að vinda að mér leist ekkert á þetta - vonandi kemst viðgerðarmaðurinn fljótlega því það er ekkert grín að hafa ekki þvottavél aðra viku... öll fötin úr ræktinni... og fleira.

Var að fá mail frá Elenu akkúrat núna (kl. 00:09) það eru fleiri en ég að vinna, henni finnst mín kynning óaðfinnanleg og betri kynning verði sennilega ekki í hópnum :-) ég eigi að vísu eftir að sjá eitthvað ólíkt frá hinum...

Byrjaði á kynningunni minni fyrir enskuna, ákvað að taka fyrir jólasveinana íslensku, hafa þetta á þjóðlegu nótunum. Og auðvitað vann ég þetta í tölvunni og er komin með 20 glærur... þetta eiga að vera 10 mín og ég vona að ég verði ekki mikið lengur að þessu en það :-) en svona er þetta þegar maður byrjar og jólasveinarnir eru nú 13 svo þeir verða að fá eina glæru hver + grýla + jólakötturinn og svo ein til að kynna landið... úff ég hlýt að vera fullkomunaristi... en þetta er jú mitt starf svo ég hlýt að gera þetta VEL!

Hér er fyrsta glæran... smá „þjóðarstolts glæra" :-)

Ég er búin að komast að því að besta „megrunaraðferðin" er að vera ein í 3 vikur, ég nenni ekki að elda og gleymi jafnvel að borða. Var orðin svo svöng áðan og ekki furða, kl. orðin 21... skellti á pönnu því sem til var í ísskápnnum: laukur, brokkoli, sveppir, hvítlaukur og ekki, barasta fínasta fylling...

En núna er ég að hugsa um að skella mér í bólið og reyna að komast lengra í bókinni minni, á ca 100 síður eftir... það er svo auðvelt að lognast út af við lesturinn - besta svefnmeðal :-)

Knús frá DC
Magga

Sunday, November 15, 2009

Búin með verkefnin mín

Í dag hélt ég að yrði rólegur dagur, var að vinna til miðnættis í gær til að klára verkefnin mín fyrir Markþjálfunina.
Ég byrjaði á að fara í ræktina til að hressa mig við, hitinn úti fór í 28° í dag svo ég settist út á svalir með dagblaðið og prjónaði svo aðeins. Þegar sólin var farin af svölunum fór ég inn hélt áfram að vinna í verkefnunum mínum, náði að klára þau kl. 10 í kvöld! Þetta endaði í tæplega 20 síðum og er ég ánægð með árangurinn. Ég er að komast að niðurstöðu, þarf að vinna betur í þessu og halda svo áfram. Ég spjallaði við pabba og mömmu á Skype en missti af Magga.
Á morgun eru 2 vikur þangað til hann kemur heim, 25 dagar eru eiginlega langur tími... ég á örugglega eftir að komast að því síðar :-) En ég hef nóg að gera og spennandi verkefni í gagni.
Á morgun fer ég á fund/fyrirlestur í WBFN, var að skoða e-mailið sem Catherine sendi mér, þar er viðhengi uppá 4 síður sem ég þarf að lesa, best að fara með tölvuna uppí rúm og lesa þetta. Þetta er fyrirlestur hjá manni sem heitir Chris Wright og er e.k. hjónabandsráðgjafi. Fyrirlesturinn heitir „Now Let's Figure Out Your Relationship", þetta er spennandi :-) Mér skilst að þetta skjal sem ég á að lesa sé um 9 mismunandi persónuleika og hvernig þeir eiga saman... nú er bara að sjá hvort fræðin segi að við Maggi eigum saman ha, ha, ha, ha....
Ég var svo svöng seinnipartinn að ég fór út á Connecticut Ave og sá þar hamborgarastað, ekta amerískan með borgurum, shake og tilheyrandi sukki, fékk mér hamborgara og franskar... hef aldrei farið þarna inn og er EKKI vön að kaupa mér svona mat, vantaði bara ofurorku. Fékk svo mikið af tómatsósubréfum með að þau endast sennilega fram á næsta ár, en ég gúffaði þessu í mig með bestu lyst hér heima og eiginlega það eina sem ég hef borðað í dag af viti (ekki endilega viturlegur matur - en samt.... eins og einhver segir alltaf :-)

Klukkan er orðin 11 og því eins gott að koma sér í bólið og lesa þetta skjal. Ég held að þetta byrji kl. 9 á morgun og til kl. 3 svo það verður ekkert gefið eftir. Michele og Pete eru búin að bjóða mér í mat annað kvöld og verður það sennilega ekki leiðinlegt. Hef ekki hitt Pete en Michele er fín.

Góða nótt og sofið rótt - það ætla ég allavega að gera!
Magga

Saturday, November 14, 2009

Brainstorm...

Í dag hef ég lítið gert en að hugsa og hugsa.. brainstorm, og er orðin yfirfull af hugmyndum. Það var verkefni dagsins að klára verkefnin fyrir Coaching. Ég er búin með eitt stk. sem var hugmyndavinna fyrir hvað mig langar að gera, hvaða leiðir get ég farið af krossgötunum stóru - sem ég er búin að standa á alltof lengi.
Það komu upp hugmyndir, sumar er ég búin að hafa lengi og aðrar nýrri, þetta er svosem ekkert nýtt aðal málið er bara að koma þessu frá sér í bundið mál... og það er eitt af því sem ég hef áhuga á, þ.e. að skrifa. En þetta kemur allt í ljós og ég á eftir að mæta í ca 4 tíma í Coaching. Ég lofaði Elenu að klára þetta um helgina og ætla að gera það.
Nú á ég eftir að skrifa 6-8 sögur þar sem ég er í aðalhlutverki, ekki hugsa um hvað aðrir halda eða hugsa, bara hvernig ég var og hvernig mér leið, úff ég er komin með 6 hugmyndir en á eftir að skrifa þetta allt, hálf blaðsíða hver og á ensku... maður fer nú að verða nokkuð góður :-)

Nú mallaar þvottavélin og þurrkarinn líka... jú og uppþvottavélin líka. Viðgerðarmaðurinn birtist allt í einu og gerði við þetta, varahlutirnir voru komnir. Alexandre boppaði hér á milli hæða, var að brasa eitthvað niðri svo við tvö gátum spjallað saman á meðan, man bara alls ekki hvað hann heitir. Já á milli þess sem Dagný hringdi á Skype og Maggi líka, hann talaði við Alexandre og viðgerðamanninn í leiðinni... um Afríku og viðgerðirnar, ekki slæmt að geta verið viðstaddur úr annari heimsálfu.
Þessi gaur er frá Afríku, mjög gaman að spjalla við hann og var hann með heilmikinn fyrirlestur um þvottaefni. Fólk notaði alltof mikið sem verður til þess að það verður of mikil froða, þvottavélin ræður ekki við að koma henni allri út um götin í tromlunni og þ.a.l. verður hún eftir inni í tromlunni og allar bakteríurnar líka, fara í þvottinn og verða svo eftir í vélinni. Hann segir að þetta sé ástæðan fyrir því að vond lykt verði í vélinni og af þvottinum líka.
Semsagt, ein matskeið af þvottaefni í eina vél gerir allt sem gera þarf... þvottaefni er gert úr olíum og allskonar efnum sem vinna saman og við þurfum ekki meiri olíu í þvottinn en þá olíu sem er í þvottinum.... semsagt pínu lítið. Það var gaman að honum og greinilega mikill spekingur.
Þannig að ef vond lykt er af þvottinum ykkar = of mikið þvottaefni... speki dagsins.
Ætlaði í ræktina en svo byrjaði ég á þessari vinnu, sleppti ræktinni og er ekki einu sinni farin í sturtu enn, en ætla nú bara að skella mér í hana áður en ég held áfram.

Mér var boðið á RC meeting á mánudaginn hjá WBFN, þetta er e.k. fulltrúaráðsfundur og hélt ég í byrjun að ég hefði ekki átt að fá þetta mail, en jú sem „active member" er mér boðið, það verður einhver fyrirlestur um persónuleika og hvernig á að leysa ágreining, bara spennandi.

Fyndið líka að ég var að skoða Mosaic, sem er blað World Bank Family Network, gefið út mánaðarlega og sá þá undir upplýsingasíðunni að mitt nafn er þar undir Publication / Graphics Team... ekki slæmt. Svo las ég eina grein í blaðinu um Picnik sem var í október, þar var talað um hvernig undirbúningurinn hefði gengið og var þar Margreti (nota ekki é í nafninu hér) þakkað fyrir flotta hönnun :-) hmmmmmm maður er bara að verða frægur innan samfélagsins he, he...

Jæja ekki meira bull, ætla að skrifa sögur um MIG og sjá hvernig mér gengur að koma þessu frá mér... ef ég þekki sjálfa mig rétt þá verð ég búin að fylla hálfa síðu áður en ég veit af!

Magga


Friday, November 13, 2009

Föstudagur og leti... eða hvað

Nú er kominn enn einn föstudagur, rúm vika síðan Maggi fór og ekki nema rúmar tvær þangað til hann kemur aftur.... ekki nema segi ég, mér finnst það nú bara alveg nógu asskoti mikið.

Veðrið í dag er búið að vera ömurlegt, rigning og rok og rigning og rok og.... ekki orð um það meir. Ákvað því að halda mig bara inni í dag, það var ekkert sérstakt sem ég ÞURFTI að gera úti svo það var barasta engin ástæða til að rennblotna - jú ég ætlaði í Body Pump kl. 12...
Byrjaði á að ryksuga hér, var orðið heldur ógeðslegt. Ætlaði reyndar að bíða eftir að þvottavélaviðgerðarmaðurinn kæmi í dag... en hann sást ekki. Ryksugan er svo hávær og var ekkert að virka, þurfti því að opna hana og prófa allavega hundakúnstir til að fá þetta til að virka, loksins sogaði hún upp ruslið og ég kláraði íbúðina - alla :-) og ákvað svo að henda mér í íþróttagallann... kl. var þá orðin 11:57, djööööö var ég spæld, allt þessari ryksugu að kenna að ég missti af tímanum. Nú þá var bara að halda áfram í ræktinni (heima) og skúraði því líka, ákvað svo að halda áfram og bakaði eina smákökuuppskrift, fáum tvo matarháka um jólin svo það er ágætt að byrja á að birgja sig upp :-)
Talaði heillengi við Dagnýju á Skype og það var bara fínasta skemmtun, daman hefur áhyggjur af lögfræðinni, það er greinilega markvisst verið að fella liðið... svo margir í náminu núna. Hún er ekki beint heppin að vera þarna akkúrat núna, þó svo þetta sé sennilega gáfulegasta fjárfestingin, þ.e. að vera í námi.

Fyrst ég var komin í stuð þá ákvað ég bara að skella mér í ræktina, mér líður alltaf svoooo vel á eftir og maður keyrir sig í botn, í dag var ég í einhverju ofurformi svo ég var þarna í sennilega 2 klst, labbaði, fór á stigvélina og lyfti + haug af magaæfingum... Nú get ég fengið mér pizzu, bjór og jafnvel low fat ís með góðri samvisku.

Á morgun er svo harkan, ég ÞARF/VERÐ að klára verkefnin mín fyrir námskeiðin, fer svo á fund á mánudaginn og þarf að lesa eitthvað fyrir það líka... helgin fer sennilega í þetta :-( en OK þetta er það sem ég vildi, vinna í sjálfri mér og þá er eins gott að gera það og standa sig... og taka svo ákvörðunina stóru í restina.

Er banhungruð og er búin að kveikja á ofninum, ætla að henda einhverju ofaná frosnu pizzuna og henda mér í sturtu á meðan hún bakast. Oh no, ég var búin að setja hreinsilög í baðkarið og klósettið + vaskinn áður en ég fór í ræktina, þarf víst að þrífa þetta áður...
Þá er ég bara búin að því :-)

Meira seinna
ps. hér eru myndirnar sem ég talaði um í gær, sem ég tók á síman minn og sýnir laufin hér. Ekki góð gæði en mér tókst að senda þær á mailið mitt.

Magga

Svona lítur gatan út, þykkt lag yfir öllu og þetta orðið að grauti

Bílarnir eru löðrandi í laufum, þessi er nú bara með lítið af þeim miðað við aðra sem eru eins og auglýsing fyrir haustútsölu :-)

...og svona lítur út fyrir framan húsið okkar, það hefur ekkert verið hreinsað hér og ekki ætla ég að gera það :-) Nú er ég fegin að vera ekki húseigandi því þetta er þvílíkur viðbjóður, sérstaklega eftir að hafa gegnblotnað...